15.11.1962
Neðri deild: 15. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

86. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 1. júní s.1. H/f Hvalur hafði þá sótt um innflutning á einu hvalveiðiskipi 13 ára gömlu, en eins og kunnugt er, þá banna íslenzk lög, að skip séu flutt inn, sem eldri eru en 12 ára, og þurfti þess vegna lagaheimild, til þess að skipið mætti koma til landsins. Undanfarin ár hefur nokkrum sinnum verið vikið frá þessu 12 ára marki með sérstakri lagaheimild, aðallega þegar um var að ræða skip sérstakrar tegundar, t.d. eins og hvalveiðiskipin, sem hafa verið leyfð á þennan hátt, að ég ætla tvisvar sinnum áður. Í umsögn skipaskoðunarstjóra um málið í vor segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Umræddur hvalveiðibátur, Gos 12, er samkv. skipaskrá Det norske Veritas byggður árið 1948 í Tönsberg mekaniske værksted í Noregi, í flokki Det norske Veritas a-l, hvalfanger, 481 brúttórúmlest. Flokkunarskoðun á bol hefur farið fram í nóvember 1960.“

Síðan segir skipaskoðunarstjóri:

„Samkv. lögum um eftirlit með skipum, 35. gr. l. nr. 50 frá 1959, þá þarf aðalskoðun flokkaðs skips, sem innflutt er til landsins, ekki að fara fram, fyrr en skipið er komið til landsins. Út frá því sjónarmiði tei ég því rétt að mæla með, að leyfður verði innflutningur á umræddu skipi. Hins vegar má ég ekki samkv. sömu grein mæla með innflutningi skips, sem er eldra en 12 ára. Þar sem hér er um sérstakt skip að ræða, skipagerð, sem almennt er mjög sterkbyggð, og aldurinn aðeins 13 ár, vil ég fyrir mitt leyti leyfa mér að mæla með, að sérlög verði sett um heimild til innflutnings þessa skips. — Hins vegar er ég því ekki meðmæltur, að þessari takmörkun miðaðri við 12 ára aldur verði breytt í lögum um eftirlit með skipum, en ég tel það rétt að takmarka, svo sem frekast er unnt, kaup skipa eldri en 12 ára til landsins. Hér er um sérstakt skip að ræða, sem er nýrra og fullkomnara en flest hinna eldri hvalveiðiskipa íslenzkra, sem eru sum orðin 30-36 ára gömul, og því um endurnýjun að ræða, sem til hagsbóta á að geta orðið íslenzkum hvalveiðum.“

Það er náttúrlega heldur leiðinlegt að þurfa í hvert skipti, sem svona tilfelli kemur fyrir, að fara með málið til Alþingis og setja um það sérstök lög, en það er skoðun skipaskoðunarstjórans, að það sé æskilegt að halda í skipaskoðunarlögunum þessu 12 ára marki sem almennri reglu og ekki hvika frá því nema í einstökum tilfellum að sérstaklega athuguðu máli.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.