22.11.1962
Neðri deild: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

99. mál, framkvæmdalán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. minni hl. fjhn. flytur till. um það, að skipting þessa lánsfjár skuli ákveðin með sérstökum lögum. Í málflutningi og rökstuðningi fyrir þessari skoðun, bæði í þessari hv. d. og hv. Ed., hefur það komið mjög fram og verið eiginlega slegið föstu, að það sé venja, þegar Alþingi samþykki lög um heimíld til lántöku, að þá sé skipting lánsfjárins ákveðin með lögum einnig. Vegna þessara margendurteknu staðhæfinga og að gefnu tilefni frá þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, og rökstuðningi hv. þm. þykir mér rétt aðeins að rifja upp nokkur dæmi til að sýna hv. þdm., að þessar staðhæfingar framsóknarmanna eiga ekki við nein rök að styðjast.

Ef það væri föst venja að skipta lánsfé með lögum, væri auðvitað mjög eðlilegt að fara að rjúfa þá venju, en þessar staðhæfingar hafa sem sagt ekki við rök að styðjast.

Samkv. stjórnarskránni má ekki taka lán, sem skuldbindur ríkið, nema með sérstakri lagaheimild. Á því er þess vegna enginn vafi, að lántökuheimildin þarf að vera í lögum. Hins vegar er hvorki stjórnarskrárákvæði né nokkrar venjur um það, að skipting lánsfjárins til þeirra stofnana eða aðila, sem eiga að njóta þess, skuli vera löggjafaratriði. Ég hef athugað nokkur lög um þessi efni og skal hér nefna hv. þdm. ýmis lög frá undanförnum árum, þar sem þetta kemur skýrt fram.

Árið 1932 voru samþ. lög um lántöku fyrir ríkissjóð, að taka lán allt að 12 millj. kr. Í lögunum eru engin ákvæði um skiptingu lánsfjárins eða til hvers það skuli notað.

Í lögum nr. 16 frá 1933 er heimild til að taka allt að 100 þús. sterlingspunda lán, og í lögunum er ekkert sagt um notkun lánsfjárins.

Í lögum nr. 19 frá 1935 fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán allt að 71/2 millj. kr., ekkert ákveðið um notkun lánsfjárins.

Lög nr. 66 frá 1935 eru heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán allt að 11 millj. 750 þús. kr. Lögin setja engin skilyrði eða ákvæði um notkun fjárins.

Lög nr. 58 frá 1937 heimila ríkisstj. að taka allt að 3 millj. kr. lán, ekkert sagt um notkun fjárins.

Í lögum nr. 42 frá 1938 er heimild fyrir ríkisstj. til að taka allt að 5 millj. kr. lán og enn fremur til að taka 7 millj. kr. lán, eða samtals 12 millj. kr. í lögunum er ákveðið, að 1 millj. kr. af þessari upphæð skuli varið til verksmiðjubyggingar á Raufarhöfn, en að öðru leyti eru engin ákvæði í lögunum um ráðstöfun lánsfjárins.

Í lögum nr. 92 frá 1952 er ákveðið að taka að láni 22 millj. kr. og endurlána stofnlánadeildum Búnaðarbankans, og má því segja, að hér sé ákveðið í meginatriðum um notkun lánsfjárins, en hins vegar ekkert ákveðið í tögunum um skiptingu milli byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs. 1956 og 1957 voru samþ. heimildir til að taka tvö svokölluð ICA-lán í Bandaríkjunum, hið fyrra 4 millj. og hið síðara 5 millj. Framkvæmdabankinn annaðist þessa lántöku fyrir hönd ríkisstj. En ákvörðun um skiptingu þessa lánsfjár, samtals 9 millj. dollara, tók ríkisstj. án þess, að málið væri borið undir Alþingi. Sama er að segja um lán, sem tekið var hjá Kreditanstalt für Wiederaufbau í Þýzkalandi að upphæð 81/2 millj. þýzkra marka. Í lögum var ekkert ákveðið um það, hvernig skipta skyldi fénu. Og sú ríkisstj., sem sat á þessum tíma, svokölluð vinstri stjórn, ráðstafaði þannig án þess að bera það undir Alþingi 9 millj. dollara ICA-láni og 81/2 millj. þýzkra marka.

