21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

141. mál, Iðnlánasjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. frsm. n. sagði, og í framhaldi af þeim orðum, sem ég lét falla um daginn. Ég lýsti eftir rökunum fyrir því, að samvinnufélögunum væri ekki ætluð nein hlutdeild í stjórn sjóðsins, enda þótt á vegum þeirra væri mikill iðnaður, og taldi þetta rangindi, þegar þess er gætt, að öðrum iðnrekendum er ætlað að stjórna sjóðnum að meiri hl. til. Ég spurði um rökin fyrir þessu, og hv. frsm. vildi ekki færa þau fram, minntist ekki á þetta atriði, og vil ég telja það vott þess, að hann áliti þetta með öllu óverjandi, að sýna samvinnufélögunum á þennan hátt rangindi og misrétti. En hitt finnst mér þó einkennilegt, að hv. frsm. skuli ekki, þar sem hann ekki færir rök fyrir þessari afstöðu, draga réttar ályktanir af því og fylgja fram þeirri breytingu, að samvinnufélögin fái þarna nokkra hlutdeild líka. Ég vil því endurtaka mótmæli mín í sambandi við þetta atriði málsins.

Þá benti ég á um daginn, að hæstv. ríkisstj. gerði till. um fjölmarga aukaskatta og aukaálögur umfram þær, sem væru í hinum almennu skattalögum, og kæmu tæpast svo frv. frá hæstv. ríkisstj., að ekki væri gert ráð fyrir nýjum skatti. í þessu frv. er, eins og ég benti á þá, gert ráð fyrir 0.4% nýjum söluskatti á iðnaðarvörur. Það er verið að tala um, að þetta sé skattur á iðnaðinn. Við skulum ekki vera með neinn orðaleik. Þetta er söluskattur á iðnaðarvörur. Hann á að vera hliðstæður aðstöðugjaldinu, þ.e.a.s. veltuútsvarinu, sem búið er að skíra nýju nafni núna og heitir aðstöðugjald. Og aðstöðugjaldið kemur auðvitað inn í vöruverðið eins og almennur söluskattur.

Hv. frsm. sagði, að iðnrekendur mundu fúsir til þess, að þetta gjald yrði greitt af þeim, skildist manni, en ekki tekið inn í vöruverðið. En ég segi: Engar yfirlýsingar frá einstökum iðnrekendum hafa neina þýðingu í þessu sambandi, því að það leiðir af eðli málsins, að hvað sem þeir segja, þá verður það svo, þegar frá liður, að ef ekki er bannað með lögum að taka þetta gjald inn í vöruverðið, þá fer það inn í vöruverðið eins og veltuútsvarið og aðstöðugjaldið. Þetta er augljóst mál. Á hinn bóginn þykir þeim, sem standa að þessu gjaldi, þægilegra að halda hinu fram, meðan verið er að koma þessu inn í lögin. Og jafnvel þótt þeir iðnrekendur, sem hefðu gefið slíka yfirlýsingu, væru svo vandir að virðingu sinni, að þeir létu þetta ekki koma inn í sína verðlagningu, vegna þess að þeir hefðu sagt þetta, þá hafa þeir auðvitað ekkert vald á þessu til frambúðar. Þeir tala bara fyrir sig, og gjaldið kemur að sjálfsögðu inn í vöruverðið almennt, ef ekki strax, þá þegar frá liður. Hér er því hreinlega um söluskatt að ræða.

Hv. frsm. sagði, að ég hefði fundið að þessum aukasköttum, sem verið væri að leggja á með margvíslegu móti, en þess bæri að gæta, að ef þeir væru ekki lagðir á, þá þyrfti að hækka aðra skatta til ríkissjóðs, sagði hv. frsm. En ég mótmæli því alveg. Ég mótmæli því, að það þurfi að hækka álögur til ríkissjóðs, enda þótt samþ. væri till. minni hl. n. um 15 millj. kr. framlag til iðnlánasjóðs úr ríkíssjóði. Ég mótmæli því, að það þurfi að hækka álögur til ríkissjóðs, þótt sú till. yrði samþ. og sjóðnum þannig lagt nokkurt fé af því fjármagni, sem tekið er með almennum sköttum og rennur til ríkissjóðs, enda held ég tæpast, að mörgum, sem kunnugir eru ríkisbúskapnum og álögunum og ríkistekjunum, eins og þær eru núna, með þeim gífurlegu álögum, sem mokað hefur verið á þjóðina undanfarið, mundi detta í hug að taka undir þessi ummæli hv. þm. Ég mótmæli þessu því algerlega, enda mun reynslan sýna það.

Við sýndum fram á með sterkum rökum við afgreiðslu fjárlaga í vetur, að það var óhætt álaganna vegna að samþ. nokkru meiri ríkisútgjöld en þá voru sett á fjárlögin án þess að hækka skattana og tollana. Við sýndum fram á þetta með skýrum rökum, og þau rök standa enn. Það er þess vegna gersamlega ástæðulaust að vera að lögleiða alla þessa aukaskatta, sem hæstv. ríkisstj. er á ferðinni með í þessu frv., auk þess sem það er í góðu samræmi við annað á vegum hæstv. ríkisstj. varðandi stefnuyfirlýsingar og efndir, að ríkisstj., sem hét því að gera allt skattakerfið miklu einfaldara en áður var og léttara í vöfum, stingur nú upp á að innleiða hvern aukaskattinn af öðrum, sem kosta stórkostlega nýja fyrirhöfn og hafa í för með sér verulegan kostnað, fyrir utan öll óþægindin, sem af þessum sköttum stafa. Ég benti um daginn á aðeins örfá atriði. Ég benti á hækkunina á útflutningsgjaldinu. Ég benti á nýja launaskattinn á baendurna, sem er innheimtur með alveg nýju kerfi. Ég benti á söluskattinn á landbúnaðarafurðirnar, sérstakan söluskatt á landbúnaðarafurðirnar. Og ég benti á nýja söluskattinn á iðnaðarvörurnar, sem verið er að lögbjóða með þessu frv. Ég benti á nýja skattinn á ríkisábyrgðirnar, sem einnig er farið að innheimta. Og ég benti á tillögur ríkisstj., sem hér liggja fyrir, um sérstakan skatt á launagreiðslur iðnaðarfyrirtækja, sem er enn eitt nýtt „apparat“ til að innheimta skatta. Enn fremur nýjan söluskatt á sement, sem framleitt er í landinu, og nýjan aðflutningssöluskatt á byggingarvörur. Og fer þó því vafalaust fjarri, að ég hafi náð að koma fram með tæmandi upptalningu á öllu þessu skattaflóði, sem hellt er yfir þjóðina og hefur verið nú á undanförnum missirum. Þar að auki benti ég á það í leiðinni, að skattar til ríkissjóðs hafa hækkað eða álögurnar í heild um 1300 millj. kr. síðan 1958. Samt þarf að dómi stjórnarinnar að moka á öllum þessum aukagjöldum. Ég mótmæli því þess vegna, sem hv. frsm. hélt fram, að það þyrfti að leggja á nýja tolla eða nýja skatta til ríkissjóðs, þótt honum væri ætlað að borga það framlag, sem hv. minni hl. leggur til.