25.03.1963
Efri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í samræmi við afstöðu framsóknarmanna í Nd. til þessa máls hef ég leyft mér að leggja til, að það verði hér afgr. með rökstuddri dagskrá. Ég get ekki fallizt á, að setning brbl. um þetta efni hafi verið réttmæt, eins og á stóð. Ég tel þvert á móti, að með setningu þeirra hafi verið farið inn á mjög varhugaverða braut og að hún geti orðið varhugavert fordæmi í framtíðinni.

Efni þeirra brbl., sem þessu frv. er ætlað að staðfesta, er í raun og veru það að fella úr gildi gjaldskrá Verkfræðingafélagsins, sem átti að öðlast gildi 1. maí 1962, og ákveða, að áfram skuli vera í gildi gjaldskrá Verkfræðingafélagsins frá 1955. Þetta er hið raunverulega efni þessa frv. og þeirra brbl., sem því er ætlað að staðfesta. Með hinni nýju gjaldskrá, sem þannig var felld úr gildi, var verið að setja verðlagningarreglur á útselda þjónustu verkfræðinga, sjálfstætt starfandi verkfræðinga, verkfræðistofnana, alveg hliðstætt því og t.d. lögmenn setja sér sinar gjaldskrár eða löggiltir endurskoðendur setja gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem þeir inna af hendi. Og að þessu leyti til er það alveg hliðstætt þeirri gjaldskrá, sem á sínum tíma hafði verið sett árið 1955. Það er einmitt alveg sérstök ástæða til þess að undirstrika þetta og leggja á þetta atriði áherzlu, að með þessari gjaldskrá, sem brbl. fella í raun og veru niður, er aðeins verið að setja á eða ákveða þjónustugjald fyrir verkfræðinga, sem starfa sjálfstætt. En hún á alls ekki við og átti alls ekki að eiga við um verkfræðinga sem launþega, um þá verkfræðinga, sem starfa t.d. á mánaðarkaupi, þá sem eru fastráðnir og starfa á mánaðarkaupi, hvort heldur hjá ríkisstofnunum eða öðrum. Hin nýja gjaldskrá, sem öðlast átti gildi 1. maí s.1., snerti því ekki beinlínis þá kjaradeilu, sem verkfræðingar hjá ríkisstofnunum áttu í við ríkið, en það er kunnara en frá þurfi að segja eða það þurfi að vera að rekja það hér, að verkfræðingar við ríkisstofnanir sögðu upp sínum samningum í júlí 1961, og við þá hafa síðan ekki verið gerðir, að mér skilst, neinir formlegir samningar, heldur starfa þeir skv. einhverju sérstöku samkomulagi. Það er ekki gert ráð fyrir því, að kjarasamningalögin og þeir kjarasamningar, sem nú standa yfir, taki til verkfræðinga í þjónustu ríkisins, að mér skilst. Þess vegna er sannleikurinn sá, að enn þá eru málefni þeirra verkfræðinga allra, sem störfuðu og starfa hjá ríkinu og áttu á sínum tíma í kjaradeilu við það, í raun og veru óleyst, og þeirra málefni verða út af fyrir sig ekki leyst með hinum nýju kjarasamningum eða þeim kjaradómi, sem kann að ganga um þau efni.

Að sjálfsögðu á þessi gjaldskrá, sem sett var á sínum tíma, ekki við um störf erlendra verkfræðinga. Þeir starfa að sjálfsögðu eftir sínum gjaldskrám, sem þeir setja sér sjálfsagt með hliðstæðum hætti og verkfræðingar hér hafa sett sér sínar gjaldskrár.

