20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

253. mál, starfsfræðsla

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. varaþm. úr Norðurlandskjördæmi eystra, Valtýr Kristjánsson, sem mætti hér á Alþingi í forföllum mínum um skeið, bar fram fsp. þá um starfsfræðslu, sem nú er fyrir tekin. Ég tel mér skylt, af því að hann er vikinn af þingi, að fylgja fsp. úr hlaði með nokkrum orðum, enda var hún lögð fram í samráði við mig.

Eins og allir vita, er lífshamingja hvers manns undir því komin, að hann lendi ekki á, rangri hillu, þegar hann velur sér lífsstarf. Þess vegna má það val ekki vera af handahófi gert, heldur ef unnt er af skilningi og í samræmi við hæfileika hvers manns. Starfsfræðsla hefur að meginmarkmiði að kynna unglingum starfsgreinar, svo að þeir geti betur en ella valið sér lífsstarf, er séu þeim við hæfi, m.ö.o. komizt á rétta hillu í lífinu, eins og kallað er.

Sagt er, að ekki séu nema um 55 ár síðan hafin var skipuleg starfsfræðsla, og var byrjunin gerð í Bandaríkjunum, í Boston. En nú er svo komið, að allar helztu menningarþjóðir leggja ríka áherzlu á starfsfræðslu, enda er hennar meiri og meiri þörf með hverju ári sem líður, því að starfsgreinum fjölgar og verkaskipting vex ört. Það er talið, að starfsgreinar muni vera orðnar í he3minum milli 20 og 30 þúsund.

Öll Norðurlöndin nema Íaland munu hafa tekið starfsfræðsluna upp í fræðslukerfi sín. Hér á landi voru lengi vel atvinnuhættir mjög einfaldir og fábrotnir. Hinir ungu fræddust af hinum eldri um starfsgreinarnar, og var sú fræðsla í mjög nánu sambandi við heimili manna, og þetta varð að duga. Nú er þetta gerbreytt, og ný viðhorf krefjast nýrra aðgerða. Starfsgreinar eru að verða allmargar hér á landi eða svo að hundruðum skiptir, að því er fróðir menn um þessi efni segja.

Höfuðborgin, Reykjavík, hefur riðið á vaðið og gefið æsku sinni kost á nokkurri starfsfræðslu síðustu árin, þó að ekki hafi verið í föstu formi að öðru leyti en því, að haldinn hefur verið árlega almennur starfsfræðsludagur a.m.k. 7 ár í röð og starfsfræðsludagur einnig fyrir sjávarútveginn a.m.k. þrem eða fjórum sinnum. Einnig hafa allir ungtingar hér í Reykjavík, um leið og þeir útskrifast úr unglingaskóla, átt kost á að fá ókeypis bókina Starfsval, en sú bók er fróðlegt rit og skemmtilegt um þessi efni. Þetta er höfuðborginni til sóma og þeim áhugamönnum úr atvinnustéttunum, sem tekið hafa þátt í að byggja upp viðfangsefni starfsfræðsludaganna og sýningar á þeim.

Reykjavík lagði í þann tilkostnað árið 1951 að ráða sérstakan mann til að vinna að framkvæmd þessara málefna, ótaf Gunnarsson sálfræðing. Og hans verk hefur verið þetta, að undirbúa framkvæmd starfsfræðslu í Reykjavík og stjórna henni. En jafnframt var gert ráð fyrir því af hlutaðeigendum, að ég held, að starfsemin færðist innan skamms yfir til ríkisins og næði þá til landsins alls. Hefur Ólafur Gunnarsson verið driffjöður í þessum málum og óþreytandi í ræðu, riti og viðtölum að vekja áhuga á nauðsyn starfsfræðslu og skýra, í hverju hún er fólgin og hvað gerist hjá öðrum þjóðum í þessum efnum. Það má óefað telja, að honum sé að verulegu leyti að þakka, að mikill áhugi er risinn víðs vegar um landið fyrir því, að komið verði á fót skipulegri starfsfræðslu í landinu. ólafur Gunnarsson hefur mikið ferðazt um landið til að halda fyrirlestra í skólum, sem hafa beðið hann að heimsækja sig og fræða í þessum málum, og hann hefur skipulagt með heimamönnum, þ.e. atvinnurekendum og kennurum, þrjá starfsfræðsludaga á Akureyri, einn á Akranesi og einn á Siglufirði, og nú liggur fyrir, að hann hjálpi heimamönnum á Sauðárkróki eftir beiðni þeirra að koma þar á starfsfræðsludegi um næstu mánaðamót.

Hinn 1. júní 1980 samþykkti Alþingi svo hljóðandi þál. um starfsfræðslu, sem ég les, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga möguleika á því, að starfsfræðsla verði tekin upp í skólum landsins.“

Ég man ekki betur en þessi till. væri samþ. með öllum atkv. viðstaddra þm., svo að þingviljinn virtist ótvíræður. Ekkert hef ég frétt um, hvað hæstv. ríkisstj. hefur gert vegna áskorunar þessarar. Máske má segja, að efni hennar sé ekki að öllu leyti innan ramma fsb., en vissulega væri fróðlegt og ekki utan við efnið að heyra í leiðinni, þegar fsp. verður svara. hvaða framkvæmdir þessi þáltill. hefur hlotið.

Fsp. er annars þannig, að henni er sérstaklega beint til hæstv. atvmrh., Ingólfs Jónssonar, sem ég veit ekki betur en hafi áhuga á starfsfræðslu, og spurt er vegna landsbyggðarinnar fyrst og fremst utan Reykjavíkur. einmitt af því, að Reykjavík hefur sjálf, eins og ég gat um, veitt æsku sinni nokkrar úrlausnir í þessum málum. Spurningin er í tveim liðum, svo hljóðandi, með leyfi hæstvirts forseta:

„1) Hvað hefur atvmrh. gert til þess að tryggja, að unglingar í dreifbýlinu eigi hið fyrsta kost á nauðsynlegri starfsfræðslu, sem þegar hefur verið hafin í Reykjavík?

2) Hvernig er áformað að verja fjárhæð þeirri, sem á 16. gr., IX. lið, fjárl. 1963 er ætluð til starfsfræðslu utan Reykjavíkur?“

Seint í fyrravetur barst okkur þm. Norðurl. e. bréf frá framámönnum í atvinnumálum og kennslumálum á Akureyri. Í bréfi þessu báðu þeir okkur að leggja því lið, að stofnað yrði til starfsfræðslunámskeiðs á vegum ríkisins fyrir kennara og um leið skipulögð uppfræðsla á því sviði. Við þm. að norðan framsendum erindi þetta með meðmælum okkar til hæstv. ráðh.. Emils Jónssonar. Litlu síðar fengum við tilkynningu frá honum um, að hann hefði látið málaleitunina ganga til menntmrn. Af þessu erindi okkar hef ég svo engar fréttir haft síðan. Menntmrn. hefur mér vitanlega engu svarað því til okkar þm. Nú teldi ég æskilegt, að upplýst yrði, enda er það innan ramma fsp. þessarar, hvort ekki er áformað að stofna á þessu ári til slíks námskeiðs, en það álít ég að gæti orðið mikilsverður aflgjafi til starfsfræðslustarfsemi úti um land og skipuleg byrjun á undirbúningi allsherjar framkvæmdar í þessum málum fyrir landið allt.