12.02.1963
Efri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

145. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1963

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, er svo fyrir mælt í stjórnarskrá landsins, að reglulegt Alþ. skuli koma saman árlega fyrir 15. febr., nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Það er einnig kunnugt öllum hv. alþm., að þessu þingi, sem nú stendur yfir, verður ekki lokið fyrir þann tíma. Þess vegna er það frv., sem hér er til umræðu, borið fram, í því skyni, að fullnægt hafi verið þessu ákvæði stjórnarskrárinnar með því að heimila, að Alþ. skuli koma saman eigi síðar en 10. okt. n.k., en fyrr, ef forseti Íslands ákveður annan samkomudag.

Það hefur verið venja, þegar slík frv. hafa verið borin fram, að þau hafa verið afgreidd nefndarlaust á þremur fundum, sem hafa verið hver á eftir öðrum, og vildi ég leyfa mér að mælast til, að sú málsmeðferð yrði einnig höfð hér að þessu sinni.