20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

253. mál, starfsfræðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég get strax svarað því, sem hv. fyrirspyrjandi talaði um í niðurlagi ræðu sinnar. Það var það, hvort fyrirhugað væri að halda kennaranámskeið í starfsfræðslu. Mér er kunnugt um það, að menntmrh. hefur beitt sér fyrir því, að þetta mætti verða á næsta hausti. Mér er einnig kunnugt um það, að menntmrh. hefur áhuga á því, að starfsfræðsla verði tekin upp í kennaraskótanum, þannig að kennaraefnin læri sérstaklega í kennaraskólanum að fara með þau mál. Og mér er kunnugt um, að menntmrh. telur eðlilegt og bezt til árangurs í þessum málum, að starfsfræðslan verði tekin upp í skólunum í 1-13 ára bekkjum þannig að unglingarnir fái í skólunum fræðslu um þessi mál. Ég tel þetta vel farið og hygg, að þarna sé rétt stefnt. Hins vegar tel ég, að það geti einnig verið rétt og eðlilegt að halda áfram á þeirri leið, sem hefur verið farin síðan 1951–1952, að Ólafur Gunnarsson fór að undirbúa sérstaka starfsfræðsludaga. Ég hygg, að þeir dagar, þessir starfsfræðsludagar, hafi gert ýmislegt gott og að margir unglingar hafi þar fengið talsverða fræðslu um hin ýmsu störf, sem nú eru orðin margþætt og breytileg í okkar þjóðfélagi. Og ég get tekið undir það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að ég hygg, að Ólafur Gunnarsson hafi unnið þarft og gott verk með þessu.

En starfsfræðsludagarnir hafa verið oftast aðeins hér í Reykjavík, og það er þess vegna Reykjavíkuræskan, sem helzt hefur notið þessa. í tilefni af því var nú í fyrsta sinn sett á fjárlög litil upphæð, sem ætluð er til starfsfræðslu utan Reykjavíkur. Þetta er vitanlega lítil upphæð, aðeins 30 þús. kr., en það er í fyrsta sinn, sem þetta er tekið á fjárlög í þessu skyni. Og þá er það, lít ég svo á, til þess að styrkja starfsfræðsludaga utan Reykjavíkur, og jafnvel hafa ýmsir hv. þm., sem beittu sér fyrir því, að þessi fjárhæð væri tekin á fjárlagagrein, sem ég ávísa af, þeir hafa jafnvel sérstaklega ætlazt til þess, að þessi fjárhæð væri notuð í sveitunum eða í dreifbýlinu, geri ég ráð fyrir.

Ég skal viðurkenna það, að ég hef ekki enn hugsað nægilega mikið, hvernig þessi upphæð gæti komið að sem beztum notum. En ég hef rætt við Ólaf Gunnarsson um þetta, þar sem hann hefur reynsluna, og okkur hefur komið saman um, að í þetta sinn yrði þessu fé bezt varið með því að styrkja starfsfræðsludaga utan Reykjavíkur. Það var nefnt hér áðan, að það yrði starfsfræðsludagur á Sauðárkróki um næstu mánaðamót, og það er gert ráð fyrir, að unglingum úr Skagafirði og Húnavatnssýslu verði sérstaklega boðið á þennan starfsfræðsludag. Í sambandi við það verður vitanlega nokkur kostnaður, undirbúningskostnaður Ólafs, hann hefur verið beðinn sérstaklega um að mæta þarna. Ég tel eðlilegt að styrkja tarfsfræðsludaginn á Sauðárkróki að einhverju leyti og vænti þess, að það þjóni ilganginum. Mér er einnig kunnugt um það að ýmsir fleiri aðilar hafa snúið sér til Ólafs Gunnarssonar og óskað eftir aðstoð hans til að skipuleggja starfsfræðsludaga, og teldi ég þá eðlilegt að verja þessari upphæð, svo lengi sem hún endist, til styrktar hinum ýmsu starfsfræðsludögum víðs vegar um landið, þar sem erfiðast er að koma þeim á, og gera þá unglingum úr hinum ýmsu byggðum mögulegt að koma á starfsfræðsludagana og kynna sér það, sem þar fer fram.

N.k. sunnudag er starfsfræðsludagur hér í Reykjavík, og það hefur verið vakin sérstök athygli á þessum degi meðal unglinga hér á Suður- og Suðvesturlandi og þess vænzt, að þeir noti tækifærið og komi til Reykjavíkur og kynnist því, sem fram fer á starfsfræðsludeginum n.k. sunnudag.

Ég vænti þess, að það verði ekki talið mér mikið til ámælis, þó að ekki hafi enn verið hafðar uppi stórar ráðagerðir í sambandi við starfsfræðslu utan Reykjavíkur vegna þessarar upphæðar, sem nú fyrsta sinn er á fjárlögum til að styrkja þá starfsemi, og það er vitanlega ljóst, að það er ekki nema örlítið, sem hægt er að gera við þessa upphæð. Ég tel, að þótt í framkvæmd komi, sem ég vona að verði, áætlun menntmrh. um starfsfræðslukennslu í skólum, að starfsfræðsludagar í því formi, sem þeir áður hafa verið, geti haft sína þýðingu og það sé vitanlega ekki nóg, að þessir starfsfræðsludagar verði helzt aðeins hér í Reykjavík, heldur þurfi þeir að vera sem víðast um landið, þar sem hægt er að koma því við, svo að unglingar sem víðast af landinu geti notið þessarar fræðslu, ekki aðeins í skólunum, heldur einnig á starfsfræðsludögum, þar sem er til sýnis ýmislegt frá hinum ýmsu atvinnuvegum og þar sem er kannske enn betra tækifæri til skýringar af hinum ýmsu forstöðumönnum starfsgreinanna heldur en þótt kennslan færi fram í skólum, sem að sjálfsögðu er mikilvægt spor til framfara frá því, sem verið hefur.

Ég get tekið undir það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að það er vitanlega mikils virði, að æskan og unglingarnir kynnist atvinnulífinu, kynnist hinum ýmsu og mörgu starfsgreinum, sem um er að ræða í okkar þjóðfélagi. Það er enginn vafi á því, að það er mikill og góður efniviður í íslenzkri æsku, og það er mikils virði, að hver og einn velji sér það starf, sem hann er hæfur til og hann hefur áhuga á, og þjóðfélagið gengur því betur sem hlutfallið milli hinna ýmsu nauðsynlegu atvinnuvega verður í meira og betra jafnvægi.

Ég tel ekki ástæðu til að segja öllu meira í sambandi við þessa fsp. Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi láti sér eftir atvikum nægja það, sem ég hef sagt, og ég er vitanlega reiðubúinn til að hlýða á ábendingar um það, hvernig bezt mætti verja því fé, sem á fjárlögum er í þessu efni. En ég hef talið að þessu sinni, að á meðan ekki er um meira fé að ræða en þetta, þá verði því bezt varið til að stuðla að því, að starfsfræðsludagar geti komizt á utan Reykjavíkur, eins og ég benti á áðan, og borga ferðakostnað fræðslustjórans í Reykjavík, sem hefur verið beðinn um aðstoð við þessa daga, og þá á annan hátt, eftir því sem hægt væri að koma því við.