18.02.1963
Efri deild: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

108. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. deildar hefur haft til meðferðar frv. þetta til laga um veitingu ríkisborgararéttar, sem er stjórnarfrv. Um það hefur verið fjallað á sama hátt og sams konar frv. undanfarandi ár, þannig að tveir allshn.-menn úr hvorri þd. hafa ásamt skrifstofustjóra þingsins rannsakað allar umsóknir um ríkisborgararétt ásamt fskj., sem þeim hafa fylgt. Fullskipuð allshn. hefur síðan athugað frv., og er niðurstaða n. sú, að hún mælir með því, að það verði samþykkt með þeim breytingum, sem greindar eru á þskj. 274. Í þeim breytingum felst það, að inn í frv. verður bætt þeim mönnum, sem þar eru greindir og eru 16 talsins.

Sömu reglur og hafðar hafa verið til hliðsjónar undanfarin ár hefur allshn. nú einnig haft til hliðsjónar við athugun á þessu frv., að öðru leyti en því, að n. hefur fallizt á till. dómsmrn. um það, að ungverskir flóttamenn, sem hingað komu til Íslands árið 1956, skuli nú fá ríkisborgararétt. Þeir hafa ekki enn verið hér í 10 ár að vísu, en þar sem segja má, að íslenzk stjórnarvöld beri ábyrgð á dvöl þeirra hér á landi og þeir eru hingað komnir fyrir opinbera tilhlutun, þá þykir eftir atvikum rétt, að þeir fái nú ríkisborgararétt, enda þykir sýnt, að þeir munu ílendast hér á landi.