22.11.1962
Neðri deild: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

99. mál, framkvæmdalán

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég er sammála öðrum nm. í fjhn. um það, að rétt sé, að Alþingi veiti ríkisstj. þá heimild, sem hér er farið fram á. Ég tel alveg vafalaust, að það sé þörf fyrir erlent framkvæmdalán. Á valdatíma núv. hæstv. ríkisstj. hefur orðið ákaflega mikil rýrnun á verðgildi ísl. krónunnar. Ein af afleiðingum þess er sú, að innlent fjármagn, sem fyrir var fullnægir langtum síður þörfinni en áður fyrir framkvæmdafé. Skapar það meiri þörf fyrir erlent lánsfé til að greiða stofnkostnað nauðsynlegra fyrirtækja og framkvæmda.

Í ársbyrjun 1960 lagði hæstv. ríkisstj. fram frv. til l, um efnahagsmál, og stuðningsflokkar hennar samþykktu þetta frv. hér á Alþ. í febrúar 1960. Í aths. ríkisstj. með þessu frv. var m.a. vikið að því, að greiðslubyrði þjóðarinnar vegna erlendra skulda væri orðin mjög mikil. Í aths. voru útreikningar á því, sem þar var nefnt halli þjóðarbúskaparins á undanförnum árum. Þessir útreikningar voru þannig gerðir, að með halla þjóðarbúskaparins, sem svo var nefndur, var talið lánsfé, sem fengið hafði veríð erlendis til þess að greiða stofnkostnað við ýmsar nauðsynjaframkvæmdir. Og í aths. var, eins og áður segir, rætt um greiðslubyrði landsins vegna vaxta og afborgana af erlendum lánum. Og það var birt tafla um þessa greiðslubyrði. Sagt var, að greiðslubyrðin hefði farið ört vaxandi síðustu árin, talið, að hún hefði verið 87 millj. árið 1958, 138 millj. árið 1959, og síðan voru útreikningar og ágizkanir um það, hver hún mundi verða næstu árin, sagt, að hún mundi verða 163 millj. 1960, en mundi ná hámarki 1961, eða 183 millj., og svo framarlega sem nýjar lántökur kæmu ekki til byrja að lækka árið 1962. Síðan var sagt um þetta í aths. með frv., að það mætti áætla, að á árunum 1959–1963 yrði greiðslubyrðin að meðaltali um 10% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar. Og síðan segir: „Þetta er mjög þung greiðslubyrði og að öllum líkindum þyngri en í nokkru öðru landi að einu undanskildu.“ Og það var sagt í aths. með frv., að hin þunga greiðslubyrði og slæma gjaldeyrisstaða hefði skapað mjög alvarlegt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar. Aths. þessar með efnahagsmálafrv. stjórnarinnar voru gefnar út í sérstakri bók á ríkiskostnað, og því riti var dreift um land allt.

En hvernig hafa útreikningar, sem þar voru birtir, og spádómarnir staðizt dóm reynslunnar? Nú liggja fyrir upplýsingar um þessi efni frá hæstv. fjmrh, og fleirum í liði stjórnarinnar. Hæstv. fjmrh. segir, að í ár þurfi þjóðin að greiða 554 millj. í vexti og afborganir erlendra lána. Þessar upplýsingar gaf hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, formaður fjhn. Ed., þegar rætt var um þetta mál þar. Og hv. 11. þm. Reykv. gaf einnig þær upplýsingar, að greiðslubyrðin í ár, 1962, mundi verða 15–20% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Eins og áður segir, var talið í aths. við efnahagsmálafrv. ríkisstj. 1960, að greiðslubyrðin á árunum 1959—63 mundi að meðaltali verða um 10% af heildargjaldeyristekjunum. Samkvæmt nýjum upplýsingum hefur hún vaxið þetta mikið síðan, er nú komin í 15–20% af heildargjaldeyristekjunum. En það er nokkuð breyttur tónn í hæstv. stjórn og hennar stuðningsmönnum í þessu máli. Þegar greiðslubyrðin var áætluð um 10% af heildargjaldeyrístekjunum, var talið, að þar með hefði skapazt ákaflega alvarlegt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar. Nú segja þeir að vísu, að hér sé um allháar tölur að ræða, þegar þeir tala um greiðslubyrði. Ég vildi vekja athygli á þessu, en ætla ekki a.m.k. að svo stöddu að ræða það meira, enda vil ég greiða fyrir því, að mál þetta hafi sem greiðastan framgang í gegnum þingið, eins og óskað hefur verið eftir.

Aðalástæðan til þess, að ég gaf út sérstakt nefndarálit um frv., er sú, að það er ágreiningur í fjhn. um aðferð við skiptingu á lánsfénu. Upphaflega var gert ráð fyrir því í frv., að ríkisstj. ein skipti lánsfénu milli einstakra framkvæmda. Í Ed. var hins vegar gerð sú breyting, að skipting lánsfjárins skyldi ákveðin í samráði við fjvn. Alþingis, áður en þessu þingi lýkur, sem nú er að störfum. Ég tel, að þessi breyting sé til bóta. En þó ætti að koma þessu öðruvísi fyrir. Ég tel alveg sjálfsagt, að Alþingi skipti lánsfénu með sérstökum lögum. Þó að ekki sé hægt að gera það nú, um leið og þetta frv. er afgreitt, kemur það ekki að sök. Það ætti að vera hægt að setja sérstök lög um skiptingu lánsfjárins síðar á þessu þingi. Það er því till. mín, herra forseti, eins og fram kemur á þskj. 137, að frv, verði samþ. með þeirri breyt. á 2. gr. þess, að þar verði sett inn: „Alþingi ákveður með sérstökum lögum skiptingu lánsfjárins.“ Og komi það í staðinn fyrir núv. 1. málslið í 2. málsgr. 2. gr.