12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

108. mál, veiting ríkisborgararéttar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það kom hér fyrir, — það er víst meira en áratugur síðan, — að lagt var fyrir í þessari hv. d. frv. til 1. um veitingu ríkisborgararéttar, og átti einn ráðh. í þáv. ríkisstj. höfuðþátt í því. Meiningin með því frv. var að veita einum þýzkum manni, sem hér var og hafði dvalizt hér stutt — mjög stutt, íslenzkan ríkisborgararétt. Því var lýst fyrir okkur sem ákaflega þýðingarmiklu atriði, að þessi maður fengi íslenzkan ríkisborgararétt, og það mætti ekki bíða, hann sæti inni með alls konar leyndarmál um, hvernig ætti að vinna m.a. eggjahvítuna úr fiskinum og annað slíkt, og mundi ráðast hér í stórfyrirtæki, ef hann væri gerður að íslenzkum ríkisborgara. Þm. tóku trúanlegt það, sem þeim var tjáð af hæstv. ráðh., og lög um veitingu ríkisborgararéttar voru sett í gegnum þingið á skömmum tíma og án þess að maðurinn hefði dvalizt hér nema skamma stund. Og eftir að maðurinn var búinn að fá íslenzkan ríkisborgararétt, var það hans fyrsta verk að fara af landi burt, líklega suður til Argentínu, og gangast þar að líkindum fyrir þeim fyrirtækjum, sem látið var í veðri vaka að hann mundi gangast fyrir að reisa á Íslandi, ef hann fengi ríkisborgararétta, sem hann hafði þá hvergi. Það er þess vegna ekkert að undra, þó að við þm. ýmsir viljum vera nokkuð íhaldssamir um veitingu ríkisborgararéttar og ekki taka allt, sem kemur frá hæstv. ríkisstj., sem góða vöru í þessu sambandi. Ég vil taka hér undir það, sem minni hl. allshn. hefur haldið fram, að bað eigi að halda fast við þá reglu, sem verið hefur, að útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, skuli hafa verið 10 ár í þessu landi, áður en þeir fá íslenzkan ríkisborgararétt.

Mér þótti það nokkuð blandast saman, sem hv. frsm. meiri hl. v ar að ræða hér áðan. Viðvíkjandi afstöðunni til flóttamanna tíðkast það í mörgum löndum og er yfirleitt allgóður siður, sérstaklega þegar um pólitíska flóttamenn er að ræða, að þeim sé veitt landvist. Og það er það, sem almennir flóttamenn ekki síður en pólitískir flóttamenn leggja upp úr að fá, það er landvist í viðkomandi landi. Og hana hafa þessir menn fengið, og hana hafa þeir. Það mundi vart þýða, t.d. í landi eins og Englandi, sem um aldabil hefur skorið sig úr mörgum löndum Evrópu í því einmitt að veita pólitískum flóttamönnum landvist, svo að segja að rugla saman því hugtaki, sem sjálf gestrisnin er í þessu sambandi, landvistin, og hinu að fara að veita t.d. brezkan ríkisborgararétt. Það er tvennt ólíkt, og við eigum ekki að venja okkur á að rugla þessum hlutum saman. Við eigum að halda fast við aðskilnaðinn í þessu efni, og það sýnir okkur m.a. reynslan af þeim manni, sem áður hafði átt þýzkan ríkisborgararétt og ég gat hér um áður.

Þeir Ungverjar, sem hér um ræðir, hafa fengið hér landvist, og það er það fyrst og fremst, sem þeir þurftu. Þegar um íslenzkan ríkisborgararétt er að ræða, þá er það allt annað. Það er enginn, sem amast við því, að þessir menn hafi hér landvist, og þegar þeir væru búnir að vera hér sín 10 ár og semja sig nokkuð að íslenzkri umgengni og íslenzkum þjóðháttum, þá væri það máske ekki nema eðlilegt, að þeir fengju íslenzkan ríkisborgararétt, ef þeir hefðu reynzt hér vel. Hins vegar er það vitanlegt, að það ganga kvartanirnar og hafa jafnvei komið í borgarablöðunum hér út af ýmsum þessara Ungverja, út af því, hve létt þeim sé að gripa til hnífsins í sambandi við slagsmál og annað slíkt í verstöðvunum hér suður frá. Við verðum að gá að því, að þeim útlendingum, sem hingað koma, veitir ekki af, sérstaklega þegar þeir eru frá öðrum löndum en Norðurlöndum, að hafa alllangan tíma til þess að laga sig að þeirri sérstöku menningu og þeim sérstöku þjóðháttum, sem við höfum skapað. Og það er engin ástæða til þess að fara að veita þeim íslenzkan ríkisborgararétt, fyrr en þeir hafa dvalizt hér þessi 10 ár, sem ætlazt er til að menn geri það. Það er vitanlegt, að það eru fleiri flóttamenn hérna, sem hafa komið hingað máske fyrir tilstilli íslenzkrar ríkisstj. Ég veit ekki betur en að t.d. ýmsir Júgóslavar hafi verið sóttir suður á Ítalíu, í flóttabúðir þangað, í sambandi við flóttamannaárið og fluttir hingað og hafi hér landvist. Það ganga misjafnar sögur um þá, sumar mjög skemmtilegar, sumar ekki eins skemmtilegar. En það liggur ekki fyrir, að það eigi að fara að veita þeim ríkisborgararétt svona og svona snemma. Þeir hafa hér landvist og jafnvel halda henni áfram, en reyna um leið að læra ýmislegt gott af okkar þjóð, sem til allrar hamingju er fær um að kenna útlendingum enn þá. Og þess vegna sé ég ekki nokkra minnstu ástæðu til þess að breyta þarna um.

