11.03.1963
Efri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

86. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 1. júní 1962, og er skv. 1. gr. frv. um heimild til handa ráðh. að leyfa h/f Hval að flytja til landsins eitt hvalveiðiskip, þó að það sé eldra en 12 ára, en það er skv. l. hámarksaldur skipa, sem innflutningur er nú leyfður á. Það skip, sem hér um ræðir, er 13 ára gamalt eða einu ári eldra en l. heimila.

Á undanförnum árum hefur það oftar en einu sinni komið til, að frávik væru gerð um innflutning skipa, svo sem hér er lagt til. Hefur það t.d. tvisvar áður átt sér stað varðandi hvalveiðiskipin, auk þess sem hvalveiðiflotinn, sem byrjað var með, þegar veiðarnar hófust fyrir hvalstöðina í Hvalfirði, var byggður upp af skipum, sem öll voru eldri en 12 ára. Elztu skipin eru nú 30—36 ára gömul. Hefur sumum þeirra verið fargað til niðurrifs, en öðrum hefur verið lagt til hliðar sem lítt nothæfum. Enda þótt skip það, sem hér um ræðir, sé orðið 13 ára gamalt, er það tvímælalaust eitt bezta og fullkomnasta skipið, sem nú er í íslenzka hvalveiðiflotanum. Ég vil því, herra forseti, mæla með því f. h. sjútvn., að frv. þetta verði samþ.