12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

108. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. meiri hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv, það, sem hér liggur fyrir um veitingu ríkisborgararéttar, er komið frá hv. Ed. og hlaut í þeirri d. ágreiningslausa meðferð til loka. Strax er málið kom til kasta þingsins, var kjörin fjögurra manna samstarfsnefnd úr allshn. beggja þd. Hún fékk sér til aðstoðar skrifstofustjóra Alþingis við athugun þeirra umsókna um ríkisborgararétt, sem þá lágu fyrir og síðan hafa borizt. Var eftir því sem auðið var hugað að öllum nauðsynlegum skilríkjum, sem jafnaðarlegast fylgja slíkum umsóknum, og reynt að öðru leyti að afla þeirra upplýsinga, sem byggja ber á í þessum efnum.

Allshn. þessarar hv. d. fékk til meðferðar nokkrar nýjar umsóknir, sem einnig voru teknar til rækilegrar athugunar, og varð samkomulag um að taka flestar þeirra til greina. Hefur n. því leyft sér að flytja þar um brtt. í samræmi við það samkomulag, og eru þær prentaðar á sérstöku þskj., nr. 367. Hins vegar kom til ágreinings í allshn. um þá 18 ungversku flóttamenn, sem frv., eins og það kom frá Ed., gerir ráð fyrir að öðlist nú ríkisborgararétt. Samkv. þeim reglum, sem Alþingi hefur áður sett sér til hliðsjónar við veitingu ríkisborgararéttar, ættu þessir flóttamenn ungversku að hafa dvalizt hér í landi í 10 ár, en þeir hafa ekki átt hér bólfestu lengur en 6–7 ár. Er því að þessu leyti — og þessu leyti einu um nokkurt frávik að ræða, sem kunnugt var þó um frá upphafi máls hér á hv. Alþingi. Meiri hl. allshn. var og er þeirrar skoðunar, að fallast beri á að veita þessa undanþágu frá hinum almennu reglum vegna sérstöðu flóttafólksins og hinnar sérstöku tilkomu þess hingað til landsins.

Minni hl. allshn., hv. 11. landsk., gerir grein fyrir máli sínu og ágreiningi í sérstöku nál. Telur hann engin rök liggja til þessarar undanþágu, sem ég minntist á, og hann gefur jafnvel í skyn í nál. sínu, að þetta ungverska flóttafólk, sem hér um ræðir og sækir um ríkisborgararétt, hafi jafnvel fremur illa komið sér í landinu og hafi margt hvert átt örðugt um að samlaga sig háttum íslenzku þjóðarinnar. Og auk þess telur hann hegningarvottorð einstakra umsækjenda ekki í sem beztu lagi. Þessar aths. minni hl. má sjá á nál. hans á þskj. 359. Skal ég lítils háttar víkja að þessu ágreiningsefni.

Svo sem alkunna er, kom þetta flóttafólk, sem nú sækir um ríkisborgararétt, hingað til landsins árið 1956 frá Ungverjalandi. Þar ríkti þá óöld og upplausn, og þá flýðu margir Ungverjar land sitt. Þegar á daginn kom, að nokkur hópur Ungverja vildi leita hér landvistar, höfðu íslenzk stjórnarvöld síður en svo á móti því, og fór svo, að þeim var veitt landvistarleyfi. Það má jafnvel orða það svo að minni hyggju, að Ungverjarnir séu jafnvel komnir hingað að öðrum þræði fyrir opinbera tilstuðlan. Auk þess er okkur tjáð, að Ungverjunum hafi verið gefið nokkurt fyrirheit um, að þeir fengju ríkisborgararétt, jafnvel fyrr en ella, ef þeim líkaði vistin hér og okkur líkaði sæmilega við þá og þeir hygðu á dvöl til langframa hér í landinu. Nú er það alkunna, að um svokallaða flóttamenn gilda nokkuð sérstæðar reglur og hljóta að gilda, og þess vegna er það svo, að fjölmargar þjóðir hafa komið sér saman um það að hafa uppi afbrigðilega meðferð í sambandi við stöðu flóttamanna í því landi, sem þeir hafa leitað landvistar i. Ég held, að ég fari rétt með, að Ísland sé einmitt aðili að flóttamannasamþykkt, sem fjallar um stöðu flóttamanna í því landi, þar sem þeir dveljast. Og mig minnir, að í þeirri samþykkt, sem mun hafa verið birt, að ég held árið 1955, í Stjórnartíðindum, sé vikið að því í einni grein samþykktarinnar, að gert sé ráð fyrir því, að greitt sé fyrr en ella fyrir flóttamönnum um veitingu þeim til handa á ríkisborgararétti, og þar með slegið föstu um það, að þeim sé sköpuð nokkur sérstaða. Og víst er það, að hin óræða réttarstaða flóttamanna, sem hvergi eiga sér ríkisfang, veldur því, að til þessara sérreglna kemur og þeim verður oft og tíðum að beita. Stærri þjóðir þekkja vel til þessa mikla vandamáls, flóttamannavandamáls, sem eftir stjórnbyltingar og styrjaldir kemur upp. Hefur af mannúðarástæðum verið unnið stórvirki í þessum efnum og stórfé af mörkum lagt, stofnanir reistar til þess að létta byrðar af hinu umkomulausa flóttamannafólki, sem flykkzt hefur í lönd víðs vegar og leitað hælis og griða í alókunnugu landi með ókunnugri þjóð. Og víst er það, að slíkt fólk á í raun og veru allt sitt undir því, hvernig þjóðin, sem það leitar til, og yfirvöld þar bregðast við.

