12.02.1963
Efri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

141. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Iðnlánasjóður var stofnaður með l. nr. 12 10. jan. 1935 og hefur nú starfað um 28 ár. Lengst af hefur sjóðurinn haft lítið fé til ráðstöfunar, vegna þess að á fyrstu árum hafði hann ekki yfir öðru fé að ráða en því, sem greitt var til hans árlega, að vísu endurgjaldslaust, úr ríkissjóði, sem var þá 25 þús. kr., og svo vextir af þeim lánum, sem fyrir þetta fé voru veitt. Síðar var ríkissjóðstillagið hækkað í 65 þús. kr. á ári með l. 27. júní 1941, og enn siðar, eða 7. maí 1946, var ríkisframlagið hækkað í 300 þús. kr. á ári. Enn síðar hefur framlagið verið hækkað með ákvörðun í fjárl. og hefur nú hin síðustu ár verið 2 millj. á ári. Það hækkaði fyrst verulega á árinu 1957 og þá upp í 1 millj. 450 þús. kr. árlega..

Þarna hefur nokkurt fé safnazt fyrir, en vöxtur sjóðsins þó gengið mjög hægt. Það hefur að vísu verið ráðgert, að sjóðurinn fengi einnig lán, sem hann gæti endurlánað, en ég hygg, að lítið eða ekkert hafi orðið úr því og sjóðurinn hafi annaðhvort aldrei fengið lánið eða ekki verulegt lán fyrr en á árinu 1961, þegar honum voru veittar 15 millj. kr. af svokölluðu PL-480 lánsfé, sem að vísu var möguleiki til þess að gæti orðið ég hygg 61/2 millj. hærra eða 21.5 millj. En enn mun sjóðurinn ekki af því fé hafa fengið nema um 15 millj. Það er að vísu ráðgert og má telja öruggt, að sjóðurinn geti fengið áframhaldandi fé til ráðstöfunar að láni úr þessum sama PL-480 sjóði, bæði nú snemma á þessu ári og eins á næsta ári, eitthvað milli 10 og 15 millj. hvort árið a.m.k.

Það hefur því á seinni árum verulega vaxið ráðstöfunarfé sjóðsins, en þó hvergi nærri hrokkið til fyrir þörfum. Það má raunar segja, að verkefni sjóðsins hafi verið nokkuð takmarkað. Það var upphaflega ætlazt til þess með 1., að það væri tvíþætt, annars vegar til þess að lána til véla og meiri háttar verkfæra og hins vegar til rekstrar. Framkvæmdin mun hafa orðið sú, að rekstrarfé muni ekki hafa verið veitt úr þessum sjóði, heldur hafi lánin, a.m.k. að langsamlega mestu leyti, farið til vélakaupa og meiri háttar áhalda, eins og ætlazt hafði verið til. Ráðstöfunarfé hefur aldrei verið svo mikið, að það hafi þótt fært að gera sjóðinn að rekstrarlánastofnun fyrir iðnaðinn.

Á þessum árum, sem sjóðurinn hefur starfað, þessum 30 árum, hefur verkefni iðnaðar í þessu landi stóraukizt. Iðnaður er nú orðinn miklu margþættari eg við hann starfa margfalt fleiri menn en gerðu á árinu 1935. Það hefur því orðið vaxandi þörf fyrir stofnlán til handa iðnaðinum umfram það, sem iðnlánasjóðurinn gat veitt, sem sé einungis til véla og verkfæra. Það hefur hins vegar enginn sjóður verið til, sem hefði það að hlutverki sérstaklega að lána til iðnaðarnýbygginga, hvað þá til fasteignakaupa til handa iðnaðinum. Féð, sem iðnlánasjóður hefur haft yfir að ráða, hefur ekki hrokkið til þessa, enda lagaákvæðin, sem um sjóðinn hafa gilt, þess eðlis, að ekki hefur verið heimilt að lána úr sjóðnum í þessu skyni. Að vísu hefur nokkuð verið bætt úr þessu á seinni árum eftir tilkomu Framkvæmdabankans, sem hefur annazt um lánveitingar til einstakra iðnaðarfyrirtækja, auk þess sem fiskiðnaðurinn hefur leitað til annarra stofnana og ekki verið talið, að iðnlánasjóður ætti að annast hans þarfir, hvorki fiskiðnaðar né þá heldur þess iðnaðar, sem einkanlega hefur starfað fyrir landbúnaðinn. Þegar ég tala um fiskiðnað, á ég fyrst og fremst við hraðfrystiiðnaðinn, vegna þess að í einstökum tilfellum mun eitthvað hafa verið greitt fyrir niðursuðuiðnaði á fiski eða a.m.k. ráðgert, að slíkt væri hægt að gera.

