19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (3403)

254. mál, Siglufjarðarvegur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta mál er orðið kunnugt hér á þingi, því að því hefur oft verið hreyft. Það var á fyrsta þinginu á þessu kjörtímabili, 1959, snemma á þingi, þá bárum við allir þm. úr Norðurl. v. fram þáttill., og efni hennar var að feta ríkisstj. að athuga möguleika á öflun lánsfjár til að ljúka þessari vegagerð, Strákavegi. Þessi till. fékk ekki afgreiðslu á því þingi, dagaði uppi. Flutningi málsins hefur verið haldið áfram á kjörtímabilinu. Á Alþingi í fyrra bárum við þm. kjördæmisins fram frv. um lántöku vegna Siglufjarðarvegar ytri. Þá barst Alþingi undirskriftaskjal frá 785 Siglfirðingum, þar sem skorað var á ríkisstj. og Alþingi að tryggja nægjanlegt fé til að ljúka vegalagningu fyrir fjallið Stráka ásamt tilheyrandi jarðgöngum á næstu 1–2 árum. Þetta var 1962. Þetta frv. okkar fékk ekki afgreiðslu á þingi í fyrra. Því var það, að við þrír þm. úr kjördæminu bárum frv. fram núna í upphafi þessa þings. Fleiri fengust þá ekki til að gerast flm. Í því frv. er lagt til, að stjórninni verði heimilað að taka lán til þess að greiða kostnað við lagningu Siglufjarðarvegar og verði við það miðað, að vegagerðinni verði lokið á árinu 1964. Þetta frumvarp hefur verið allan tímann í samgöngumálanefnd þingsins og ekki fengizt afgreitt þaðan.

Nú er hér getið um þennan veg í svonefndri þjóðhags- og framkvæmdaáætlun ríkisstj., og þar er sagt, að það sé ætlunin að vinna að byggingu vegarins á næstu árum, á árinu 1963 að verja til hans nokkru meira fé en er á fjárlögum, halda síðan áfram 1964 og á árinu 1965. Ég vil nú skora á hæstv. ríkisstj. að hraða þessari áætlun. Það hlýtur að vera mögulegt t.d. að vinna meira í ár, 1963. að vegagerðinni heldur en þarna er gert ráð fyrir, og ég býst við, að Siglfirðingar mundu telja nokkurs um vert að fá þegar á þessu ári sem mest framkvæmt af þessu fyrirheiti. Ég býst við, að þeir teldu það miklu skipta. Það hlýtur að vera hægt að verja meira fé til þess og vinna fyrir meira en þessar 4 millj., sem ráðh. var að tala um, og ég vil skora á stjórnina að gera það.

Það er talað um hér, að jarðgangagerðin krefjist rækilegs tæknilegs undirbúnings. Mér er ekki ljóst, hve hann er langt á veg kominn, en ég verð að láta í ljós óánægju yfir því, ef mikið skortir á, að athugunum og rannsóknum og tæknilegum undirbúningi sé lokið. Vitanlega hefði átt að vera búið að athuga þá hlið málsins og vinna þá undirbúningsvinnu, sem nauðsynleg var, til þess að hægt væri að hefjast handa við vegagerðina af fullum krafti, strax og fé fékkst til hennar. Ég vil láta í ljós óánægju með þetta, að að þessu hefur ekki verið unnið áður. En sem sagt, ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að hraða þessu máli, láta vinna meira í ár en þarna er gert ráð fyrir og hraða málinu eftir föngum, þannig að Siglfirðingar geti fengið þennan bráðnauðsynlega veg fyrr en gert er ráð fyrir í þessari áætlun.