21.11.1962
Neðri deild: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

99. mál, framkvæmdalán

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom við afgreiðslu þessa máls í Ed., erum við Alþb.-menn því samþykkir að veita ríkisstj. heimild til þeirrar lántöku, sem um fjallar í þessu frv. En það eru ýmsar athugasemdir, sem við vildum þó gera við frv. og þetta mál, eins og það ber hér að.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að það er upplýst, að vextir séu áætlaðir af þessu láni 61/2%, og ég ætla þá, að heildarvextir með ýmiss konar kostnaði milliliða, sem eiga eftir að koma á þetta, muni verða hartnær 7% af þessu láni. Við teljum, að slíkir vextir eins og 7% af láni, sem ríkið gengst fyrir að taka á erlendum markaði, séu mjög óhagstæðir vextir og ekki einu sinni sambærilegir við það, sem í mörgum tilfellum hefur reynzt kleift fyrir einstaklinga að fá af allálitlegum lánum, sem þeir hafa átt kost á. Lánstíminn er aftur mjög sæmilegur og afborgunarskilyrðin eðlileg, þar sem hægt er að fá lánið afborgunarlaust fyrstu 51/2 ár.

Þá er þess einnig að geta, að það er heldur óviðkunnanlegt að gera ráð fyrir lántöku eins og þessari og heimild handa ríkisstj. til þess að ráðstafa láninu til ýmiss konar framkvæmda, án þess að nánari grein sé gerð fyrir því, hvað til stendur eða hvað yfirleitt á að gera. Það er vitað, að ríkisstj, hefur haft með höndum nú um alllanga hríð undirbúning að áætlunargerð, svonefnda framkvæmdaáætlun, og erlendir sérfræðingar hafa starfað á vegum ríkisstj. að þessari áætlunargerð ásamt ýmsum innlendum sérfræðingum. Ég hygg, að það sé komið nærri því heilt ár fram yfir þann tíma, sem búizt var við að þessi áætlun yrði birt a.m.k. Alþingi. En hún hefur ekki séð dagsins ljós enn. En nú er farið fram á lántökuheimild, til þess að hægt sé að standa undir ýmsum þeim framkvæmdum, sem þar eru fyrirhugaðar. Mér finnst, að þetta beri að á óvenjulegan hátt og að hitt hefði verið miklu eðlilegra, að ríkisstj. eftír þennan langa undirbúningstíma hefði getað gert grein fyrir því a.m.k. í öllum meginatriðum, um hvað þessi framkvæmdaáætlun fjallar, hvað stendur til að gera í hinum einstöku greinum, og hefði síðan óskað eftir því að fá lántökuheimild, til þess að hægt yrði að afla fjár til þeirra framkvæmda, sem ráðgerðar væru í þessari áætlun. Að þessu leyti sýnist mér, að þetta sé óeðlilegt, hvernig málið ber hér að. Þetta verður svo enn óeðlilegra, þegar ríkisstj. fer fram á það, að hún fái svo að segja fullnaðarheimild til að ráðstafa þessu fé. Að vísu hefur sú breyting verið gerð á frv. frá því, sem það var, þegar það var lagt upphaflega fram, að nú er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. ráðstafi þessu láni í samráði við fjvn., en þessi orð: „í samráði við“, segja mjög lítið bindandi. Það er að vísu hægt samkv. þessu orðalagi að hafa þann hátt á, sem væri mjög til bóta, að þessi samráð ríkisstj. við fjvn. væru með þeim hætti, að fjvn. fengi fullkomið vald til þess að gera sínar till. til ríkisstj, um skiptingu fjárins. En það er líka hægt að hafa þetta að mestu leyti sem formsatriði, þar sem raunveruleg úthlutun ríkisstj. hefur verið ákveðin og fjvn. í aðalatriðum tilkynnt um það og þar sem hún hefur þar af leiðandi sáralítil afskipti af ráðstöfun fjárins. Ég teldi því miklu eðlilegra vera í þessum efnum, að það hefði verið farin sú leið, að sett hefðu verið sérstök lög um ráðstöfun þessa fjár, eða þá a.m.k. að hinn hátturinn hefði verið hafður á, að þingkjörin nefnd hefði gert beinar till. til ríkisstj. um skiptingu fjárins eftir þeim gögnum, sem hún hefði fengið varðandi möguleika á þeim framkvæmdum, sem ráðgerðar væru.

