12.02.1963
Efri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

141. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka vinsamlegar undirtektir, sem frv. hefur fengið. Það er ekki eðlilegt, að menn vilji binda sig með afstöðu til einstakra atriða frv., fyrr en það hefur verið athugað í n., og er sízt athugasemd við það að gera.

Ég er út af fyrir sig sammála hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), að sem almenna reglu tel ég það vera óheppilegt að deila sköttum niður og ætla þá í sérsjóði. Nú er mér það að vísu ljóst, að þetta hefur oft verið gert og verður vafalaust oft gert héðan í frá, einfaldlega vegna þess, að þeir, sem sérstök áhugamál hafa, telja þeim betur borgið, ef slíkar sérstakar tekjur eru ætlaðar í þessu skyni, heldur en ef lotið er almennum úthlutunarreglum úr ríkissjóði. En þó að um það megi deila, hvort heppilegt sé að hafa þessa reglu varðandi venjulegar ríkistekjur og venjuleg ríkisútgjöld, — og ég heyrði það, að við hv. 3. þm. Norðurl. v. erum þar að meginstefnu til sammála, hvernig sem okkur kemur svo saman um þær einstöku undantekningar, sem við báðir þekkjum að þegar eru fyrir hendi og vafalaust á eftir að gera, — þá vil ég leggja áherzlu á, að hér stendur töluvert öðruvísi á um. Hér er sem sagt alls ekki um eiginlegan hluta ríkissjóðsins að ræða, heldur sérstakan sjóð, bankastofnun, sem á að gegna alveg afmörkuðu verkefni, sem við báðir, ég og hv. þm., erum áreiðanlega sammála um að þarf að hafa aðra stjórn en sá almenni ríkissjóður, vegna þess að ekki kæmi okkur til hugar að ætlast til þess, hvað sem tekjunum í iðnlánasjóð liður og hvernig sem þeirra er aflað, þá væri lánum úr þessum sjóði úthlutað með sama hætti og venjulegum útgjöldum úr ríkissjóði. Hér er því um að ræða sjóð, sem er í eðli sínu sérstaks eðlis og á að hafa og hlýtur að hafa sérstaka tilveru, ef á annað borð er til hans stofnað, og þá er eðlilegt, að honum sé ætlaður sérstakur tekjustofn. Hv. þm. getur að vísu sagt, eins og hann segir: Það er eins hægt að verja nógu miklu fé í þessu skyni úr ríkissjóði. — Þetta er hægt að segja, en það er erfiðara að sanna það með tilliti til reynslunnar. Nú er iðnlánasjóður orðinn 28 ára gamall. Þennan tíma hafa allir þeir flokkar, sem nú eru á Alþingi, einhvern tíma verið í ríkisstjórn, og ekki efa ég, að þeir telji sig allir bera góðan hug til iðnaðarins. Engu að síður er niðurstaðan sú, að enn er fjármálum iðnlánasjóðs mjög ófullnægjandi fyrir komið, og það er einmitt vegna þess, að hingað til hafa menn ekki orðið sammála um eða komið auga á annan tekjustofn honum til handa en ríkissjóð, ag það er ekki fyrr en á allra síðustu árum, sem ríkissjóði er falið að greiða til sjóðsins þær fjárhæðir, sem nokkuð verulega muni um, jafnvel þó að við berum saman breytt peningagildi frá því, sem var í upphafi sjóðstilverunnar, miðað við það, sem nú er. Það er fyrst á allra síðustu árum, sem farið er að veita fé, sem við getum sagt að verulega muni um, og við verðum þó að játa, og ég ekki síður en hv. þm., að þær fjárveitingar hafa reynzt, — jafnvel svo stórhækkaðar sem þær eru, allsendis ófullnægjandi einfaldlega vegna þess, að kröfurnar eru svo margar, sem á ríkissjóðinn eru gerðar, að það er mjög erfitt að láta slíkt sérstakt verkefni, sem með eðlilegum hætti er nokkuð utan við hið venjulega verkefni ríkisútgjalda og ríkissjóðs, ná nægu jafnrétti við úthlutun úr honum við afgreiðslu fjárlaga. Þarna þurfum við ekki annað en líta til reynslunnar, sjá, hversu hún er orðin löng, og athuga, hvernig til hefur tekizt, að það er fyrst nú, þegar tvennt tekst, fyrst að útvega verulegt fé að láni til sjóðsins, sem fyrst tókst á árinu 1961, og svo nú þegar þeir aðilar, sem gjaldið ber að leggja á, koma sér saman um að vilja gjalda slíkt fé til sjóðsins, sem við höfum von um, að nokkuð rætist úr þeim miklu fjárvandræðum, sem hér hafa átt sér stað. Við ,gætum óskað eftir því, að þetta mál væri hægt að leysa öðruvísi. En við höfum séð, að vandamál sjávarútvegsins voru leyst á þennan veg, og við gætum haft mismunandi trú á því, hvort þau hefðu verið leyst, ef þessi leið hefði ekki veríð fundin. Þar ber raun vitni. Við sáum, hvernig komið var fyrir landbúnaðarsjóðunum, þegar slík gjöld voru lögð á landbúnaðarvörurnar af illri nauðsyn, hvort sem menn eru sammála um þá ákvörðun eða ekki. Og við sjáum, að það er fyrst þegar menn koma sér saman um slíka gjaldálagningu til þessa sjóðs, sem vonir virðast vakna um það, að loksins fari að hilla undir það, að sjóðurinn verði starfi sínu vaxinn. Þetta er atriði, sem eðlilegt er að mönnum sýnist sitt hvað um, og það er mjög eðlilegt, að hv. þm. óski eftir því að kanna það til hlítar, hvort aðilar hafi sjálfir lýst sig fúsa til að inna þetta gjald af hendi. Ég þykist hafa vissu fyrir því, að rétt sé hermt í grg. um það atriði, og hef raunar fengið það staðfest af forustumönnum þeirra samtaka, sem þar eiga hlut að máli. En sízt hef ég á móti því, að hv. nefnd kanni þetta mál, og ég er sannfærður um það, að því betur sem hún skoðar það, því betur sannfærist hún um, að það eru ekki önnur úrræði fyrir hendi en þau, sem hér er bent á, ef menn í alvöru vilja, að þessi sjóður sé efldur, sem ég efast ekki um að hv. 3. þm. Norðurl. v. vill ekki siður en ég.

Ólafur Jóhannesson: Herra forseti. Út af orðum hv. 10, þm. Reykv. vildi ég aðeins taka það fram, að orð mín bar náttúrlega ekki að skilja á þá lund, að ég væri að leggja til, að allsherjar söluskattur eða skattar væru auknir. Það er vitað mál, að við framsóknarmenn erum litlir fylgjendur þess fyrirkomulags. Hins vegar benti ég aðeins á þá staðreynd, að þegar sambærilegir skattar eru álagðir og innheimtir í þrennu eða fernu lagi, eins og virðist að gert mundu verða, eftir að þetta skattgjald hefði verið samþykkt, er ekki óeðlilegt, að sú spurning vakni, hvort ekki sé heppilegra að steypa þessu eitthvað meir saman og hvort hér sé ekki um óþarfar krókaleiðir að ræða til þess að ná þessu fjármagni. Þetta vildi ég aðeins taka fram og þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri.