28.02.1963
Neðri deild: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað og rætt á nokkrum fundum sinum frv. til l. um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf, en frv. þetta er flutt af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar á brbl., sem sett voru 2, maí 1962. N. hefur kvatt til fundar við sig til skrafs og ráðagerða tvo af starfsmönnum samgmrn., þá Brynjólf Ingólfsson og Gunnar Vagnsson, og einnig nokkra fyrirsvarsmenn Verkfræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga, en siðarnefnda félagið er sú deild í fyrrnefnda félaginu, sem launa- og kjaramál launþega í verkfræðingastétt heyra undir.

Nm. hafa ekki getað orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. fellst á þau rök, sem fram eru borin fyrir setningu brbl.; eins og á stóð, og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem greind er í nái. á þskj. 313, en l. minni hl. n., hv. 11. landsk. þm., leggur til, að frv. verði fellt, og 2. minni hl., hv. 4. þm. Sunnl., leggur til, að því verði vísað frá með rökst. dagskrá, og leggja báðir þessir hv. þm. fram sérstakt nál. þar um.

Ástæðan fyrir því og aðdragandinn að því, að þau brbl., sem frv. þetta fjallar um, voru sett, er í stórum dráttum sá, að í júlímánuði 1961 sögðu launþegar í verkfræðingastétt og þ. á m. þeir, sem starfa við ríkisstofnanir, upp samningum um kaup og kjör og kröfðust verulegra launahækkana. Töldu vinnuveitendur sig ekki geta gengið að þeim launahækkunum, sem krafizt var, en ríkisstj. bauð verkfræðingum, sem starfa við ríkisstofnanir, óbreytta samninga með sömu hækkun og aðrar stéttir fengu frá 1. júli 1961, þ.e. 13.8% en þessu hafnaði Stéttarfélag verkfræðinga með öllu.

Vorið 1962 gaf Verkfræðingafélag Íslands út nýja gjaldskrá, sem taka skyldi gildi frá 1. maí 1962, í stað eldri gjaldskrár félagsins, sem gilt hefur frá 19, apríl 1955. Sú gjaldskrá, sem taka skyldi gildi frá 1. maí 1962, er sett upp eftir ærið flóknum reglum, sem ekki verður gerð tilraun til að lýsa hér, en samkv. henni skyldi tímakaup verkfræðinga hækka mjög verulega og í einstaka tilfellum um eða jafnvel yfir 300%. Til að fyrirbyggja, að þessi nýja gjaldskrá tæki gildi, gaf hæstv. ríkisstj. út þau brbl., sem frv. þetta er flutt til staðfestingar á, þann 2. maí 1962.

Margir kunna nú e.t.v. að spyrja, hvað komi málinu við í deilu ríkisvaldsins við verkfræðinga hjá ríkisstofnunum um kaup þeirra og kjör hin nýja gjaldskrá, sem gilda skyldi um laun og kostnað við starfsemi þeirra verkfræðinga, sem starfa sjálfstætt. Þegar betur er að gætt, mun þetta þó mjög blandast saman, vegna þess að frá því að verkfræðingar hjá ríkisstofnunum sögðu upp samningum um kaup og kjör í júli 1961, hafa greiðslur fyrir flest verkfræðistörf, sem unnin hafa verið í þágu ríkisins, síðan aflýst var verkfalli verkfræðinga haustið 1961, einmitt miðazt við gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 1955, og má ætla, að ef hin nýja gjaldskrá hefði tekið gildi, hefðu þessar greiðslur til verkfræðinga hjá ríkisstofnunum hækkað svo mjög í samræmi við ákvæði hinnar nýju gjaldskrár, að þær hefðu orðið a.m.k. að því er varðar tímakaup hærri en það mánaðarkaup, sem Stéttarfélag verkfræðinga krafðist fyrir hönd verkfræðinga hjá ríkisstofnunum, þegar samningum var sagt upp í júlí 1961. Hefði, þegar svo var komið, verið til lítils að neita lengur að ganga að kröfum Stéttarfélags verkfræðinga óbreyttum.

Eftir þeim upplýsingum, sem allshn. hefur aflað sér, mun tímakaup verkfræðinga hjá ríkisstofnunum nú nema um 90 kr. á klst., og er þá að sjálfsögðu miðað við gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 1955 að viðbættum lögleyfðum uppbötum.

Stéttarfélag verkfræðinga er ekki aðili að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, og verða laun verkfræðinga í þjónustu ríkisins ekki ákveðin af kjaradómi samkv. lögum þar um.

Meiri hl. allshn. leggur til, að þau brbl., sem hér eru til umr., haldi gildi sínu, þar til nýir samningar hafa tekið gildi um laun verkfræðinga í þjónustu ríkisins. Hafi slíkir samningar tekizt, áður en kjaradómur hefur fellt sinn úrskurð um kaup og kjör annarra starfsmanna ríkisins, er það sjálfsagt vel, en fari hins vegar svo, að samningar hafi enn ekki tekizt milli ríkisvaldsins og Stéttarfélags verkfræðinga um kaup og kjör verkfræðinga í þjónustu ríkisins, þegar úrskurður kjaradóms gengur, verður að ætla, að í ljósi þeirra viðhorfa, sem skapast að úrskurði dómsins gengnum, verði lausn þessa ágreiningsmáls auðveldari, þegar aðrir starfshópar í þjónustu ríkisins hafa væntanlega fengið leiðréttingar á launum sínum og kjörum.

Ég ætla mér ekki að gera að umtalsefni sérstöðu tveggja hv. meðnm. minna um afstöðu til þessa frv. Þó get ég ekki annað en lýst furðu minni yfir því, sem segir í nál. hv. 2. minni hl., að frv. snerti ekki launakjör fastráðinna verkfræðinga, t.d. þeirra, sem vinna hjá ríkinu. Eins og ég áður vék að, snertir gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands, sem brbl. og frv. fjalla um, einmitt launamál verkfræðinga, sem starfa við ríkisstofnanir, eftir að þeir sögðu upp samningum í júlí 1961. Með þessari tilvitnuðu setningu sinni slær því hv. 2. minni hl. því föstu mjög blátt áfram, að trúnaðarmenn stjórnarráðsins, sem við báðir kölluðum til fundar við okkur, hafi skýrt okkur alrangt frá atvikum, og einnig, að sú staðhæfing í forsendum brbl., að greiðslur fyrir flest störf verkfræðinga í þágu ríkisins hafi undanfarið verið ákveðnar með hliðsjón af tímakaupi samkv. gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands írá 19. apríl 1955, sé staðlausir stafir. Að lýsa þetta ósatt finnst mér nokkuð langt gengið og viðurhlutamikið og engum sæmandi, nema hann hafi sannanir fyrir hinu gagnstæða, en slíkar sannanir leyfi ég mér að efast um að til séu.

Eins og ég áður tók fram, leggur meiri hl. allshn. til, að frv. þetta verði samþ. með þeirri breytingu, sem prentuð er í nál. á þskj. 313.