06.12.1962
Efri deild: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

86. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 1. júní s.l. og báru í sér heimild fyrir ríkisstj. til að leyfa h/f Hval innflutning á hvalveiðiskipi, sem eldra var en 12 ára, en eins og kunnugt er, þá er bannað í íslenzkum lögum að flytja inn skip eldra en 12 ára.

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem grípa hefur orðið til þess að fá lagaheimild til þess, að hvalveiðibátur eldri en 12 ára verði fluttur inn, en það stafar af því, að hvalveiðibátarnir, sem nú eru notaðir og hafa verið notaðir, eru flestir mjög gamlir orðnir og þurfa endurnýjunar við, og á hinn bóginn vegna þess, að hægt hefur verið að fá í tiltölulega góðu standi skip, sem hæf voru til þessarar notkunar, en þó með þeim galla, eða hvað maður á annars að kalla það, að skipin hafa verið eldri en það hámark, sem í lögum er sett um innflutning á skipum.

Frá skipaskoðunarstjóra lá fyrir yfirlýsing um það, að þessi bátur, sem hér er um að ræða, hafi verið byggður 1948 og væri í flokki norska Veritas og 481 brúttólest að stærð og flokkunarskoðun á honum hafi farið fram í nóv. 1960. Skipaskoðunarstjóri segist skv. lögum ekki mega mæla með innflutningi á skipinu, og hann hefur þess vegna valið þá leið að leggja til, að lög yrðu sett til þess að heimila innflutninginn, eins og hann hefur gert áður í svipuðum tilfellum.

Það mætti kannske álita, að hægt væri að setja almenna heimild inn í skipaskoðunarlögin um að heimila innflutning eldri skipa en 12 ára, til þess að ekki þyrfti að leita samþykkis Alþingis í hvert sinn. En skipaskoðunarstjóri er eindregið andvígur því, vill halda þessari reglu sem aðalreglu og telur, að ásóknin á innflutning eldri skipa mundi verða það mikil, ef ákvæði laganna eða undanþáguákvæði væri rýmkað, það mundi ekki vera gott fyrir okkar skipastól, og hann leggur þess vegna eindregið til, að það verði ekki nema í fáum tilfellum leyft og þá það unnið til að leita samþykkís Alþingis hverju sinni, þó að umsvifameira sé heldur en ef almenn undanþáguheimild væri til.

Ég hef ekki meira við þetta að bæta. óbein meðmæli skipaskoðunarstjóra liggja fyrir. Skipið er aðeins einu ári eldra en heimilt er að flytja inn. Ég leyfi mér þess vegna að leggja til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.