25.03.1963
Efri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allshn. náði ekki samstöðu um afstöðu til þessa máls. Þrír nefndarmanna leggja til, að það verði samþ., svo sem það liggur fyrir eftir breytingu, sem á því var gerð í Nd., einn nefndarmanna leggur til, að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og einn, að það verði fellt.

Frv. þetta er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 2. maí 1962, eftir að auglýst hafði verið stórkostleg hækkun á gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands, þar sem gert var ráð fyrir, að tímakaup hækkaði allt að 320%, auk þess sem aðrar verulegar hækkanir voru frá þeirri gjaldskrá, sem áður hafði gilt, og var talið óhjákvæmilegt að koma í veg fyrir þessa geipilegu hækkun með bráðabirgðalögum þá þegar í stað og ákveðið, að áfram skyldi gilda hin fyrri gjaldskrá Verkfræðingafélagsins, að viðbættum þeim uppbótum, sem síðar höfðu orðið almennt á kaupi manna.

Það er auðvitað eðlilegt meginsjónarmið, sem hægt er að taka undir, sem kemur fram í nál. 2. minni hl. allshn., að það beri að gæta ýtrustu varfærni í sambandi við lagasetningu, þegar um er að ræða kjaramál, sem hér um ræðir. Og vissulega væri það æskilegt, að í kjaraákvörðunum og vinnudeilum væri jafnan slík hófsemi viðhöfð, að óeðlilegt væri og ónauðsynlegt af hálfu ríkisvaldsins að grípa inn í þann ágreining. Hitt gefur jafnframt auga leið, að það væri stjórnleysi í einu þjóðfélagi, ef ríkisvaldið gripi aldrei inn í slíkar deilur, hversu óhóflega sem að væri farið. Og það var skoðun ríkisstj. á s.l. sumri, að með hinni nýju gjaldskrá verkfræðinga væri um svo geysilegar hækkanir að ræða, að óviðunandi væri, og brýn nauðsyn frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar að koma í veg fyrir svo stórfellda hækkun sem þar var um að ræða.

Ég vil taka það skýrt fram, að að sjálfsögðu er verkfræðingastéttin allra góðra gjalda verð, og það má til sanns vegar færa, að kjör hennar hafi ekki verið í samræmi við það, sem stéttarbræður hennar víða njóta. Og það er auðvitað þannig um fleiri stéttir á þessu landi. Vissulega er það rétt, að í launamálum hefur ekki verið metið sem skyldi langt og erfitt nám manna, og einmitt með hliðsjón af þeirri staðreynd er nú unnið að þeirri endurskoðun á kjaramálum opinberra starfsmanna, sem nú stendur yfir. Það er hins vegar jafnljóst, með allri virðingu bæði fyrir verkfræðingastétt sem öðrum stéttum í okkar þjóðfélagi, að þær verða að gæta alls hófs í því litla þjóðfélagi, sem við lifum í, og mega ekki sýna ósanngirni eða óbilgirni, og það tjóar ekki allténd að visa til kjara, sem menn kunna að njóta á erlendum vettvangi, því að það eru auðvitað margar aðrar ástæður, sem taka verður til greina, svo sem öllum er vitanlega ljóst. Hinu er auðvitað ekki að leyna, að verkfræðingastéttin hefur nokkra sérstöðu, sem má að vísu segja að önnur stétt hér á landi, læknar, hafi einnig, að þeir hafa að segja má alþjóðlega menntun og hafa þess vegna aðstöðu til þess að nota vinnuorku sina og sérþekkingu á alþjóðlegum vettvangi, og einmitt af þeim sökum fór það svo á sínum tíma, að verkfræðingum tókst að brjótast undan launalögum og fá gerða sérstaka samninga fyrir sig. Og það er vitanlega svo ástatt um þessa stétt, sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki, að hún hefur aðstöðu til að vissu leyti að setja þjóðfélaginu stólinn fyrir dyrnar. Engu að síður hefur þessi stétt manna sýnt — vil ég segja — fullkomna þegnhollustu í því, að þeir hafa skilið nauðsyn þess, að þessar ráðstafanir voru gerðar t.d. með áðurgreindum bráðabirgðalögum, og áttað sig á því, að hér hafi verið farið of geyst af stað.

Ég held því, að það geti naumast, ef menn skoða það mál áróðurslaust niður í kjölinn, verið raunverulegur efnislegur ágreiningur um, að það hafi verið um að ræða óhæfilega hækkun á taxta verkfræðinga, sem þeir ákváðu á s. 1. vori, og því hafi ekki verið annars kostur hjá ríkisstj. en að gripa til þeirra úrræða, sem hér var gert. En ég endurtek það, sem ég áður sagði, að slíkt eru vitanlega alger neyðarúrræði og þess mjög að vænta, að til slíkra aðgerða þurfi helzt aldrei að taka.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta mál. Það er margrætt og í eðli sinu mjög einfalt mál. En það er niðurstaða meiri hl. allshn. að leggja til, að brbl. verði staðfest, þó með þeirri breytingu, sem á þeim var gerð í Nd., þar sem ákveðið er, að þessi binding við hina eldri gjaldskrá skuli gilda, þar til nýir samningar um kaup og kjör verkfræðinga, sem starfa hjá ríkisstofnunum, hafi tekið gildi, því að sjálfsögðu er eðlilegt, að það verði höfð hliðsjón af niðurstöðu þeirra samninga, og verkfræðingar hljóta að hafa hliðsjón af niðurstöðu þeirra samninga, þegar kemur til ákvörðunar um breytingu á þeirra gjaldskrá.