19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

108. mál, veiting ríkisborgararéttar

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Frá því að þetta frv. var síðast til umr. hér í þessari hv. d., hafa borizt umsóknir 4 erlendra kvenna, sem giftar eru íslenzkum ríkisborgurum, um, að þeim — þ.e.a.s. konunum — yrði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Allshn. hefur athugað umsóknir þessara kvenna og sannfærzt um, að þær fullnægja þeim skilyrðum, sem sett hafa verið fyrir því, að erlendar konur giftar íslenzkum borgurum geti fengið íslenzkan ríkisborgararétt, og þess vegna hefur nefndin flutt brtt. á þskj. 417, þar sem lagt er til, að nöfn þessara kvenna verði tekin inn í frv., eins og það nú liggur fyrir.