19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

254. mál, Siglufjarðarvegur

Fyrirspyrjandi (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um fyrirhugaðar framkvæmdir í Siglufjarðarvegi ytri, svokölluðum Strákavegi. Fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Hvaða ákvarðanir hefur ríkisstj. tekið um framkvæmdir í Siglufjarðarvegi ytri á þessu eða næsta ári?

2) Hefur verið fengið lán til framkvæmdanna? Ef svo er, þá hvar og hve mikið?“ Eins og menn vita, hafa Siglfirðingar búið við óviðunandi samgöngur á landi frá fyrstu tíð. Skarðsvegur liggur yfir skarðið í 630 m hæð yfir sjó, og getur umferð þar stöðvazt vegna snjókomu á hvaða tíma árs sem er. Segja má, að vegurinn hafi aldrei verið fulllagður, enda afar erfið öll vegarlagning á þessum stað. T.d. má benda á það, að hvergi í námunda við veginn er nothæfur ofaníburður.

Það mun hafa verið í kringum 1950, að farið var að ræða í alvöru um nauðsyn þess að fá nýjan veg til Siglufjarðar, sem lagður yrði út með ströndinni, í gegnum fjallið Siglufjarðarmegin og fyrir Stráka. Áður höfðu aðrar leiðir verið ræddar og rannsakaðar allýtarlega, m.a. að gera jarðgöng úr botni fjarðarins og vegurinn hefði þá komið niður nokkuð fyrir innan Hraun. Frá þeirri hugmynd var þó horfið af ótta við snjóþyngsli beggja vegna við fjallið. Samkv. áliti vegamálastjóra var talið fært að leggja veg út með ströndinni Siglufjarðarmegin með jarðgöngum gegnum fjallið og inn Almenninga að vestan.

Á Alþingi 1953–1954 var flutt till. af þm. Siglf., þm. Skagf. og mér um, að athugað yrði nýtt vegarstæði milli Siglufjarðar og Skagafjarðar. Till. náði fram að ganga. Árið 1955 var svo Siglufjarðarvegur ytri tekinn í þjóðvegatölu. Fyrsta fjárveiting til vegarins var veitt 1956 og var 100 þús. kr. Síðan hafa á hverju ári verið veittar til vegarins nokkur hundruð þúsund kr. og fyrir þá upphæð unnið flest árin. Almennt er talið, að hinn nýi vegur verði fær mestan hluta árs.

Samkv. upplýsingum, sem ég fékk frá vegamálastjóra fyrir nokkru, hafði þá engin ný og endanleg kostnaðaráætlun verið gerð. En með hliðsjón af verðlagi miðað við árið 1960 var kostnaður við jarðgöngin, vegalagningu og brýr talin nema tæpum 18 millj. kr. Síðan hefur allt verðlag stórlega hækkað, og vitanlega eru þessar 18 millj., sem vegurinn var talinn þá kosta, úreltar að því leyti. Heyrzt hefur, að ný kostnaðaráætlun sé í uppsiglingu, sem sýni, að vegurinn komi til með að kosta eitthvað um 21–22 millj. kr.

Búið er að leggja bráðabirgðaveg Siglufjarðarmegin út að fyrirhuguðum jarðgöngum og sprengja inn í fjallið 30 m. Skagafjarðarmegin hefur verið undirbyggður 4 km kafli, en eftir er að leggja um 10 km langan veg og byggja nokkrar brýr. Á þessu stutta yfirliti sést, að vegalagningu — þessari er mjög skammt á veg komið, og mun þurfa stórátak til að ljúka byggingunni ásamt sprengingum á 900 metra löngum jarðgöngum á rúmum tveimur árum, eins og fram hefur komið að eigi að gera.

21. febr. s.l. birti dagblaðið Vísir, eitt aðalmálgagn hæstv. ríkisstj., svo hljóðandi fregn, með leyfi hæstv, forseta:

„Einangrun Siglufjarðar rofin, jarðgöngin sprengd á næsta ári.“

Í greininni er sagt, að ákveðið hafi verið að fullgera veginn að vestan að fyrirhuguðum jarðgöngum gegnum fjallið Stráka á þessu ári. Kostnaðurinn við þá framkvæmd er talinn munu nema 3–4 millj. kr. Ákveðið sé að hefja á þessu ári tæknilegan undirbúning að því að sprengja jarðgöngin. Loks hafi svo verið ákveðið, að jarðgöngin verði gerð á næsta ári.

Nokkru eftir að þessi frétt birtist, átti ég langt tal við vegamálastjóra um fyrirhugaðar framkvæmdir í Siglufjarðarvegi ytri. Þær upplýsingar, sem ég fékk frá vegamálastjóra þá, voru ekki í samræmi við þá frétt, sem stjórnarblaðið Vísir hafði flutt. Hvað síðar kann að hafa gerzt í málinu, er mér ókunnugt um, að öðru leyti en því, sem fram kemur í hinni nýju framkvæmdáætlun ríkisstj.

Að fengnum þeim upplýsingum hjá vegamálastjóra, sem fyrr getur, taldi ég rétt að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um fyrirhugaðar framkvæmdir í Siglufjarðarvegi ytri á þessu og næsta ári. Það hefur dregizt hjá hæstv. samgmrh. að svara þessari fsp. Til þess liggja máske eðlilegar ástæður. Ráðh. óskaði að fresta því að svara fsp., m.a. þar til framkvæmdaáætlunin væri komin fram, og varð ég við þeirri ósk hans og varð um það samkomulag. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh, muni nú hér á eftir veita umbeðnar upptýsingar. Hér er um stórhagsmunamál að ræða, ekki aðeins fyrir Siglfirðinga, heldur alla þá mörgu, sem viðskipti þurfa að hafa við þennan mikla athafnabæ á komandi tímum.