ICA-lánin svokölluðu voru aftur tekin árin 1959—60, að fjárhæð 6 millj. dollara, en reyndust í ísl. kr. um 200 millj. Til skýringar má geta þess, að á nokkurn hluta þessara lána kom yfirfærslugjaldið 55%, en nokkur hluti þeirra var tekinn eftir gengisbreytinguna 1960. Af þessari fjárhæð, um 200 millj. kr., ráðstafaði Alþingi í 22. gr. fjárlaga fyrir 1959 98 millj., en því, sem eftir var, ráðstafaði ríkisstj. án afskipta Alþingis og án þess að ég minnist þess, að sérstakar óskir kæmu fram frá Alþingi um, að því yrði ráðstafað með lögum.

Vörukaupalánin bandarísku, sem kennd eru við PL-480 og hafa verið tekin í allmörg ár og nema háum upphæðum, eru tekin af ríkisstj., að vísu að forminu til af Framkvæmdabankanum fyrir hennar hönd, en skipting á þeim lánum hefur aldrei verið borin undir Alþingi. Þeim hefur eingöngu verið ráðstafað af þeim ríkisstj., sem setið hafa hverju sinni.

Ég nefni þessi dæmi til þess að sýna hv. þm. svart á hvítu, að þessar fullyrðingar hv. framsóknarmanna um, að það sé föst venja að ráðstafa lánsfé með sérstökum lögum, hafi ekki við neitt að styðjast. Í sambandi við þessi lög, sem ég hef hér rakið, skal ég geta þess þó til skýringar, að stundum hefur komið fram í grg, eða athugasemdum frv. í meginatriðum, hvernig ætti að ráðstafa fénu. Hins vegar hefur það ekki nærri alltaf komið fyrir. Og aðalatriðið er hitt, að það stenzt ekki, að þetta hafi verið eða eigi að vera löggjafaratriði.

Þótt ríkisstj. hefði vel getað í samræmi við venju í ýmsum tilfellum undanfarin ár og ekki sízt með fordæmi frá þeirri nafntoguðu vinstri stjórn ráðstafað þessu fé án afskipta annarra, hefur hún samt sem áður lagt til, og það var samþ. í hv. Ed., að ráðstöfun fjárins skyldi gerð í samráði við fjvn., til þess að fulltrúar Alþ. og fulltrúar allra flokka fengju þannig aðstöðu til að fylgjast með því.

Hv. frsm. minni hl. hóf mál sitt á að greina frá því, að vegna gengisbreytingarinnar þyrfti nú svo stórt framkvæmdalán eins og hér væri farið fram á vegna þess, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hefðu gert það að verkum, að allar framkvæmdir væru miklu dýrari og þess vegna miklu meiri þörf en áður fyrir erlent lánsfé. Náttúrlega þarf ekki að skýra það fyrir hv. þingheimi, að sú gengisbreyting, sem lögfest var í febr. 1960, var náttúrlega að efni til orðin áður en þessi ríkisstj. tók til starfa. Gengið var fallið og það stórkostlega í tíð vinstri stjórnarinnar. Það, sem hér gerðist, var fyrst og fremst staðfesting á gengisfalli, sem hafði orðið áður og raunverulega var miklu meira en þær tvær grímuklæddu gengislækkanir gáfu til kynna, er vinstri stjórnin beitti sér fyrir. En það er nú annað atriði. En varðandi fjárþörf til verklegra framkvæmda er hér um mikinn misskilning hjá hv. þm. að ræða, vegna þess að einmitt vegna efnahagsaðgerðanna þarf nú hlutfallslega minna erlent fé til framkvæmda en áður, og það stafar af því, að fyrir efnahagsaðgerðirnar hefur sparifjármyndun í landinu vaxið svo miklu meira en nokkru sinni áður í sögu landsins, að bankar og sparisjóðir hafa tiltölulega miklu meiri möguleika nú og á næstunni til þess að lána til fjárfestingar og verklegra framkvæmda, og þess vegna þarf hlutfallslega minna af erlendu fjármagni en áður. Staðreyndirnar eru vafalaust þær, að það er þveröfugt við það, sem þessi hv. þm. vill vera láta.