Hv. frsm. meiri hl. allshn. kom inn á það, að það væri jafnvel metnaðarmái að veita Ungverjunum þennan ríkisborgararétt. Bágt á ég nú með að skilja það. Ef það væri þarna um að ræða menn, sem hefðu verið t.d. pólitískir flóttamenn, menn, sem virkilega hefðu verið að berjast fyrir einhverjum hugsjónum og öðru slíku, þá hefði ég vel getað skilið þetta. Nú hefur maður ekki þá hugmynd um neinn af þessum mönnum, sem þarna er um að ræða. Þeir virðast vera venjulegir flóttamenn, sem flosna upp, þegar mikið gengur á hjá einni þjóð, en ekki menn, sem beinlínis hafa staðið í baráttu fyrir einhverjum hugsjónum. Það gæti oft verið tilefni máske til þess að athuga sérstaklega um slíkt, og hefur það þó ekki átt upp á pallborðið hjá íslenzkum yfirvöldum fram til þessa. Eins og okkur var talin trú um hér einu sinni, að það væri eitthvert geysilegt hagsmunamál að veita vissum fyrrv. þýzkum manni hér ríkisborgararétt, þá er ég jafnvantrúaður á, að það sé nokkurt metnaðarmál að veita þessum Ungverjum hér ríkisborgararétt. Og ég vil spyrja: Að hvaða leyti eiga þeir að hafa sérréttindi fram yfir aðra útlendinga, sem hér eru? Það eru útlendingar hérna meira að segja, sem eru búnir að vera hér miklu lengur en 10 ár, og gefst stundum fullerfitt að tryggja

þeim ríkisborgararétt. Það þurfti jafnvel að standa í baráttu fyrir því ár eftir ár um menn, sem voru búnir að vera hér upp undir 15–20 ár, giftir íslenzkum konum og áttu íslenzk börn og voru búnir að vinna hér sem Íslendingar í meira en áratug, að þeir fengju ríkisborgararétt. Það virðist vera farið eftir nokkuð mismunandi reglum í slíku, og ég held, að það sé ekki rétt, að við séum að gera það. Ég held, að við eigum að veita almennt ríkisborgararéttinn, þegar menn eru búnir að vera 10 ár, án tillits til þess, hvaða pólitískar skoðanir viðkomandi hafa, en við eigum líka að bíða, þangað til menn eru búnir að vera 10 ár, þegar um aðra er að ræða en Norðurlandabúa.

Ég verð að segja það, að yfirleitt höfum við ekki verið sérstaklega gætnir í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar og mættum gjarnan vera gætnari en við erum. Við eigum að meta íslenzkan ríkisborgararétt allhátt og ekki kasta honum þannig út, að hann sé falur hverjum sem er. Það var minnzt á það hér áðan af hv. frsm. minni hl. í allshn., að það hefði einu sinni verið ætlað, að menn hefðu átt að kunna íslenzku til þess að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, og það var það einu sinni. En það hefur verið horfið frá því, og virðist það þó satt að segja vera eitt af því, sem menn gjarnan ættu að hafa lært. En ég býst við, að 10 ára búsetan hafi átt að koma í staðinn og þó hafi það máske komið fyrir, að menn hafi verið hér í 10 ár og samt ekki verið búnir að læra málið.

Ég held, að við megum halda dálítið fastar á okkar meðvitund um, hver eigi að tilheyra okkar þjóð. Það risa það hátt öldurnar núna, sem vilja skola okkar þjóðerni burt, að það er full ástæða til þess að standa þar á móti. Þegar farið er að tala um, að raunverulega sé forngripasafnið orðið aðalverndarinn fyrir íslenzkt þjóðerni, og farið að ganga út frá því sem sjálfsögðu, að við innlimumst sem hreppur í einhver stór og voldug ríki, þá er greinilegt, að það er meiri þörf á aðgætni og íhaldssemi í þessum efnum, hvað snertir íslenzkan ríkisborgararétt, heldur en nokkru sinni fyrr. Það þótti nauðsyn á því hjá okkar forfeðrum, þeirri kynslóð, sem var hér næst á undan okkur, að gæta alls hófs í slíkum efnum þann tíma, sem við höfðum sameiginlegan borgararétt á vissan máta með Dönum, að setja þar viss skilyrði í sambandi við búsetuna og kosningarréttinn. Menn vildu vera aðgætnir um, að það væri ekki allt of auðvelt að fá kosningarrétt á Íslandi, jafnvel þó að menn gætu fengið borgararéttindi. Og ég er hræddur um, að eftir að annað eins er komið á dagskrá þjóðarinnar, þó að reynt sé að taka það af dagskrá fyrir kosningar, eins og innlimun Íslands í Efnahagsbandalagið, þá sé full þörf á að halda fast á þeim reglum, sem verið hafa um, að það þurfi 10 ár minnst til þess, að menn geti fengið ríkisborgararétt, a.m.k. þegar um aðra en Norðurlandabúa er að ræða. Ég vil þess vegna eindregið taka undir þær brtt., sem hv. minni hl. allshn. flytur um, að nöfn þeirra manna, sem hafa ekki verið hér í 10 ár og eru ekki Norðurlandabúar, séu felld út af frv. ríkisstj. og meiri hl. allshn.