19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Í tilefni af brtt. hv. 2. landsk. þm. á þskj. 385, 2. tölul., þar sem segir, að óheimilt sé að hækka útsöluverð á iðnaðarvörum vegna gjalds þessa, vil ég upplýsa, að ákvæði 5. gr. frv. um 0.4% gjaldið ber að skilja á þann veg, að iðnaðurinn sjálfur eigi að taka það á sig. Kemur þetta fram í aths. við 5. gr. frv., en þar segir m.a.:

„Með hliðsjón af því, að frv. gerir ráð fyrir nýjum verkefnum fyrir iðnlánasjóð, sem krefjast stóraukinna fjárráða, þótti óhjákvæmilegt að tryggja sjóðnum árlegar tekjur umfram ríkisframlagið og vexti af stofnfé. Eftir að leitað hafði verið álits stjórnar Landssambands iðnaðarmanna og stjórnar Félags ísl. inðrekenda, var ákveðið að leggja til, að lagt yrði gjald á iðnaðinn sjálfan, sem miðaðist við aðstöðugjaldstofn hvers greiðanda.“

Framleiðsluvörur iðnaðarins eiga því ekki að hækka í verði til neytenda vegna þessa gjalds, og vil ég leyfa mér að fara þess á leit við hv. flm., að hann dragi till. sína til baka.