Það flóttafólk, sem hér ræðir um og óskað hefur íslenzks ríkisborgararéttar, hefur dvalizt hér, eins og ég hef áður sagt, 6 ár, á sjöunda ár, og hefur lagt fram skilríki um, að það hafi komið sér vel, margt mjög vel, og flest af því hefur sakavottorð, sem við köllum hreint, þ.e.a.s. í fullkomnu lagi. Og um allt þetta fólk skilst okkur í meiri hl, allshn. að gildi það, að engar ávirðingar hafi það gert sig sekt um, sem nærri því kemur, að standa ætti gegn veitingu ríkisborgararéttar út af fyrir sig. Og það hefur ekkert það fram komið í skjölum þessa máls, sem bent geti til þess, að það hafi í framkomu og starfi sínu yfirleitt hér í landi hagað sér öðruvísi en óaðfinnanlega. Um flest af því má miklu fremur segja, að það hafi reynzt hið nýtasta í starfi sínu og komið sér, eins og ég sagði áður, sæmilega og margt mjög vel. Þegar allt þetta er virt, sýnist, að því er varðar þessa 18 ungversku flóttamenn, engin frambærileg ástæða vera til þess að synja þeim ríkisborgararéttar, og ég vildi segja, að það hæfði engan veginn, eins og á stendur og þegar málið er skoðað til fulls. Þessir Ungverjar hafa sýnt það, að þeir hafa fest hér rætur, og þeir sýna enn fremur eindreginn vilja til þess að dveljast hér framvegis. Þeim er það að sjálfsögðu þess vegna hið mesta tilfinningamál að eiga með okkur í þessu landi þegnrétt. Og okkur Íslendingum ætti að vera það nokkurt metnaðarmál að sýna þessu umkomulitla fólki, sem hefur gist okkur og við höfum kvatt jafnvel til að dveljast hér á meðal okkar og það unnið okkur lengi, — það ætti að vera okkur metnaðarmál að sýna þessu fólki nokkra tillitssemi og ég segi mannúð, svo sem góðum drengjum sæmir, eins og við viljum allir vera.

Af því, sem ég hef stuttlega rakið, hefur meiri hl. allshn. talið sér bæði rétt og skylt að fylgja fram beiðni hinna 18 ungversku flóttamanna um íslenzkan ríkisborgararétt, og það er enda. í fullu samræmi við óskir dómsmrn., sem að sjálfsögðu hefur kynnt sér mjög málefni þessa fólks, skjöl þess og skilríki öll. Og við viljum í meiri hl. með þessari afstöðu okkar undirstrika m.a. og sérstaklega þá ábyrgð, sem við teljum að íslenzk stjórnvöld beri gagnvart tilkomu þessa fólks hingað og tilvist þess hér í þessu landi, auk þess, sem ég hef áður greint frá, að við sjáum ekki af framlögðum skjölum og skilríkjum, að það sé neitt það í fari þessara 18 umsækjenda, sem ætti að standa í vegi fyrir því, að þeir fengju, eins og á stendur, ríkisborgararétt. Ég vil vænta þess, að hv. d. sjái hið sama og við í meiri hi., þegar virt er nánar málið og gengið fram hjá hleypidómum og fullyrðingum, eins og fram kemur að minni hyggju í áliti minni hl., — fullyrðingum, sem við nánari athugun fá ekki staðizt.