28.02.1963
Neðri deild: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú langt síðan þetta mál var hér til 1. umr., og tók þá enginn til máls. Þá vildi enginn andmæla þessu frv. Og nú kemur mér það ekkert á óvart, þótt þessir tveir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað fyrir sinn hvorn minni hl., hafi raunverulega fátt fram að bera máli sínu til framdráttar.

Það kom greinilega í ljós hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Sunnl., að hann talaði ekki af mikilli sannfæringu hér áðan fyrir hinni rökst. dagskrá, enda er ég sannfærður um, að hv. þm. hefur gert sér ljóst, að það getur ekki staðizt, þegar hann fullyrti, að það hefði heillavænleg áhrif á efnahagsþróun í landinu, ef gengið væri að kröfum verkfræðinga, að gjaldskrá þeirra væri hækkuð um 320%. Hv. þm. segir, að það muni ekki hafa slæm áhrif á efnahagsþróun í landinu, ef þetta væri gert. Og hv. þm. segir, að það hafi stungið sig, — sem betur fer ekki í hjartað, — að þessi lög ná ekki til allra verkfræðinga, snerta ekki þá verkfræðinga, sem eru starfandi hjá ríkísstofnunum, heldur aðeins þá verkfræðinga, sem eru hjá einstökum firmum, sem selja út vinnu. En dettur nokkrum manni í hug, að það mundi ekki hafa áhrif á kaupkröfur þeirra verkfræðinga, sem vinna hjá ríkisstofnunum, ef aðrir verkfræðingar fengju að hækka gjaldskrá um 320% og vinna eftir henni? Verkfræðingafélagið gerði tilraun til þess að mótmæla því, að hækkunin gæti orðið 320%, en það var tilraun, sem mistókst. Rn. sendi frá sér grg., sem birt var í öllum blöðum í byrjun nóvembermánaðar, og rökstuddi það, að þessi hækkun væri svona mikil. Hv. þm. hafa vonandi lesið þessa grg, og tekið eftir því, að Verkfræðingafélagið hefur ekki getað mótmælt. Við 1. umr. þessa máls nefndi ég þrjú dæmi úr gjaldskránni: það var þessi 320% hækkun, það var hækkun við teikningar á brúargerð, þar sem gert var ráð fyrir að hækka tímakaupið úr 142 kr. í 300 kr., og það var eitt atriði enn, sem er algert nýmæli í gjaldskránni, og það er það, að verkfræðingafirma getur tekið 1.2% álagningu á annað starfsfólk, sem það hefur í stofnuninni, þannig að ef þessi annar starfsmaður hefur 100 kr. um klst., þá tekur það ekki nema 833 klst. að borga árslaun, sem væru um 100 þús. kr. Þá hefur þetta verkfræðingafirma í tekjur af þessum starfsmanni 264 þús. kr., en greiðir aðeins í laun þessum sama manni 100 þús. kr.

Mig undrar það, þegar hv. 4. þm. Sunnl. talar um nauðsyn þess fyrir þau firmu, sem hafa dýrar skrifstofur, að hækka sína álagningu, til þess að fyrirtækin megi þrífast. Ég held, að bæði hann og fleiri hv. þm. þekki til þess, að það væri þörf á að bæta kjör annarra miklu fremur en þessara verkfræðingafirma, sem við hér erum að tala um. Hitt er svo annað mál, að það er vitanlega sjálfsagt að gera verkfræðingum og verkfræðingafirmum kleift að starfa í landinu, því að án þessara manna getum við vitanlega ekki verið. En við getum ekki gefið þeim það frjálsræði, sem hv. 4. þm. Sunnl. var að tala um að æskilegt væri að þeir hefðu, þegar frjálsræðinu, þegar frelsinu er misbeitt.

