26.02.1963
Efri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

141. mál, Iðnlánasjóður

Gísli Jónsson menntaskólakennari:

Herra forseti. Hæstv. iðnmrh. og frsm. meiri hl. iðnn., hv. 10. þm. Reykv., hafa þegar hér í hv. þd., bæði við 1. umr. og þessa, gert grein fyrir eðli máls þessa, svo að ég skal ekki setja á um það langar tölur. En málið sýnist mér vera mikilvægt hagsmunamál iðnaðarins, og þar sem ég er einn af þeim, sem undirritað hafa nál. á þskj. 295, vildi ég láta fáein orð fylgja til stuðnings því nál.

Iðnaðurinn er, að ég ætla, sá atvinnuvegur, sem örustum vexti tekur okkar á meðal, og er varla ofmælt, að sums staðar á landinu sé hann orðinn höfuðatvinnuvegur. Ég hef að vísu ekki tölur um hundraðshluta þjóðarinnar, sem við iðnað vann á stofnári iðnlánasjóðs, 1935, og svo aftur í ár, en samkv. upplýsingum hagstofunnar unnu víð iðnað árið 1940 14.2%, en árið 1950 21%. Ekki voru til nákvæmar tölur yfir árið 1960, en eftir upplýsingum, sem ég hef fengið annars staðar frá, en eru þó ekki fyllilega nákvæmar, sýnist sem ekki færri en 25–30% þjóðarinnar vinni nú við iðnað ýmiss konar.

Þó að hér sé oft um óskýr mörk að ræða milli starfsgreina, er þó ljóst, að vöxtur iðnaðarins hefur verið ör og því augljóst, að hann þarf að eiga aðgang að lánastofnunum til rekstrarins ekki síður en hinir gamalgrónu atvinnuvegir okkar, landbúnaður og sjávarútvegur. Það var því sízt ófyrirsynju, að hæstv. iðnmrh. skipaði í marz s.l. mþn. til að endurskoða lögin um iðnlánasjóð, svo vanmegnugur sem hann var að gegna hlutverki sínu, eins og sést af grg. með frv. og fram hefur komið í umr. hér í hv. deild.

Eins og fram hefur komið, eru mikilvægustu nýmælin fólgin í 1. gr. og 5. gr., en í 1. gr. segir um tilgang sjóðsins, að hann sé sá að styðja íslenzkan iðnað með hagkvæmum stofnlánum. En síðan er í 8. gr. gerð nánari grein fyrir eðli lánveitinganna, þar sem segir, að stofnlán séu veitt til véla- og tækjakaupa, til byggingar verksmiðju- og iðnaðarhúsa og til endurskipulagningar iðnaðarfyrirtækja. Er hér mjög rýmkað um frá því, sem áður var, þar sem lánveitingar til sjóðsins hafa nær eingöngu verið bundnar við vélar og stærri áhöld. Er hér að því stefnt að leysa tilfinnanlegan og aðkallandi vanda.

Í 5. gr. er hins vegar kveðið á um tekjustofna til sjóðsins og svo mjög bætt úr, að stakkaskiptum tekur. Öll árin frá stofnun sjóðsins 1935 hafa tekjur sjóðsins, ef sleppt er 15 millj. af svonefndu PL-480 lánsfé, numið alls rúmum 14 millj. kr., en nú ættu árlegar tekjur sjóðsins að nema 9–10 millj, kr. fyrir utan vexti, þar sem gera má ráð fyrir, að 0.4% gjaldið nemi 7–8 millj., en framlag ríkissjóðs er lagt til að sé 2 millj. Hér er því um mjög verulega úrbót að ræða, jafnvel þótt tekið sé tillit til minnkandi verðgildis peninga á undanförnum árum.

Deilt hefur verið um réttmæti 0.4% gjaldsins á fyrirtæki iðnaðarins, en þetta gjald skal greiða af sama gjaldstofni og aðstöðugjöld sveitarfélaga og vera frádráttarbært til tekjuskatts og tekjuútsvars. Ég skal ekki fara út í að rökræða um eðli og réttmæti slíkra gjalda yfirleitt, þar er sjálfsagt hægt að finna sitthvað bæði með og móti. En niðurstaðan hefur þó orðið sú, að stofnlánadeildir annarra atvinnuvega eru byggðar upp með slíku gjaldi, og er því ekki, miðað við það, óeðlilegt, að hér sé farin sama leið um iðnaðinn. Það er því fremur eðlilegt, að sjálf hafa iðnaðarsamtökin í landimi samþykkt þessa gjaldheimtu og jafnvel lagt hana til. Samkv. upplýsingum frá framkvæmdastjóra Landssambands iðnaðarmanna lýsti þing iðnaðarsamtakanna á Sauðárkróki s.l. sumar fylgi sínu við eitthvert slíkt gjald, sem hér er lagt til í frv., og fulltrúar bæði Landssambands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda voru í mþn., sem undirbjó frv.

Að öllu þessu athuguðu finnst mér einsætt að stuðla að framgangi þessa hagsmunamáls iðnaðarins og vænti þess, að það megi eiga greiða leið í gegnum hv. deild. Hins vegar óttast ég, að málinu væri stefnt í ófæru, ef 2. brtt. hv. minni hl. yrði samþ., þar sem lagt er til að hækka árlegt framlag ríkissjóðs um 13 millj. kr., án þess að gert sé ráð fyrir öðrum tekjustofnum á móti, því að varla geri ég ráð fyrir, að hv. þdm. séu reiðubúnir að samþykkja að hækka söluskatta og tolla, sem nú eru innheimtir í ríkissjóð.