Í sambandi við þetta mál, eins og það ber hér að, finnst mér ekki óeðlilegt, að á það sé minnzt, hvort ríkisstj. hugsi sér að breyta nokkuð til frá því, sem verið hefur nú um skeið varðandi heimildir einstakra aðila, t.d. eins og einstakra hafna í landinu, til að mega taka til sinna framkvæmda erlend lán. Sá háttur hefur verið hér á lengst af, að einstakir aðilar hafa ekki átt kost á því að taka erlend lán til slíkra framkvæmda. Þar hafa menn orðið að sætta sig við þá möguleika, sem fyrir hendi hafa verið innanlands, og það, hvað ríkissjóður hefur talið sér fært að leggja mikið fé fram hv erju sinni. Og framkvæmdirnar hafa orðið að miðast við þetta í öllum aðalatriðum, þó að einstakar undantekningar séu frá þessu. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því með þessu frv., að ríkisstj, efni til sérstakrar lántöku erlendis, m, a. til hafnarframkvæmda. Að vísu ætlar ríkisstj. sér sjálf að útdella láninu. Þá vaknar spurningin: Er þá ekki hugsanlegt að heimila einnig einstökum höfnum í landinu að taka lán til slíkra framkvæmda, ef þær rúmast ekki innan þessarar úthlutunar, sem verður ákveðirr af ríkisstj. varðandi þessa lántöku? Ég efast ekki um, að það eru möguleikar á því og hafa verið möguleikar á því fyrir ýmsa aðila í sambandi við ýmiss konar framkvæmdir í landinu að fá lán erlendis og varla með miklu lakari kjörum en þeim, sem eru á þessu láni.

Ég skal svo ekki lengja umr. um málið. Eftir því hefur verið óskað, að það geti fengið hraða afgreiðslu, og það er sjálfsagt að verða við því. En ég vil aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram, að hér er auðvitað um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. er með flutningi þessa frv. að staðfesta það formlega fyrir Alþingi, að hún er að hverfa frá þeirri stefnu, sem hún boðaði með setningu laga um viðreisnarstefnuskrána snemma á árinu 1960, þegar því var haldið fram, að meginvandi okkar í efnahagsmálum stafaði af því, að erlend lán væru orðin of mikil, greiðslubyrðin af þeim væri orðin of þung og af því þyrfti að grípa til margvíslegra ráðstafana. Við stjórnarandstæðingar bentum þá á og reyndar ýmsir fleiri, að það væri mesti misskilningur að halda því fram, að erlend lán út af fyrir sig þyrftu að valda einhverju um það, hvernig gengi í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt séð. Það ræður auðvitað úrslitum í sambandi við erlendu lánin, til hvers lánin hafa verið tekin. Ef lánin hafa verið tekin til að stuðla að aukinni framleiðslu, aukinni gjaldeyrisöflun, þá geta lánin beinlínis bætt aðstöðuna í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. En það er líka rétt, að það er hægt að taka lán í því skyni, að þau verði til þess að þyngja baggann. Það er því eins með þessa lántöku og aðrar, sem teknar hafa verið á undanförnum árum, að það skiptir öllu máli, til hvers lánin eru tekin. Tekst með hinu nýja fjármagni að skapa grundvöll fyrir aukinni útflutningsframleiðslu t.d.? Þá er það tvímælalaust, að það er rétt að taka slík lán í mörgum tilfellum. En bein eyðslulán eru að sama skapi hættuleg.

Mér er ljóst um þetta lán, sem hér um ræðir, aðeins 240 millj. kr., sem fyrirhugað er til margvíslegra framkvæmda, eins og sagt er, að þar getu; ekki verið um að ræða neinar stórframkvæmdir. Það er t.d. óhugsandi, að með þessu láni sé hægt að ráðast í neina nýja stórvirkjun í landinu, raforkuvirkjun. Við vitum, að þannig háttar nú til í sambandi við rekstur ríkisrafveitnanna, að þar er árlega stór halli, og hann mun hafa verið jafnaður nú á undanförnum árum með beinum lántökum, að vísu innanlands. Ég tel það út af fyrir sig ekki heppilegt, ef hið erlenda lán ætti á óbeinan hátt að ganga til þess að standa undir beinum hallarekstri.

Svipað er einnig í sambandi við hafnarframkvæmdirnar. Við vitum, að þar stendur stórkostlega upp á ríkið, að það borgi það, sem það á að greiða til hafnarframkvæmda í landinu. Ég hygg, að skuld ríkísins við hafnir landsins sé nú í kringum 25 millj. kr. Það væri ekki heldur til neins gagns í þessum efnum að ætla sér að verja hinu erlenda láni á beinan eða óbeinan hátt aðeins til þess að borga upp slíkar skuldir.

Ég legg því áherzlu á, að því láni, sem hér stendur til að taka, verði raunverulega varið til þess, sem gæti raunverulega orðið til að auka þjóðarframleiðsluna og sérstaklega til þess að auka útflutning okkar. Þá kæmi lánið að mestu gagni.