21.11.1962
Neðri deild: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

99. mál, framkvæmdalán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég þakka báðum hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir undir frv. og fyrirheit um stuðning við það og sömuleiðis að greiða fyrir því, að það gangi fljótt í gegnum þingið.

Það kenndi hins vegar nokkurs misskilnings hjá báðum hv. ræðumönnum að því leyti, að þeir virtust telja, að þessar till. um framkvæmdalánið væru gagnstæðar þeim stefnuyfirlýsingum, sem ríkisstj. gaf fyrir tæpum þrem árum, þegar efnahagsaðgerðirnar voru hafnar, og að þetta framkvæmdalán sé staðfesting á því, að hv. stjórnarandstæðingar hafi haft rétt fyrir sér í þeim efnum. Hér kennir ákaflega mikils misskilnings, sem er nauðsynlegt að leiðrétta, svo sem ég skal gera í örfáum orðum.

Þeir halda því fram, hv. þm., að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafi lagt á það megináherzlu, að það yrði að lækka skuldir Íslands gagnvart útlöndum. Það, sem viðreisnartill. snerust um ekki hvað sízt, var í fyrsta lagi það, að ná yrði greiðslujöfnuði gagnvart útlöndum. Undanfarin ár hafði verið verulegur halli á viðskiptunum við útlönd, og eitt meginatriði í viðreisnartillögunum var einmitt að eyða þeim halla og ná greiðslujöfnuði á viðskiptum okkar gagnvart útlöndum. Og því var haldið fram, að það væri nauðsynleg undirstaða undir auknum framförum og grundvöllur þess, að hægt væri að taka hagkvæm framkvæmdalán erlendis síðar. Þetta hefur tekizt, þannig að á s.l. ári varð í fyrsta skipti um langan aldur hagstæður greiðslujöfnuður á íslenzka þjóðarbúinu gagnvart útlöndum. Í öðru lagi var lögð á það áherzla, að greiðslubyrðin, hin árlega greiðslubyrði þjóðarinnar gagnvart útlöndum, væri of þung, að þær afborganir og vextir, sem árlega þyrfti að inna af höndum til útlanda, væru óeðlilega og óhæfilega stór hluti af gjaldeyristekjum okkar í heild. Og það voru lagðar fram tölur, sem sýndu, að þessi greiðslubyrði gagnvart útlöndum var þá varðandi Ísland hærri en í flestum löndum öðrum, sem til þekktist. Þetta stafaði ekki eingöngu af því, að skuldir eða erlend lán væru svo há, heldur vegna þess, að allmikið af þessum skuldum eða lánum var til svo skamms tíma, að afborganir urðu mjög örar.

Ég gat um það í framsöguræðu minni, að á þessu ári muni greiðslubyrðin gagnvart útlöndum nema rúmlega 550 millj. kr. Ég ætla, að hún hafi verið nokkru hærri á s.l. ári og náð þá hámarki. Þessi greiðslubyrði mun fara lækkandi á næstu árum. En ef við tökum töluna í ár, 550 millj. kr., og miðum svo við okkar gjaldeyristekjur í heild, þá held ég, að flestir hljóti að sannfærast um, að þessi greiðslubyrði er of þung, miðað við gjaldeyristekjur okkar í heild. Og eins og ég gat um, hefur þetta lán m.a. þá kosti tvo, sem nauðsynlegir~ eru í því sambandi, að lánið er ekki til skamms tíma, heldur óvenjulangs tíma eða 26 ára, og í annan stað, að engar afborganir þarf af því að greiða í 5 1/2 ár. Þetta þýðir, að greiðslubyrðin af þessu láni verður tiltölulega mjög létt á hinum næstu árum, meðan greiðslubyrði okkar í heild er sem þyngst og erfiðust.

Þetta tvennt, að við þyrftum að ná hagstæðum greiðslujöfnuði gagnvart útlöndum og að við þyrftum að létta hina árlegu greiðslubyrði gagnvart útlöndum, virðast hv. þm. vilja túlka svo, að stjórnin hafi, þegar hún sagði fram viðreisnartill., byggt á því, að það yrði að lækka í heild skuldir gagnvart útlöndum og forðast erlendar lántökur, einnig til framkvæmda. Þennan misskilning er auðvitað skylt að leiðrétta. Og ekkí sízt er þessi misskilningur furðulegur vegna þess, að í umr. og grg. um viðreisnartill. var það jafnan tekið skýrt fram af hendi ríkisstj., að einn aðaltilgangurinn með viðreisninni var einmitt sá að skapa möguleika til þess á næstu árum að fá stór erlend framkvæmdalán til langs tíma með hagkvæmum kjörum til þeirra margháttuðu framkvæmda, sem við Íslendingar teljum nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd til að bæta lífskjörin í landinu.