17.12.1962
Efri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

4. mál, ráðherraábyrgð

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Eins og tekið hefur verið fram, varð allshn. ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Ég taldi ekki ástæðu til þess að mæla með samþykkt þess og geri nokkra grein fyrir því í nál. á þskj. 173. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um rök mín fyrir því, að ég tel heppilegast, að þessu frv. sé að þessu sinni a.m.k. vísað frá. Ég hef gert grein fyrir því í nál., eins og ég tók fram.

Ég skal taka það fram, að ég er einn meðal þeirra, sem ekki telja þörf á sérstökum lögum um ráðherraábyrgð. Ég veit ekki, hversu margir eru hér á landi sömu skoðunar, en svo virðist sem í nokkrum þingræðislöndum séu menn almennt á því máli, að ekki sé þörf slíkra laga, og kann ég þar að nefna Danmörku, þar sem ekki hefur fengizt meiri hl. fyrir því að setja slík lög. Nú verða lög um ráðherraábyrgð að vera til hér á landi, það heimtar stjórnarskráin. En það er ekki þar með sagt, að það sé það heppilegasta. Ég lýsi hér minni persónulegu skoðun, tala aðeins fyrir sjálfan mig, en ekki aðra. Ég er þeirrar skoðunar, að bezt væri komið, að engin lög um ráðherraábyrgð væru til, og þar næst tel ég heppilegast, að slíkum lögum yrði aldrei beitt. Þeim hefur ekki verið beitt á þeim 60 árum, sem þau hafa staðið, og ég held, að heppilegast væri, að enginn hugsaði til þess í framtíðinni að beita þessum lögum. Það er skoðun mín, að ef lögð yrði áherzla á það að beita þessum lögum, hvenær sem ástæða þætti til að dómi einhverra, sem hlut eiga að máli, þá yrði sú beiting hæglega og kannske fljótlega að misbeitingu. Þetta er höfuðástæðan til þess, að mér finnst hið háa Alþingi eigi sem minnst um þetta mál að fjalla, lofa l. frá 1904 að standa áfram steingerðum og úreltum, eins og þau eru, en vera ekki að færa þau í neinn nútímabúning eða gera þau hæfari til þess, að þeim yrði beitt.

Ég finn ekki að þessu frv., sem hér liggur fyrir, svo mjög. Það er ekki ástæðan til þess, að ég æski, að því sé vísað frá, heldur það, sem ég nú hef gert grein fyrir. Þar fyrir er ég ekkert frá því, að á þessu frv. séu vissir gallar. Mér skilst, að í því séu nýmæli, sé viðbót, sem að vissu leyti geri lögin víðtækari en þau gömlu. En það álít ég einmitt galla. Í grg., sem frv. fylgir, er getið um eitt nýmæli í 10. gr. og jafnframt á það bent, að það nýmæli ásamt öðrum ákvæðum þeirrar greinar sé býsna matskennt. En það tel ég sérstakan galla á lögum sem þessum, að mikið sé í þeim af matskenndum atriðum. Þessi lög ættu að vera stutt og laggóð og svo skýr í ákvæðum sem unnt er. Það tel ég mjög mikilsvert um lög af þessu tagi.

E.t.v. stend ég einn uppi með það hér á Alþingi að hafa vissan beyg, ef tekið yrði upp á því að beita þessum lögum. Reynslan hefur ekki staðfest réttmæti slíks ótta, lögunum hefur aldrei verið beitt. En það, sem ég óttast, er, að þeim kunni að verða beitt, og því frekar sem lögin eru nýrri og nútímalegri, — að þeim kunni að verða beitt, ef flokkadrættir miklir yrðu í landinu, harðdrægni ykist í stjórnmálunum, að þá gæti nýr meiri hl. notað sér ákvæði l. því frekar sem þau væru matskenndari til þess að ná sér niðri á gömlum andstæðingum. Þetta óttast ég. En ástæðan til þess ótta yrði að sjálfsögðu minni, ef við byggjum við lög í þessu efni, sem væru úrelt, þætti litt hæfa að beita.

Það er mín tili., að þessu frv. verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Deildin telur nýja löggjöf um ráðherraábyrgð ekki aðkallandi og að frekari athugunar sé þörf, áður en til hennar komi. Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða málið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“