21.11.1962
Neðri deild: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

99. mál, framkvæmdalán

Eysteinn Jónsson:

Ég álít sjálfsagt að taka því vel að greiða fyrir því, að þetta mál geti orðið afgreitt sem fyrst frá hv. Alþingi og í tæka tíð, til þess að lántakan geti farið fram tafarlaust. Ég mun því ekki þreyta langar umr. um þetta mál, þó að það gæti gefið tilefni til ýmiss konar hugleiðinga um efnahags- og fjárhagsmál landsins, aðeins minna á örfá atriði í því sambandi, nánast til þess að skýra það eða færa rök fyrir því, að Framsfl. mun eindregið styðja þetta frv. og þessa lántöku.

Þegar núv. stjórnarflokkar tóku við og gerðu sína nýju efnahagsáætlun, sem þeir sjálfir hafa kallað viðreisn, gerðu þeir ákaflega mikið úr þeim stórkostlega greiðsluhalla, sem hefði verið nokkur ár, greiðsluhallanum við útlönd, eins og það mun hafa verið orðað. Töldu þeir hann æðimikinn, nefndu háar tölur í því sambandi. Þeir sögðu, að þessi greiðsluhalli við útlönd, sem hefði verið jafnaður með erlendum lántökum, væri vottur þess, að þjóðin yrði að herða mjög að sér, og á því væri byggð sú kjaraskerðing, sem þjóðinni var ætluð í hinni nýju efnahagsáætlun.

Þessi greiðsluhalli, sem talinn var, stafaði fyrst og fremst af ýmsum stórvirkjum, stórkostlegum framkvæmdum, sem þjóðin hafði ráðizt í og tekið til erlend lán, erlend stofnkostnaðarlán. Þetta var þá kallað greiðsluhalli við útlönd. Því var þá lýst yfir, að það ætti að snúa alveg við á þessari braut og þjóðin ætti í staðinn að fara að borga niður skuldir. T.d. er mér minnisstætt, að efnahagsmálaráðunautur, sem hingað kom frá Noregi til að skoða hina nýju áætlun og framkvæmd hennar, greindi frá því og hafði það sem undirstöðu að sínu áliti á því, hvort þetta hefði verið nauðsynlegt, að sér hefði verið sagt, hann yrði að byggja á því, sem sér hefði verið sagt, — að það ætti að lækka erlendar skuldir árlega sem svaraði afborgunum af þeim lánum, sem fyrir voru. Sem sagt, það var sagt, að það hefði verið stórkostlegur greiðsluhalli, verið tekin of mikil lán, jafnvel þótt til framkvæmda væru, það yrði að fara að lækka skuldirnar við útlönd og þess vegna yrði þjóðin að leggja verulega að sér.

Við bentum strax á veilurnar í þessum málflutningi. Í fyrsta lagi, að hér var ekki um lántökur að ræða, sem gerðu þjóðinni erfiðara fyrir, og þurfti engin kjaraskerðing að verða þeirra vegna. Það var alveg ljóst. Enn fremur gerðum við grein fyrir því, að þessi stefna, sem þá var lýst yfir að ætti að fara að fylgja, að lækka erlendu skuldirnar á þennan hátt og þvinga þjóðina efnahagslega til að koma slíku í framkvæmd, væri með öllu óraunhæf og óframkvæmanleg. Það væri ekki hugsanlegt annað en að þjóð eins og Íslendingar, sem þurfa að byggja upp talsvert hratt og notfæra sér mikla ónotaða möguleika, þyrfti að taka og ætti að taka erlend lán til að koma mörgum nauðsynjaverkum í framkvæmd. Því væri þessi stefna óraunhæf og óframkvæmanleg.

Nú skal ég ekki fara lengra út í þetta, heldur aðeins segja, að öll reynslan hefur sýnt, að við höfðum rétt fyrir okkur í þessu, því að vitanlega hefur ekki reynzt framkvæmanlegt að lækka skuldirnar við útlönd, heldur hafa margar lántökur átt sér stað, síðan núv. hæstv. ríkisstj. og núv. meiri hl. tók við, og skuldirnar við útlönd ekki lækkað, heldur vaxið.

