20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

195. mál, hafnargerðir við Dyrhólaey og í Þykkvabæ

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. taldi það fráleitt að taka sem svar við þáltill. frá 1961 það, sem dr. Trausti Einarsson hefði skrifað um málið 1950. Og hann bætti því við í sinni fyrri ræðu, þó að hann vildi nú draga úr því í þeirri seinni, að það væri stjörnufræðingur, sem hefði skrifað um málið 1950, og það var greinilegt, að í því var háðstónn, því vík ég ekki frá, og þar með var reynt að gera tortryggilegt það verk, sem dr. Trausti hafði unnið, af því að hann væri frekar hæfur til þess að skoða stjörnur, að því er manni skildist, heldur en brim og sandburð við strendur landsins. Þetta var að mínu viti ómaklega mælt, og þetta vítti ég.

En þetta svar dr. Trausta frá 1950 er nauðsynlegur grundvöllur til þess að skilja, vegna hvers dregizt hefur á langinn, eina og gert hefur, um eitt sumar að koma fram nauðsynlegum rannsóknum, sem þarf að gera, áður en svar fæst við þeirri spurningu, sem lögð hefur verið fyrir, og það er sá mikli sandburður, sem dr. Trausti lagði áherzlu á, á þessu svæði. Hann þarf að rannsaka og rannsaka betur, og það er það, sem stefnt hefur verið að því að gera nú í vor og í sumar með komu hins erlenda sérfræðings í þeim efnum. Og þetta byggist fyrst og fremst á þeirri niðurstöðu dr. Trausta, stjörnufræðingsins, frá 1950. Raunar vissu það allir menn og var mér raunar vel kunnugt fyrr á árum, að sandburður með ströndinni er geysimikill. Menn muna það, sem muna Kötlugosið og Kötlutanga 1918, sem myndaðist kílómetra fram í sjóinn, hann hvarf á tiltölulega stuttum tíma og fluttist úr stað. Þar voru milljónir af teningsmetrum af sandi á ferð, þó að hv. 8. þm. Sunnl. vitji gera lítið úr því. Nei, það er þessi vísindalega athugun, sem þarf að fara fram, áður en hægt er að segja nokkurn hlut um möguleikana á því að gera höfn á þessu svæði. Það er sandburðurinn fyrst og fremst, fyrir utan þær ráðstafanir, sem þarf svo að gera, af því að þetta er fyrir opnu hafi, en það vita menn betur, hvernig fyrir liggur.

Þá endurtók þessi hv. þm., að það væri ekki maklegt af vitamálastjóra að sletta því svona í sinni umsögn, að það væri ekki hagrænn grundvöttur fyrir hendi, eins og stæði. Þegar vitamálastjóri gefur rn. umsagnir um hafnargerðir, a.m.k. ef þær eru eitthvað erfiðar viðfangs og dýrar, þá er m.a. ævinlega óskað eftir því, að hann gefi umsagnir um líkurnar fyrir því, að höfnin geti staðið undir þeim útgjöldum, sem hún þarf að bera, svo að það er ekkert nýtt í þessu tilfelli, þó að vitamálastjóri bendi á það, að sér sýnist ekki vera hagrænn grundvöllur undir þessa hafnargerð, eins og stendur. Hitt er svo annað mál og þess getur hann alveg réttilega í sínu bréfi eða sinni umsögn, að ef til komi einhver stóriðja á Suðurlandsundirlendinu, þá megi vera, að hún myndi þann fjárhagslega grundvöll, sem til þurfi, en eins og er, þá sé hann ekki fyrir hendi.

Þá taldi hv. þm., að það væri of djúpt í árinni tekið hjá mér að segja, að hér væri áróðursmál á ferð. En eins og greinilega kom fram í minni ræðu, þá var því beint til málsmeðferðar þessa hv. þm., því að ég kalla það áróðursmál, þegar um svo veigamikið efni er að ræða eins og hér, að hann reynir að gera það tortryggilegt, að málinu er ekki flaustrað af, án þess að það sé nánar athugað, og eins hitt, að gera bæði umsagnir vitamálastjóra og þeirra manna, sem að þessu hafa unnið, eins tortryggilegar og hann reyndi að gera. Það var þessi málsmeðferð, sem ég kunni ekki við og kallaði áróðurslega frekar heldur en efnislega. En málið er þannig vaxið, að það þarf gaumgæfilega athugun, sem það hefur ekki fengið enn þá og það hefur ekki etað fenið, því að það er á einskis manns færi, hvorki þessa hv. þm. né ég vil segja flestra íslenzkra verkfræðinga að gefa þá umsögn, sem þarf til þess að svara, hvernig varið er efnisflutningunum með ströndinni á Suðurlandi.