Það verður að mínu viti ekki talið óeðlilegt, að verkfræðingar settu sér nýja gjaldskrá árið 1962, eftir að gjaldskrá félagsins hafði verið í gildi frá 1955. Ég skal engan dóm leggja á þessa gjaldskrá. Mig brestur þekkingu á því að meta hana, hvernig hún er úr garði gerð. Það eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um hana eins og aðrar þvílíkar gjaldskrár. Sumum getur fundizt, að einstök atriði í henni séu ekki sanngjörn, aðrir aftur á móti lita öðrum augum á það, eins og gengur, en það er kannske misjafnt mat lagt á þessi störf hjá ýmsum aðilum. Sem sagt, ég skal engan dóm leggja á þessa gjaldskrá út af fyrir sig. En hitt finnst mér ekki óeðlilegt, þó að svo hafi verið komið árið 1962, að gjaldskráin frá 1955 hafi á ýmsan hátt verið orðin úrelt. Það var vitað mál og þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér, að á þessu tímabili, frá 1955–62, hafa orðið hér geysimiklar raskanir, og ég hygg, að þessar raskanir hafi leitt til þess æði víða, á ýmsum sviðum þjóðlífsins, að það hafi einmitt verið settar nýjar gjaldskrár á þessu tímabili, bæði fyrir ýmsa aðila, sem fást við eins konar löggiltan atvinnurekstur, og líka fyrir ýmis þjónustufyrirtæki, þ. á m. ekki síður fyrir þjónustufyrirtæki hins opinbera en önnur. Ég hygg t.d., að gjaldskrár fyrirtækja eins og t.d. síma, rafmagnsveitu, hitaveitu o.s.frv. hafi ekki verið hækkaðar svo lítið á þessu tímabili. Og ég býst við, að það verði flestir að játa, að það sé ekki óeðlilegt, þó að slíkar gjaldskrár hafi verið hækkaðar á þessu tímabili. Ég hygg líka, að það hafi farið fram hækkun á gjaldskrá ýmissa aðila annarra á þessu tímabili, þó að ég hafi það að vísu ekki við höndina, hvort t.d. gjaldskrá málflutningsmanna hefur hækkað á þessu tímabili eða ekki eða hvort t.d. gjaldskrá arkítekta eða löggiltra endurskoðenda hefur hækkað eða ekki, en ekki finnst mér ósennilegt, að það hafi orðið einhverjar breytingar á þessum gjaldskrám á þessu tímabili. Sem sagt, hvað sem menn álita út af fyrir sig um þessa gjaldskrá, sem sett var af verkfræðinganna hálfu 1962, þá held ég, að mönnum geti ekki þótt það neitt óeðlilegt, þó að fram færi af þeirra hálfu gjaldskrárendurskoðun, þeir settu nýja gjaldskrá 1962, eftir allar þær margvíslegu breytingar, sem þá voru á undan gengnar. Og að sjálfsögðu var það eðlilegt, að margir liðir þeirrar gjaldskrár hlytu að hækka.

Eins og ég hef þegar sagt, skal ég ekki leggja á það dóm út af fyrir sig, hvort þessi hækkun er að öllu eðlileg eða ekki. Það fer, eins og ég hef áður sagt, svo mjög eftir því, við hvað menn miða. Það er t.d. vitað, að þó að sumum þyki, að verkfræðingar hér beri talsvert úr býtum, þá eru þeir að sjálfsögðu mjög í því efni eftirbátar sinna stéttarbræðra erlendis. Þannig er það að vísu líka með marga aðra háskólamenntaða menn, og ég er ekki endilega þeirrar skoðunar, að það sé rétt að miða við það, hvað slíkir menn geta borið úr býtum erlendis, og ég efast um það, að við á næstunni a.m.k. getum boðið slíkum mönnum upp á að öllu leyti sambærileg kjör, að við getum boðið sérfræðingum sambærileg kjör við það, sem tíðkast hjá öðrum þjóðum. En allt um það, þá er því ekki að neita, að verkfræðingar eiga að baki langt og dýrt og ákaflega erfitt nám, og þeir vinna — því neitar enginn — mjög ábyrgðarmikil og nauðsynleg störf í þjóðfélaginu og eiga þess vegna að sjáifsögðu skilið að bera það úr býtum fyrir sín störf, sem þjóðfélagið a.m.k. frekast getur borið.