En greinilegasta yfirlýsingin um, að það er ekki hægt að komast hjá því að taka framkvæmdalán erlendis, ef ekki á að stefna öllu í strand, og þar með verður að fara að í aðaldráttum eins og við fórum að í því efni, —greinilegasta yfirlýsingin í þessa átt er þó vitaskuld þetta frv., sem hér liggur fyrir af hendi hæstv. ríkisstj. um heimild handa henni til að taka 2 millj. punda framkvæmdalán erlendis.

Það kemur mér ekki á óvart, að slíkt frv. hlyti að koma fram og slík ráðstöfun og aðrar fleiri í sömu átt hlytu að verða gerðar, því að það hefur gefið auga leið, að svona hlaut að fara. Hin stefnan var ekki framkvæmanleg.

Ég hef undanfarið hér á hv. Alþingi, þegar efnahagsmálin hefur borið á góma, á þessu þingi sérstaklega, bent á, hvernig komið er í landinu varðandi stofnkostnað við nýjar framkvæmdir annars vegar og hins vegar tekjur almennings í landinu og fjármagn til þess að standa undir stofnkostnaðinum. Stofnkostnaðurinn í öllum greinum er orðinn svo gífurlegur vegna dýrtíðarráðstafana hæstv. ríkisstj. og efnahagsmálastefnu hennar yfirleitt, að það horfir til mikils samdráttar, ef ekki er hægt að endurskoða allt fjárfestingarlánakerfið og veita miklu hærri fjárfestingarlán yfirleitt í nær öllum greinum en gert er nú í dag.

Ég hef í þessu sambandi bent á þá pólitík ríkisstj., sem hún hefur rekið, að loka inni verulegan hluta af sparifénu í stað þess að hafa það í umferð. Og ég hef bent á, að þrýstingurinn í sambandi við hinn gífurlega stofnkostnað, sem orðinn er, hlyti að verða til þess, að ef ekki yrði horfið frá þeirri braut að loka inni hluta af sparifénu, yrði að taka þeim mun meira af erlendum lánum í fjárfestinguna. Náttúrlega er mér ljóst, að jafnvel þó að hætt yrði að loka inni spariféð, yrði líka að fá eitthvað talsvert af erlendum lánum inn í fjárfestinguna, ef uppbyggingin á að geta orðið nógu hröð til að mæta þeirri ofsalegu dýrtíðarþenslu, sem orðin er í landinu, og þeim almennu hækkunum, sem fram undan eru í því sambandi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir um lántökuheimild fyrir ríkisstj., sýnir glöggt, að hæstv. ríkisstj. hefur orðið að komast að þeirri niðurstöðu, að það þurfti meira fé í fjárfestinguna og að það fé varð að sækja utan. Það varð að sækja það inn í landið með erlendum lánum að verulegu leyti. Og þeim mun meira sem lokað verður inni af því fjármagni, sem safnast í landinu sjálfu, og fryst í bankakerfinu, þeim mun meira verður að taka að láni erlendis með löngum lánum, ef hægt er að fá þau, til þess að fjárveitingin dragist ekki óeðlilega saman eða stöðvist í vissum greinum.

Það þarf ekki annað en að skoða, í hverja klípu komið er í þessum efnum samkvæmt fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eins og ég hef bent þinginu á í öðru sambandi. Það er alveg óðfluga farið að gera ráð fyrir því, að ekki komist fyrir á fjárlagafrv. ýmsar framkvæmdir, sem áður hefur verið talið sjálfsagt að greiða af ríkistekjunum, eins og t.d. vegagerðir í stórum stíl, skólabyggingar og ýmsar aðrar framkvæmdir á vegum ríkisins, sem áður hefur verið talið að ætti og verið mögulegt að greiða að mestu eða öllu af ríkistekjunum. Nú er óðfluga farið að gera ráð fyrir því að taka lán til þessara framkvæmda, sumpart innanlands og sumpart erlendis. Þannig er vandinn orðinn varðandi fjárfestingarframkvæmdirnar og fjármagn til þess að standa undir þeim. Það þarf ekkert annað en líta á ástandið í landbúnaðinum að þessu leyti, kostnaðinn við að koma upp búunum eða við framkvæmdir í sveitunum eða kostnaðinn við að koma upp íbúðum eða eignast báta og skip og aðrar framkvæmdir við sjóinn, íhuga þennan kostnað annars vegar og svo þau lán, sem nú eru látin í té úr fjárfestingarlánakerfinu, enn fremur raforkuframkvæmdir, sem hljóta að standa fyrir dyrum, og fjölmargt fleira. Þá sjáum við, í hvaða sjálfheldu þessi mál eru komin, og út úr henni verður að reyna að komast eftir jákvæðu leiðinni, með því að auka framleiðsluna í landinu og framleiðnina, og til þess þarf meira fjárfestingarfjármagn en áður hefur verið fyrir hendi. Og það verðum við að fá með því að nota okkar eigið fé eins mikið og við mögulega getum, hafa það í umferð, og taka líka talsvert mikið af erlendum framkvæmdalánum.