Hv. 4. þm. Sunnl. talar um, að það séu margir flokkar manna, sem vinni eftir gjaldskrá, og það hafi ekki veríð gefin út brbl. til þess að hefta gildi á gjaldskrá fyrr en nú. Hvers vegna er það? Það er vegna þess, að það hafa ekki aðrir spennt bogann svo hátt eins og Verkfræðingafélagið hefur gert í þessu tilfelli, því að það er vitanlega ekki gripið til þess ráðs að gefa út brbl., nema brýna nauðsyn beri til, og það er ekki leyfilegt, nema brýna nauðsyn beri til. Og ég harma það nú, að hv. 4. þm. Sunnl. skuli hafa léð sig í það að gerast málsvari þess, að þessi hækkun megi taka gildi, því að það er öllum ljóst, hvaða afleiðingar það hlyti að hafa í för með sér. Ef verkfræðingarnir einir út af fyrir sig fengju að bæta sín kjör um 320%, leiðir það ekki af sjálfu sér, að allir aðrir verkfræðingar kæmu á eftir? Leiðir það ekki af sjálfu sér, að allir aðrir embættismenn kæmu á eftir með kröfur og miðuðu við það, og leiðir það ekki af sjálfu sér, að allir hinir lægst launuðu kæmu á eftir? Vitanlega yrði það. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gerir kröfu um 120% hækkun og þykir mikið og er vitanlega allt of mikið, en verkfræðingarnir um 320%. Ef gengið væri að því að láta Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fá 120% hækkun, eða 600 millj. kr. til viðbótar þeim 500 millj., sem ríkið greiðir þeim nú, þá þyrfti að skattieggja hvert mannsbarn í landinu, unga og gamla, um 3300 kr. Ef gjaldskrá Verkfræðingafélagsins hefði tekið gildi, þá er ekkert ólíklegt, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefði spennt bogann enn þá hærra.

Það er leiðinlegt, að það skuli þurfa að ræða við menn, sem maður hefur ástæðu til þess að ætla að vilji halda í horfinu, vilji ekki grafa undan atvinnulífinu og efnahagsástandinu, — að maður skuli þurfa að vera að deila við þá menn um það, hvort þessi lög eru nauðsynleg eða ekki. Þess vegna er það, að ég harma, að hv. 4. þm. Sunnl. skuli hafa tekið þessa afstöðu, því að með því að samþykkja þá dagskrá, sem hann flytur hér á þskj. 317, væri verið að grafa undan okkar efnahags- og fjármálalífi. Það væri ekki verið að vinna að því að bæta kjör almennings í landinu, það væri ekki verið að vinna að því að auka á uppbygginguna í landinu, það væri verið að grafa undan íslenzku krónunni, gera hana verðlausa, það væri verið að vinna að því að stöðva alla uppbyggingu í landinu og gera kjör alls almennings í landinu lakari en þau eru. Og ég er alveg sannfærður um það, að Verkfræðingafélag Íslands, þegar það stillir sínum kröfum svo hátt sem það hefur gert, þá hefur það ekki gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar þetta getur haft, — alls ekki gert sér grein fyrir því. Ég hef rætt við marga verkfræðinganna og það er ekki það, sem vakir fyrir þeim, að eyðileggja atvinnulifið í landinu, þegar þeir spenna bogann svo hátt, að til fulls hruns komi í okkar fjármálum. Það munu þeir hafa séð á eftir, þegar gjaldskráin varð til. Og það er þess vegna, sem gjaldskráin er nokkurs konar feimnisplagg, það er þess vegna, sem gjaldskráin hefur ekki verið lögð fram í hv. allshn., það er þess vegna, sem hv. 11. landsk. þm. (GJóh) hefur ekki séð gjaldskrána, og það er þess vegna, að hv. 4. landsk. hefur ekki haft ástæðu til þess að kynna sér hana, að Verkfræðingafélagið hefur ekki talið sér hag í því, að hún lægi frammi og væri gagnrýnd. Hins vegar er það, að meiri hl. n. hefur kynnt sér það, sem þarf, í gjaldskránni til þess að sannfærast um, hvað í henni felst og hvað af henni hlyti að leiða. Það er ekkert leyndarmál, að þar er um 320% hækkun að ræða á ýmsum sviðum. (Gripið fram í) Meðaltalshækkun hefur ekki verið reiknuð út, en ég ætla, að hv. 4. þm. Sunnl. væri nóg, að það eru dæmi um, að það er 320% hækkun, það eru dæmi um, að það er 120% hækkun, og svo þar á milli og svo eitthvað minna. Hvort meðaltalshækkunin er 100% eða 200%, það skiptir í rauninni ekki svo miklu máli í þessu tilfelli, því að í báðum tilfellum er það vitanlega allt of mikið. Og furðulegt er, að hv. 4, þm. Sunnl. skuli ljá sig í það að ætla sér að bæta úr fyrir þessu með því að gerast málsvari þeirrar vitleysu, sem hér er í frammi höfð.