En þó að bæði fiskiðnaður og landbúnaðariðnaður, ef svo má segja, hafi ekki verið tengdir þessum sjóði á þann veg, að hann ætti að sjá fyrir þeirra þörfum, hefur féð, sem hann hefur haft yfir að ráða, hvergi nærri hrokkið til jafnvel brýnustu þarfa vegna hins mikla vaxtar iðnaðarins á þessu tímabili. Menn hafa því lengi velt því fyrir sér, á hvern hátt hægt væri að bæta úr stofnlánaþörf iðnaðarins og einkanlega komið inn á iðnlánasjóð, en fram að þessu hefur ekki náðst samkomulag við þá aðila, sem hér eiga mest í húfi, um lausn á þessum vanda. Á árinu 1960 voru menn, sem fengið höfðu það starf að gera álitsgerð um lánaþörf iðnaðarins, beðnir um að athuga m.a. endurskoðun á l. um iðnlánasjóð og hvernig hægt væri að afla meira fjár til hans, en frá þeim komu litlar raunhæfar tillögur í þessum efnum aðrar en ábending um aukin fjárframlög úr ríkissjóði, vegna þess að þá treystu menn sér enn ekki til þess að leggja á iðnaðinn sjálfan þá skyldu að inna af höndum fé, sem rynni í iðnlánasjóð, þ.e. stofnlánasjóð handa iðnaðinum. En slíkur háttur hefur, eins og kunnugt er, lengi verið hafður á varðandi sjávarútveginn, að hann hefur verið gjaldlagður sjálfur til þess að byggja upp þá stofnlánasjóði, sem hann síðar hefur haft not af. Og nú á síðasta ári var svipaður háttur tekinn upp varðandi landbúnaðinn. Eftir það virtist enn auðsærra en áður, að yfirleitt bæri að hafa sama hátt á um iðnaðinn, og var þó sá vandi sérstaklega þar fyrir hendi, að erfitt reyndist að finna, við hvaða gjaldstofn skyldi miða. Það var ekki fyrr en reglurnar voru settar um aðstöðugjald á ýmiss konar atvinnurekstur, sem menn fundu þann stofn, sem eðlilegt væri að byggja á í þessum efnum. En fyrirmælin um þetta aðstöðugjald voru sett á síðasta ári, eins og kunnugt er.