Út frá þessu sjónarmiði, sem ég hef hér verið að lýsa, erum við í Framsfl. eindregnir stuðningsmenn þessarar lántöku, sem hæstv. ríkisstj. efnir til, og kemur okkur síður en svo á óvart, að til hennar er efnt. En í sambandi við þetta mál hlýtur að setja að manni kvíða, þegar það er athugað, hve 240 millj., sem eru 2 millj. sterlingspund, hrökkva skammt og hverfa fljótt í þá dýrtíðarhít, sem orðin er í landinu og kemur einna gleggst fram í stofnkostnaði hinna nýju, nauðsynlegu framkvæmda. Ef við t.d. íhugum þessa fjárhæð annars vegar og svo hvað það mundi kosta í dag að byggja sementsverksmiðjuna eða áburðarverksmiðjuna eða Sogsvirkjunina síðustu, þá sjáum við, hvernig þessi mál eru komin og hvað þessi fjárhæð, sem mönnum vex nú nokkuð í augum, þegar þeir sjá hana á blaði, er orðin pínulítil í samanburði við það, sem þarf til þess að koma verulegum skrið á stærri framkvæmdir.

Til dæmis að taka Keflavikurvegurinn, sem farið er að byggja fyrir lánsfé og er náttúrlega lífsnauðsynleg framkvæmd, mér skilst, að hann muni aldrei geta kostað minna en um 200 millj. kr., ef ég hef réttar upplýsingar, að km í steyptum vegi kosti einhvers staðar á milli 4 og 5 millj. Og ég nefni þetta bara sem dæmi. Mér kemur í hug á stundinni framkvæmd, sem verið er að vinna að.

Það er því sannarlega ekki ófyrirsynju að fara út í þessa lántöku, og ég mæli því eindregið með frv. Ég tel rétt, að Alþingi ráðstafi með lögum lánsfénu, eins og hér hefur yfir höfuð verið venja, og þegar frá þeirri venju hefur verið vikið, hefur það verið gagnrýnt hér á Alþingi — og það að mínu viti réttilega gagnrýnt. Þess vegna ætti að setja sérstök lög um skiptingu lánsfjárins síðar, þegar hæstv. ríkisstj. væri tilbúin með sínar till. í því efni.

Á hinn bóginn er nokkuð til bóta sú breyt., sem gerð var á frv. í þessu efni í Ed., þar sem gert er ráð fyrir, að það sé þó haft samráð við fjvn. þingsins varðandi skiptingu lánsfjárins. En það eina eðlilega í þessu er, að sett séu sérstök lög um ráðstöfun lánsfjárins. Við sjáum, að hér er um talsverða fjárhæð að ræða, þegar hún er borin saman við það, sem veitt er til verklegra framkvæmda á fjárlögum, og ákaflega þýðingarmikið, í hvað þessir fjármunir fara. Er auðvitað eðlilegt, að hv. þm. geti komið að till. sínum um þetta, en það geta þeir ekki, ef hæstv. ríkisstj. ráðstafar fénu, og jafnvel ekki þó að það sé gert í samráði við hv. fjvn. Þeir geta að vísu sent fjvn. og ríkisstj. óskir sínar, en þau mál verða ekki gerð upp fyrir allra augum, eins og gert er á hv. Alþingi um skiptingu ríkisfjár og eðlilegt er að sé gert, þegar um er að ræða að skipta verulegu lánsfé.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta. Ég vil greiða fyrir því, að þetta mál geti gengið fljótt í gegnum hv. Alþingi, og ég heyri, að ríkisstj. þarf að fá löggjöf um þetta fljótt.