18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til að setja iðnlánasjóði ný lög. Helztu breytingar frá eldri lögum eru þær, að starfssvið sjóðsins er fært verulega út og sjóðnum á að afla nýrra tekna og setja honum nýja stjórn.

Ég þarf ekki hér neitt að fjölyrða um þá brýnu nauðsyn, sem er á því, að iðnaðinum verði séð fyrir meira og aðgengilegra lánsfé en verið hefur. Sérstaklega hefur hér verið um mikla erfiðleika að ræða varðandi byggingarframkvæmdir iðnaðarins, byggingu verksmiðjuhúsa og annað þess háttar. Það eru áreiðanlega allir sammála um, að brýn þörf sé á að bæta hér um, og að svo miklu leyti sem þetta frv, gengur í þá átt, er ég því fyllilega samþykkur.

En n, hefur hins vegar ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. frá sér. Það eru aðallega tvö atriði, er ég tel að breyta þyrfti frá því, sem er í þessu frv. Það er ákvæðið um stjórn, hvernig stjórn sjóðsins skuli skipuð, en samkv. frv. á hún nú að verða skipuð af ráðh. eftir tilnefningu samtaka iðnrekenda í landinu. Ég vil vekja athygli á því, að með þessu er farið mjög inn á nýjar brautir um skipun stjórnar fyrir slíka sjóði, og vil þar minna á, hvernig háttað er með stjórnir stofnlánasjóða atvinnuveganna, bæði sjávarútvegs og landbúnaðar. Iðnaðarbankanum á að fela vörzlu sjóðsins. Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja. Ef tekinn er t.d. fiskveiðasjóður, þá er hann í vörzlu Útvegsbankans og undir stjórn bankastjórnar bankans. Á sama hátt er ekki hægt að fara með iðnlánasjóð í Iðnaðarbankanum, þar sem ekki er um ríkisbanka að ræða. Ég tel alveg sjálfsagt, að stjórn þessa sjóðs verði kosin af sameinuðu Alþingi, verði skipuð 5 mönnum, en ekki á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, og ég tel, að þar sé verið að fara inn á mjög varhugaverða hraut um skipun stjórnar slíkra sjóða eins og hér um ræðir, og þar mun, held ég, eðlilega stjórn þessa sjóðs fyrst og fremst verða í höndum þeirra, sem hvað helzt koma til með að þurfa á lánunum að halda og má segja, að þar dæmi í eigin málum.

Að öðru leyti tel ég, að það þyrfti að breyta því ákvæði frv., sem fjallar um tekjuhliðina, þó ekki þannig, að ég get samþykkt þetta 0.4% gjald, sem hér er gert ráð fyrir, en mér sýnist, að samkv. frv. sé það naumast rétt, sem stendur í 5. gr. þess, að gjald þetta skuli innheimtast af iðnaðinum í landinu, heldur muni hér vera um nýjan neyzluskatt — nýjan söluskatt að ræða og verði að ræða í framkvæmd, því að það er gert ráð fyrir, að þetta gjald verði frádráttarbært til tekjuskatts, tekjuútsvars og sennilega ekki þá neinn vafi á því, að það verður látið fylgja út í verðlagið, þannig að það verði þá notendurnir á þjónustunni og vörunni, sem borga þetta gjald, en engan veginn iðnaðurinn sjálfur, en ég tel, að einmitt hann ætti að standa undir þessu gjaldi.

Það eru einkum þessi tvö atriði, sem ég hef að athuga við þetta frv., eins og það er núna. Til enn frekari áherzlu um skipun sjóðsstjórnarinnar, að hún ætti að vera á annan veg, vil ég nefna, að eins og frsm. meiri hl. tók hér fram og tekið er fram í grg. frv., þá verða þær tekjur, sem frv. gerir ráð fyrir, áreiðanlega engan veginn nægjanlegar fyrir þarfir iðnlánasjóðs á næstunni, og því er gert ráð fyrir, að allveruleg lánsheimild verði, heimild til að taka 100 millj. kr. lán með ábyrgð ríkisins. Það undirstrikar enn frekar, að sá háttur, sem frv. gerir ráð fyrir um stjórn sjóðsins, er óhæfur og þessu á að breyta.

Samkv. því, sem ég hef hér sagt, flyt ég brtt. á þskj. 385, þar sem lagt er til, að sjóðsstjórnin verði skipuð eins og ég nú hef rakið, og enn fremur, að sú breyting verði við 5. gr. frv., að 1. töluliður orðist þannig nú: „óheimilt er að hækka útsöluverð á iðnaðarvörum vegna gjalds þessa.“ En niður falli það, sem í frv. segir, að gjaldið skuli vera frádráttarbært sem rekstrarkostnaður vegna álagningar tekjuskatts og tekjuútsvars. En með þessum breytingum mundi ég fylgja frv. fram.