27.11.1962
Neðri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

86. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi

Frsm. (Birgir Finnsson):

Hæstv. forseti. Sjútvn. hefur athugað frv, á þskj. 106 um heimild fyrir ráðh. til þess að leyfa h/f Hval innflutning á einu hvalveiðiskipi, þótt eldra sé en 12 ára. N. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. Þess er þó að geta, að einn nm. var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið, eins og fram kemur í nál., en sá nm. hefur síðar tjáð sig samþykkan frv.

Eins og hæstv. sjútvmrh. gat um, þegar hann talaði fyrir þessu frv. er hér um að ræða skip, sem er 13 ára, eða einu ári eldra en lög leyfa að skip séu, sem flutt eru inn. Þarf þess vegna sérstaka undanþágu frá því ákvæði laga, sem nú er í 35. gr. l. nr. 50 frá 1959, um þetta efni. Sams konar undanþága hefur nokkrum sinnum áður verið veitt, en það skip, sem nú er um að ræða að flytja inn, verður yngsta hvalveiðiskipið, því að þau, sem fyrir eru, munu flest vera 30–36 ára, þannig að með innflutningi þessa skips er um verulega uppyngingu á hvalveiðiflotanum að ræða, ef svo mætti segja.

Sjútvn. er sammála því, sem hæstv. sjútvmrh. tók fram í framsöguræðu sinni fyrir frv., að ekki sé rétt að slaka á ákvæðum laga um innflutning á gömlum skipum, frekar en gert er með þessum undanþágum fyrir hvalveiðiskipin. Þau hafa nokkra sérstöðu, bæði vegna þess, að það mun yfirleitt lítið um byggingu slikra skipa í heiminum og erfitt að fá þau byggð, og svo hafa þau hér á landi þá sérstöðu hvað útgerðina snertir, að þau eru einungis gerð út á þeim tíma árs, þegar búast má við, að veðurbliða sé mest og útgerð af þeim sökum áhættuminni en annars. Með tilliti til þessa leyfi ég mér að mæla með því fyrir hönd sjútvn., að frv. verði samþykkt.