Hv. 11. landsk. þm. (GJóh) telur alveg sjálfsagt, að þessi háa gjaldskrá taki gildi, og mig undrar það í sjálfu sér ekki, þótt hann vilji vinna að því að koma á hér á Íslandi svipuðum launamun og gengur í Rússlandi. Það er vitað mál, að í Rússlandi er launamunurinn svo mikill, að með því að samþykkja gjaldskrá Verkfræðingafélagsins og láta svo laun hinna lægra launuðu standa nokkurn veginn í stað, þá mundum við nálgast það, sem tíðkast í Rússlandi, þ.e. að skapa hér hálaunastéttir, yfirstéttir. En hv. 11. landsk. þm. hefði

náttúrlega þurft í leiðinni að óska eftir því, að verkfallsrétturinn væri tekinn af þeim lægst launuðu, því að ég er hræddur um, að það verði erfitt fyrir hann að skapa þennan launamismun á Íslandi, nema þá að beita sams konar valdbeitingu gagnvart verkalýðnum og tíðkast í Rússlandi, því að þar eru verkföll bönnuð. En við Íslendingar höfum talið, að það bæri að leysa vinnudeilur með samningum, svo lengi sem það er fært, og gripa ekki til þess að gefa út brbl., nema okkar efnahagskerfi og atvinnulífi sé ógnað.

Ég tel ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta. Ég vil láta þeim það eftir, sem vilja gerast málsvarar hinnar nýju gjaldskrár, og ég ætla, að alþjóð geri sér ljóst, að þessi nýja gjaldskrá mátti ekki taka gildi. Það hefur tekizt, vegna þess að verkfræðingar, þrátt fyrir þessa gjaldskrá, sem meiri hl. Verkfræðingafélagsins hefur samþ., hafa gert sér ljóst, að þarna var boginn spenntur of hátt, — þá hefur tekizt að ná samkomulagi við verkfræðinga um að vinna hin ýmsu störf með mjög hæfilegu móti. Verkfræðingar vinna hjá ríkisstofnunum að nokkru leyti í ákvæðisvinnu, og það er vitanlega ekki nálægt þeirri háu gjaldskrá, sem greitt er eftir, heldur miklu nær því að vera hin gamla gjaldskrá. En því er ekki að neita, að ef verkið vinnst vel og fyrr en reiknað hefur verið með, þá bera verkfræðingar meira úr býtum nú en áður, og það er ekki nema ágætt, að svo sé, að hver maður, sem vinnur vel og afkastar miklu, fái laun eftir því.

Ríkisstj. hefur áreiðanlega gert sér grein fyrir því, hvers virði störf verkfræðinganna séu. Það er ekki vilji ríkisstj., að verkfræðingar fari úr landi og þeim séu ekki sköpuð lífskjör hér. En við höfum harla lítið við verkfræðinga að gera í landinu, ef efnahagskerfið fer allt úr skorðum, sem það mundi gera, ef farið væri eftir hinni nýju gjaldskrá og við ættum að lúta þeim atleiðingum, sem af því leiddi, þeirri kröfugerð, sem kæmi þar í kjölfarið.

