20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

195. mál, hafnargerðir við Dyrhólaey og í Þykkvabæ

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þótt ég hafi því miður ekki ástæðu til þess að fagna yfir miklum afrekum í þeirri rannsókn, sem hér hefur verið spurt um, þá. tæt ég þó í ljós ánægju mína yfir þeirri hreinskilni ráðh. að segja það hér nokkurn veginn umbúðalaust, að í þessum málum hefur ekkert verið gert. Ég fagna því að sjálfsögðu, ef rétt reynist, að nú séu væntanlegir til starfs á þessu sviði sérfróðir menn, sem muni gera hér undistöðumælingar í framtíðinni á því, hverjir hafnargerðarmöguleikar muni vera við suðurströndina yfirleitt. En ég held, að það fari ekki á milli mála af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér um þetta mál, að þá hefur engin raunveruleg rannsókn farið fram á því, hverjir möguleikar eru til hafnargerðar á þessum tveim tilteknu stöðum.

En þó að ég láti í ljós ánægju mína yfir því að fá það hreint út, hvernig þessi mál standa, vil ég láta í ljós alveg sérstaka óánægju mína með eitt atriði, sem fram kom í svarinu og að vísu snerti ekki ráðherra sjálfan eða hans embætti, heldur hitt, hvernig vitamálastjóri svarar því, þegar honum er send þáltill. og hans embætti er beðið um að framkvæma hana. Þá kemur fram í svarinu, að vitamálastjóri segist ekki sjá neinn hagrænan grundvöll fyrir þessari hafnargerð. Það er ekki verið að spyrja vitamálastjóra um það. Þegar Alþingi samþ. að fela ríkisstj. að láta fara fram ákveðna rannsókn á ákveðnum hlutum, eins og því, hvort hægt sé að gera höfn í Þykkvabæ eða við Dyrhólaey, þá er það auðvitað að svara Alþingi út úr, þegar vitamálaskrifstofan sendir rn. sem sitt svar bréf um það, að hún sjái engan hagrænan grundvöll undir þeim framkvæmdum, sem hún er beðin að rannsaka, hvort fram geti farið. Og mér þótti eðlilegt, að hæstv. ráðh. léti sitt rn. setja afan í við skrifstofu vitamálastjóra fyrir að svara ráðuneytinu, sem greinilega á að framsendast sem svar til Alþingis, þannig út úr. Þetta er ekkert annað en að snúa út úr. Þótt vitamálastjóri eða hans skrifstofa hafi ekki komið auga á neinn hagrænan grundvöll fyrir höfn á Suðurlandi, eru það, sem betur fer, ýmsir aðrir, sem hafa komið auga á þann möguleika. A.m.k. mega það vera furðusljóir menn, sem hafa á þessum vetri, það sem af honum er, ýmist horft á eða heyrt fréttir af því, að milljónaverðmætum hefur verið ausið upp úr hafinu einmitt á þeim slóðum, fram undan Dyrhólaey og þar um kring, og síðan hefur þetta ýmist ekki komizt í not vegna þess, hve langt var til hafnar, eða ekki nema sem skemmd vara, sem aðeins gat farið í ódýrustu vinnslu, og þannig hefur þjóðarbúið orðið af milljónatugum. Og mér er nær að halda, að það megi segja um það eins og hugsanlega Dyrhólahöfn með slumpareikningi, að þar hafi farið hundruð millj. kr. verðmæti forgörðum, þegar árin liða þannig hvert af öðru, að svona standa málin, eins og við höfum horft á nú 2 undanfarin ár, að þarna nýtist ekki af síldveiðimöguleikum vegna þess, hve langt er til hafnar.

Ég ætla svo að lokum að láta í ljós þá ósk mína, að þrátt fyrir það, hver seinagangur hefur orðið hér á verði undinn bugur að því að rannsaka þetta mál, ekki með því að lesa yfir gömul bréf, sem stjörnufræðingur hefur einhverju sinni fyrir meira en áratug hugleitt um það, hve brimaldan nái þarna langt út, og hvað mörg tonn af sandi muni flytjast þarna til með ströndinni, heldur verði málið rannsakað eins og mál þarf að rannsaka sem undirbúning að framkvæmdum. Það er að vísu alveg hárrétt, að út úr slíkri rannsókn gæti komið, að það væri íslenzku þjóðinni ofviða á þessari stundu að leggja í þá mannvirkjagerð, sem hér um ræðir. En það er ekki vitamálaskrifstofunnar að meta það og haga rannsóknum sínum skv. því. Hún á auðvitað að framkvæma það, sem henni er falið af því ráðuneyti, sem hún heyrir undir, og ég vænti þess, að það verði hún látin vita til eftirbreytni framvegis og að því verði hún látin vinna í framtíðinni.