19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. frsm. iðnn. hefur hér flutt yfirlýsingu þess efnis, að það sé ekki ætlazt til, að 0.4% gjaldið, sem um getur í þessu frv., leggist á útsöluverð iðnaðarvara, heldur eigi iðnaðurinn sjálfur að standa undir því. Út af fyrir sig er ánægjulegt að heyra þessa yfirlýsingu, sem ber að skilja, trúi ég, á þann veg, að þetta sé skoðun ríkisstj. og þannig sé hugsað að það verði í framkvæmd. Ég fæ ekki skilið, hvers vegna þá hefði ekki mátt taka þetta fram skýrum orðum í frv. sjálfu. En með hliðsjón af þeirri yfirlýsingu, sem hv. formaður iðnn. nú hefur gefið, mun ég taka 2. brtt. á þskj. 383 til baka til 3. umr., til þess að það gefist a.m.k. tóm til að athuga nánar, hvaða gildi þessi yfirlýsing, sem hér hefur verið gefin, raunverulega hefur. En eins og ég sagði, hefði ég talið miklu æskilegra og raunverulega það eina rétta, að lögin sjálf hefðu talað skýru máli um þetta efni, sem ekki virðist vera ágreiningur um, hvernig beri að framkvæma.

Hins vegar verð ég að lýsa undrun minni yfir, að meiri hl. n. skuli ekki geta fallizt á að taka tillit til skoðana minni hl. um skipan stjórnar fyrir sjóðinn. Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði í gær varðandi stjórnina. Ég tel, að það sé algerlega rangt að farið, að stjórnin skuli vera skipuð eftir tilnefningu samtaka iðnrekenda og þeir því hafandi öll ráð. Hér er farið inn á nýjar brautir, sem ég tel að séu mjög varhugaverðar og beri ekki að gera. Það er aldeilis rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það þarf ekki að felast í því neitt vantraust til þeirra manna, sem hér er ætlað um að fjalla, þ.e.a.s. fulltrúa Landssambands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda, þó að þessar skoðanir komi fram. En það er mjög óviðkunnanlegt, svo að ekki sé meira sagt, að einmitt þeir, sem sjálfir eiga að njóta góðs af þessum sjóði, hafi allt ráðstöfunarvald hans í sínum höndum og ekki aðeins það fé, sem mætti kannske segja að þeir legðu fram, heldur og allt fé sjóðsins, bæði það, sem lagt er fram beint úr ríkissjóði, og þau lán, sem sjóðurinn kemur til með að taka og hljóta að verða, a.m.k. fyrsta kastið, hans höfuðfjármagn, lán, sem tekin eru á ábyrgð ríkissjóðs. Ég vildi mjög eindregið mælast til þess, að áður en lokið verður við þetta mál hér í hv. d., yrði þetta endurskoðað og athugað, hvort ekki eru möguleikar til þess að breyta þessu ákvæði, sem ég tel mjög mikilsvert að gert verði, og gera allt frv. eða l. á annan veg en þau eru með þessum ákvæðum. En eins og ég sagði, herra forseti, ég tek aftur till. til 3. umr.