04.03.1963
Neðri deild: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

141. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur þegar fengið afgreiðslu í Ed. Efni þess er tviþætt: annars vegar að tryggja iðnlánasjóði meira fé til ráðstöfunar en hann hefur hingað til haft og hins vegar að rýmka verkefni sjóðsins.

Hið aukna fé, sem ætlað er í þessu skyni, á að fá með því móti að leggja á sérstakt gjald, sem miðast við aðstöðugjaldið á iðnaðinum, eins og nánar greinir í 5. gr. frv. Sú n., sem undirbjó frv., hafði um það samráð við samtök iðnaðarmanna, bæði Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda, að þetta gjald yrði á lagt, og eru þeir því eindregið fylgjandi. Það hefur verið áætlað, að gjaldið muni til að byrja með verða a.m.k. 7-8 millj. kr. á ári, og er það mjög mikil aukning á fé sjóðsins, sem hann þannig fær. Jafnframt hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að sjóðurinn fái lánsfé til útlána í mun ríkari mæli en áður. Það hefur þegar verið útvegað til hans einu sinni af hinu svokallaða PL–480 fé. Ráðgert er, að það verði aftur nú um þessar mundir og einnig á næsta ári. Með öllum þessum ráðstöfunum ætti sjóðurinn að verða miklu hæfari til þess að gegna sínu verkefni en hingað til hefur verið, en fjárskortur hefur mjög bagað þessa merku starfsemi.

Þá er einnig ráðgert, eins og ég sagði, að verkefni sjóðsins verði rýmkað þannig, að hann verði nú eins konar stofnlánasjóður fyrir iðnaðinn, ekki einungis til véla- og tækjakaupa, eins og hingað til hefur fyrst og fremst verið, heldur einnig til byggingar verksmiðju- og iðnaðarhúsa. og til endurskipulagningar iðnfyrirtækja og jafnvel einnig til þess að gera iðnfyrirtækjum kleift að kaupa fasteignir. Hins vegar er úr lögum numin heimildin til þess að veita rekstrarlán úr sjóðnum, en hún hefur lítt eða ekki verið notuð.

Það er með þetta mál eins og fleiri, að menn getur greint á um einstök atriði í sambandi við frv. Um þann megintilgang að efla sjóðinn og rýmka hans starfssvið hefur hins vegar enginn ágreiningur átt sér stað.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.