Nú er það svo, að meiri hl. hv. allshn. hefur flutt brtt. við frv. um það, að þessi lög skuli gilda aðeins þangað til samningar um kaup og kjör verkfræðinga, sem starfa hjá ríkisstofnunum, hafa tekið gildi. Ég tel, að það sé ekki hér verið að níðast á verkfræðingum, þar sem gert er ráð fyrir því, að samningar verði teknir upp og þeir eigi kost á því að búa við ekki lakari kjör en þau, sem taka gildi — við skulum segja samkv. kjaradómi ekki síðar en 1. júlí. Þegar svo er komið, þá virðist ekki vera ástæða fyrir verkfræðingana að kvarta, nema þá þeir hafi ætlað sér, sem mér dettur ekki í hug að ætla, að búa stöðugt við annað og betra en hliðstæðir starfsmenn hjá ríkinu.

Það væri vitanlega hægt að tala langt mál, ef ræða hv. 11. landsk. þm. væri rakin. Það voru þar svo miklar firrur og fjarstæður, sem fram komu, að það er tæplega þess virði, og ég skrifaði ekki nema lítið eitt upp af því, sem hann hafði að segja. Það er þess vegna ekki eðlilegt, að sú ræða verði gerð að verulegu umtalsefni. Ég vil aðeins mótmæla því að það hafi verið einhver yfirlýsing gefin af mér eða einhverjum úr ríkisstj. um, að það hafi ekki gefizt tími til þess að athuga, hvernig nýja gjaldskráin er, áður en brbl. voru gefin út. Mér skildist, að hann væri að gefa það í skyn, að lögin hefðu verið gefin út að lítt athuguðu máli. Brbl. voru gefin út að vel athuguðu máli og með þeim rökum, sem prentuð eru með frv. og tala fyrir sig sjálf og ég veit að hv. þm. skilja og gera sér grein fyrir, ef þeir vilja. Þau þrjú dæmi, sem ég minntist á hér áðan og rakin voru við 1. umr. þessa máls, þau ein, þótt. ekki sé meira nefnt, nægja til þess að færa fram full rök fyrir því, sem gert hefur verið.

En hv. 11. landsk. þm. og reyndar hv. 4. þm. Sunnl. lýstu því báðir yfir, að þeir hefðu ekki kynnt sér gjaldskrána, en mæla hins vegar báðir eindregið gegn lögunum. Hv. 11. landsk. þm. sagði, að ekki hefði gefizt tími til þess. En hver trúir þessu? Þetta frv, mun hafa verið til 1. umr. hér í hv. d. 1. eða 2. nóv. s.l. Síðan eru 4 mánuðir, og hv. þm. hafa vissulega haft tíma til þess að kynna sér gjaldskrána, nema þeir hafi alls ekki átt kost á því að fá að sjá hana hjá Verkfræðingafélaginu, og trúi ég því ekki. — Ef svo væri, þá gæti það aðeins verið vegna þess, að Verkfræðingafélagið hafi álitið, að það bætti ekki málstað þess, að gjaldskráin lægi frammi og væri til sýnis. En mér finnst það heldur ótrúlegt. Ég vil heldur ætla, að hv. þm. færi þetta fram vegna þess varnarleysis, sem þeir eru í, vegna þess að þeir hafa tekið að sér að tala fyrir slæman málstað og vegna þess að það er vitað, að ef þeir væru með gjaldskrána fyrir framan sig og læsu upp úr henni, þá gætu þeir ekki talað með þeim orðum, sem þeir hafa notað. Ef þeir læsu upp úr gjaldskránni, væru það nægileg mótmæli gegn því, að hún tæki gildi, og þyrfti ekki framar vitnanna við. 7;g hef ekki talið ástæðu til þess að lesa gjaldskrána hér upp, vegna þess að ég veit, að hv. þm. vita svo mikið þrátt fyrir yfirlýsingar hv. 11. landsk. þm. í þessu máli, að þeir hafa gert sér fulla grein fyrir réttmæti brbl., gert sér fulla grein fyrir því. Þess vegna ætla ég ekki að þessu sinni að eyða meiri tíma um þetta mál. Ég tel, sem eðlilegt er, þegar menn taka að sér að verja slæman málstað, að ræður frsm. beggja minni hl. hafi verið þannig, að það sé ekki tilefni til þess að viðhafa fleiri orð að sinni.