19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

254. mál, Siglufjarðarvegur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur fengið svar, a.m.k. að nokkru leyti, við þessari fsp. með því að lesa á bls. 45 í þjóðhagsáætluninni, þar sem ráðgert er að gera Strákaveg. En til þess að gera svarið fyllra, þykir rétt að lesa hér upp bréf frá vegamálastjóra máli þessu viðvíkjandi.

Í samræmi við það, sem sagt er í þjóðhagsáætluninni, er gert ráð fyrir, að verkið verði unnið á 3 árum og því lokið haustið 1965. Fjárþörfin verður þá hvert ár þannig, að 4 millj. þarf á yfirstandandi ári, 10.5 millj. 1964 og 6.5 millj. 1965. Þetta eru 20 millj., sem vegamálastjóri reiknar með. Hins vegar er gert ráð fyrir 21 millj. í þjóðhagsáætluninni. En á svona miklu verki getur náttúrlega alltaf skeikað um 1 millj. kr. eða 5%. Þótti eðlilegra að áætla upphæðina heldur ríflegri heldur en minni.

Vegamálastjóri segir enn fremur, að ráðgert sé að feila niður vinnu við jarðgöngin á tímabilinu desember–febrúar 1964–1965, þar sem nokkur hætta er á því, að snjóar og byljir geti torveldað hagkvæma nýtingu efnis þess, sem úr göngunum kemur, til vegfyllingar á veginum frá göngunum til Siglufjarðar.

Fé það, sem er fyrir hendi til framkvæmda í Siglufjarðarvegi, er 700 þús. kr. fjárveiting, og auk þess má geta þess, að hv. þm. Norðurl. v. munu hafa ráðstafað 300 þús. kr. af því fé, sem þeir höfðu aukalega til skiptanna í kjördæminu, þannig að samkv. þessu á að vera til ráðstöfunar á árinu allt að 4 millj. kr., eins og vegamálastjóri telur þörf vera á og hægt að nota á þessu ári. Og það segir reyndar í bréfi vegamálastjóra:

„Líklegt er, að þm. Norðurl. v. muni ætla um 300 þús. kr. til Siglufjarðarvegar ytri af því fé til samgöngubóta, sem veitt er á 13. gr. A. II í fjárl., er til ráðstöfunar yrðu til viðbótar þessum 700 þús.“

En ég hef sannfrétt, að hv. þm. hafa gert þetta, sem vegamálastjóri hefur ætlað þeim að gera.

Vegamálastjóri segir enn fremur: „Á það skal bent, að tími til tæknilegs undirbúnings svo umfangsmikilla framkvæmda er allnaumur,“ Hann telur, að það sé útilokað, að hægt sé að byrja á jarðgöngunum fyrr en á næsta ári, tæknilegur undirbúningur til að hefja vinnu við jarðgöngin geti ekki verið tilbúinn fyrr en næsta vetur.

En þá er það vegurinn í Fljótum. Þar er gert ráð fyrir a,ð vinna, eins og segir í bréfi vegamálastjóra, fyrir 4 millj. á yfirstandandi ári, og telur hann ekki í rauninni hægt að nota meira fé á þessu ári, því að það eru margar brýr, sem þarf að gera á veginum, og það er ekki hægt að vinna við þær, fyrr en vegurinn hefur verið lagður að þeim, og því hefur þessu veríð raðað niður þannig, eins og ég las hér upp úr bréfinu, 4 millj. kr. árið 1963, 10.5 millj. kr. 1964 og 6.5 millj. kr. 1965. Og í samræmi við þessa áætlun, sem gerð er grein fyrir í bréfi vegamálastjóra, hefur verið tekið upp í þjóðhagsáætlunina, að Strákavegur yrði byggður á tilskildum tíma, og segir hér á bls. 45, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er einnig ætlunin að vinna á þessu og næsta ári að byggingu Strákavegar á milli Siglufjarðar og Fljóta og ljúka byggingunni að fullu á árinu 1965. Aðalkostnaðurinn við þessa framkvæmd er fólginn í jarðgöngum. Ráðgert er, að bygging þeirra hefjist vorið 1964, en hún krefst rækilegs tæknilegs undirbúnings. Lagning vegar úr Fljótum að göngunum mun halda áfram á þessu sumri, og er áætlað að verja til þess 3 millj. kr. samkv. þessari áætlun hér, auk þess sem er á fjárl. Sá vegur mun síðan fullbyggður sumarið 1964 og göngunum lokið í ágústmánuði 1965. Heildarkostnaður allra framkvæmdanna er áætlaður um 21 millj. kr.“

Það er gert ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, 5% hærri upphæð en er í bréfi vegamálastjóra.

Ég ætla, að hv. 11. landsk., fyrirspyrjandi, hafi fengið nægileg og skýr svör við fsp. g tel ekki óeðlilegt, að Siglfirðingar og aðrir séu orðnir óþolinmóðir að bíða eftir því, að þessi vegur komi. Ég held, að það séu 15 eða 16 ár síðan þáv. þm. Siglf. var með till. um að gera Strákaveg, þannig að þetta mál hefur verið nokkuð lengi á leiðinni, og ég vil samfagna Siglfirðingum og öðrum, sem eiga að njóta þessa vegar, að sjá loksins fyrir endann á þessu máli, þar sem það hefur verið tekið upp í þjóðhagsáætlunina, eins og raun ber vitni.