19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. 2. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. nema nokkrar mínútur og ætlaði mér ekki að taka þátt í umr., en út af ræðu hæstv. fjmrh. vildi ég segja nokkur orð.

Hæstv. ráðh. gat um það, að í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna núna væru ekki nýjar álögur. Við bentum á það við fjárlagaafgreiðslu 1960, að álögurnar væru slíkar, að þar væri gert ráð fyrir verulegum tekjuafgangi. Síðan hefur hæstv. ríkisstj. fellt gengið í annað sinn og viðhaldið þeim álögum, sem þá voru á lagðar, eða bráðabirgðasöluskattinum, enda hafa tollar og skattar hækkað á þessum fjárl. frá 1958 um 1150 millj. kr. Ekki sé ég ástæðu til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa ekki bætt þar ofan á auk þeirra álagna, sem hafa verið lagðar á almenning utan fjárl., sem ég benti á við 2. umr. fjárlfrv.

Hæstv. ráðh. segir, að það hafi hækkað framlög til verklegra framkvæmda um 108% . Það hefur verið bent á það í þessum umr., að þegar fjárlög verða nú endanlega afgreidd, þá hafa þau hækkað um hér um bil 150% frá 1958. Er það allverulega meiri upphæð en hækkað hefur verið til verklegra framkvæmda. Til viðbótar þessu má benda á það, sem ég gerði hér við 2. umr., að á umferðina í landinu hefur verið lagður hækkaður benzínskattur, sem nemur 270% til ríkissjóðs, auk þess sem bilainnflutningurinn mun nú á þessu ári gefa ríkissjóði um 200 millj. kr. í nettótekjur umfram það, sem fer til vegagerðarinnar í landinu. Hinn sífellt aukni bílainnflutningur krefst betri vega en áður og meiri vega. Það hefði því verið fullkomin ástæða til að leggja meira til þessara mála en nokkru sinni fyrr, en framlag til vegamála hefur hækkað síðan 1958 um 54% .

Hæstv. ráðh. segir, að till. okkar nú sýni ábyrgðarleysi og glannaskap við fjárlagaafgreiðsluna. Við bentum á það við 2. umr., að ætla mætti, að tekjur færu fram úr þeirri áætlun, sem meiri hl. og hæstv. ríkisstj. lagði til, þar sem m.a. væri byggt á því, að innflutningur til landsins mundi ekki aukast nema um 6% frá því 1962, en hann eykst um 18% frá 1961 til 1962. Í sambandi við þetta vil ég segja það, að við bentum á það í fyrra, að tekjuáætlun mundi fara fram úr því, sem þá var gert ráð fyrir af hæstv. ríkisstj., og nú er nokkurn veginn sannað, að hún, muni fara 200-300 millj. kr. fram úr áætlun. Þó að þessar till. okkar yrðu samþ., sem við vitum reyndar fyrir fram, hvernig hæstv. stjórnarliðar muni afgreiða, mundu standa fram úr röskar 10 millj. kr. Ég verð að segja, að ef svo naum er tekjuáætlun fjári., sem er upp á 2 milljarða og 200 millj., að 10 millj. frá eða til hafi þar mikil áhrif, þá skiptir litlu máli, hvor áætlunin væri tekin, En auk þess mun ríkissjóður á þessu ári hafa verulegan tekjuafgang, sem nemur um 100–200 millj. kr. En ég vil í sambandi við það minna á, að þegar fjárlagaafgreiðsla fór hér fram á síðasta ári, bentum við á, að niðurgreiðslur væru áætlaðar a, m. k. 70–80 millj. kr. of lágt. Hæstv. ríkisstj. lét sig það engu skipta. En um mánaðamótin nóvember–desember voru niðurgreiðslur orðnar 78.9 millj. umfram fjárlög. Ég hef líka bent á það í þessum umr., að rafveitur ríkisins munu koma til með að skulda rekstrarhalla upp á 80–90 millj. kr. við lok þessa árs. Á það er ekki horft. Þegar svo stórar fjárhæðir liggja utan garðs, er ekki ástæða til að tala um smámunina.

Og að lokum þetta: Það einkennir þessa fjárlagaafgreiðslu, eins og fjármálastjórn hæstv. ríkisstj. er, að sparnaður fyrirfinnst enginn, dýrtíðin stendur alls staðar upp úr.