Um svipað leyti voru svo skipaðir í nefnd til þess að gera nýjar till. um iðnlánasjóð þeir Jónas Rafnar alþm., Eggert Þorsteinsson alþm., Gunnar J. Friðriksson framkvæmdastjóri og Bragi Hannesson hdl., framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna. Þessir menn hafa nú komið sér saman um og samið það frv., sem hér er lagt fram. Höfuðnýjungarnar í því frv. eru annars vegar till. um að skattleggja eða gjaldleggja iðnaðinn til handa iðnlánasjóði og er þá ráðgert 0.4% gjald, sem innheimtist af iðnaðinum í landinu og er lagt á sama stofn og aðstöðugjald samkv. l. nr. 69 28, apríl 1962, um tekjustofna sveitarfélaga. Er ráðgert, að þetta gjald muni verða svo mikið, að a.m.k. muni nema 7 millj. kr. á ári og þó sennilega eitthvað hærra. Þarna er sjóðnum því fenginn verulegur tekjustofn miðað við það, sem hann hingað til hefur notið. Í samræmi við það er hin höfuðbreytingin, að verkefni sjóðsins er mjög víkkað frá því, sem verið hefur. Nú er ætlazt til, að hann verði eiginlegur stofnlánasjóður fyrir iðnaðinn, en ekki eingöngu til kaupa á vélum og stærri áhöldum, eins og verið hefur í framkvæmd til þessa. Hins vegar er felld niður heimildin, sem verið hefur í lögum, að úr þessum sjóði megi lána fé til rekstrar. Það þykir ekki heppilegt að blanda þessu tvennu saman, enda eins og ég sagði áður, þá mun þessi rekstrarfjárlánaheimild litt eða alls ekki hafa verið notuð.

Héðan í frá getur sjóðurinn því lánað, ef hann hefur fé til, ekki einungis til kaupa á vélum og stærri áhöldum, heldur einnig til húsbygginga og eftir atvikum til fasteignakaupa, og er þá miðað við, að hann láni í mesta lagi allt að 60% af kostnaðarverði. Með þessari miklu aukningu á tekjum sjóðsins, ásamt áframhaldandi fjáröflun með lánveitingum honum til handa, eins og ég áður drap á, ætti að verða allvel séð fyrir því, að sjóðurinn geti leyst sitt þýðingarmikla verkefni af hendi. Ég vil sérstaklega drepa á, að t.d. varðandi lánveitingar til byggingar smiðastöðva fyrir stálskip, sem nú er verið að koma upp á nokkrum stöðum í landinu, þá hef ég þegar átt tal um það við sjóðsstjórnina, að sjóðurinn reyni að greiða fyrir þessum nýja og væntanlega mjög þýðingarmikla atvinnurekstri, og er fullt samkomulag um það við sjóðsstjórnina, að svo verði gert. Hinar föstu tekjur og væntanleg lán honum til handa eiga að verða svo rífleg, að aliar líkur eru til þess, að sjóðurinn geti þarna, eins og í mörgum fleiri tilfellum en áður, hlaupið undir bagga, svo að verulega muni um.

Þetta eru þær höfuðbreytingar, sem í frv. felast. Um einstakar minni háttar breytingar, meira tæknilegs eðlis, sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða. Ætlazt er til þess, að sjóðurinn haldi áfram að verða starfræktur í nánu sambandi við Iðnaðarbanka Íslands, eins og hefur varið frá stofnun Iðnaðarbankans, áður var hann starfræktur í sambandi við Útvegsbanka Íslands. Er samið sérstaklega um þá þóknun, sem bankinn fær fyrir þau afgreiðslustörf, sem hann innir af höndum fyrir sjóðinn. Hins vegar hefur sjóðurinn sjálfstæða stjórn, skipaða þremur mönnum, einum, formanninum, tilnefndum af iðnmrh., öðrum af Landssambandi iðnaðarmanna, þriðja af Félagi ísl. iðnrekenda. Þessir menn hafa úrslitaráð um, hvaða lán eru veitt úr sjóðnum, en ég hygg, að þeir hafi hingað til haft náið samstarf um allar lánveitingar við bankastjóra Iðnaðarbankans, og tel ég víst, að það samstarf haldist héðan í frá sem hingað til og úrslitaráðin verði, eins og ég segi, hjá sjóðsstjórninni. Það á ekki að verða breyting á skipan hennar að öðru leyti en að nú á hún að vera skipuð til 4 ára í stað 3 áður.

Þá er í frv. fyrirmæli um, hvernig lánveitingum skuli hagað, t.d. varðandi það, að ef erlent lán er tekið til handa sjóðnum, þá á að lána féð aftur út með gengisfyrirvara, og önnur slik fyrirmæli, sem eiga að tryggja hag sjóðsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.