Það er alveg ótvírætt, að með þessum brbl. er mjög skert frjálsræði manna til þess að verðleggja ekki aðeins sína vinnu, heldur og sina þjónustustarfsemi, endurgjald fyrir þjónustustarfsemi, sem samanstendur af ýmsum öðrum liðum en vinnu. Þannig er ekki annað sýnilegt en að með sömu rökum og þessi brbl. eru sett, þá mætti festa með lögum ýmsar gjaldskrár fyrir ýmsa aðra þjónustu í þjóðfélaginu, sem innt er af hendi. Ég býst við því, að aðilar almennt, sem þar eiga hlut að máli, muni fella sig miður við slíkt. Ég get t.d. hugsað mér, að sú stétt, sem ég þekki kannske bezt, lögmennirnir, mundi ekki taka því neitt sérlega vel, ef það ætti að fara að binda gjaldskrá þeirra með lögum, þannig að hún mætti ekki hækka frá því, sem hún hefði verið sett árið 1955 eða eitthvert ár, sem hún kann að hafa verið sett. Ég get hugsað mér, að opinber þjónustufyrirtæki mundu ekki heldur sætta sig við það með glöðu geði, ef löggjafinn ætlaði að fara að skerast í leikinn og fresta með lögum þeirra gjaldskrá. Hvað sem um þetta má segja, þá liggur sem sagt alveg ljóst fyrir, að þarna er verið að hefta mjög frjálsræði sjálfstæðra atvinnuaðila til þess að setja gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem þeir láta í té.

Ég skal að öðru leyti ekki fara út í þau rök, er hér eru færð fram fyrir setningu þessara brbl. Þar er hækkun sú, sem er talin hafa verið gerð á gjaldskránni, mjög mikil og nefndar ákveðnar tölur í því sambandi. En ég vil aðeins benda á það, að verkfræðingar mótmæltu strax á eftir á fundum sínum setningu þessara brbl. og töldu, að í grg. fyrir brbl. væri um ýmsar rangfærslur að ræða, og töldu, að í setningu þessara brbl. fælist vanmat á íslenzkum verkfræðingum og starfi íslenzkra verkfræðinga. Hv. 2. minni hl. hefur einmitt tekið þessar aths. og mótmæli úr grg. verkfræðinganna upp í sitt nái. og gerir hann það væntanlega að umtalsefni, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fara um þær fleiri orðum hér, bendi aðeins á þetta sjónarmið, sem fram hefur komið af hálfu verkfræðinganna. Og þar undirstrika þeir að sjálfsögðu það, sem ég hef þegar sagt og er að mínu viti aðalatriðið í þessu máli, að gjaldskránni, sem hér er um að ræða, er aðeins ætlað að taka til sjálfstætt starfandi verkfræðinga, en ekki til þeirra verkfræðinga, sem fastráðnir voru, og gjaldskráin snertir því ekki aðeins laun fyrir vinnu, heldur og margvísleg önnur atriði, sem gjaldskráin er undirbyggð af, eins og t.d. húsnæðisliðum og öðrum kostnaðarliðum, sem sjálfstæðar verkfræðiskrifstofur verða auðvitað að taka með í reikninginn, þegar þær verðleggja sina útseldu vinnu.

Eins og áður er sagt, get ég ekki fallizt á, að það hafi verið réttmætt að gripa til þessara brbl., sem hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi reyndar einnig að hlyti að vera algert neyðarúrræði að grípa til.

Eins og lagafrv. nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að þessi gjaldskrá frá árinu 1955 gildi alveg óákveðið, alveg ótímabundið, þ.e.a.s. þar til nýir samningar um kaup og kjör verkfræðinga, sem starfa hjá ríkisstofnunum, hafa tekið gildi. En það veit alls enginn, hvenær slíkt skeður, því að eins og ég hef áður tekið fram, þá er ekki í þessu frv., ef ég skil það rétt, miðað við þá samninga, sem nú fara fram við starfsmenn ríkisins, kjarasamninga þá, enda eru verkfræðingar alls ekki inni í þeim samningum, að mér skilst, heldur er þá miðað við einhverja samninga, sem eiga sér stað einhvern tíma í framtíðinni. Þetta er að mínum dómi engin sanngirni, að ætla þannig að lögbinda gjaldskrá Verkfræðingafélagsins um alveg ótiltekinn tíma. Og slíkt getur vitaskuld haft mjög alvarlegar afleiðingar, ekki sízt vegna þess, að menntun verkfræðinga er, eins og hv. frsm. meiri hl, drap á, með vissum hætti alþjóðleg og eftirspurn eftir verkfræðingum er mikil viða um lönd nú á tímum, og þess vegna gæti svona lagaákvæði, svona óbilgirni, vil ég segja, af löggjafans hálfu leitt til þess, að miklu fleiri verkfræðingar en ella hyrfu að störfum erlendis og frá störfum hér, en af því gæti auðvitað orðið stórkostlegur bagi fyrir íslenzka ríkið, þjóðfélagið í heild. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að mínum dómi að koma ráðningarkjörum verkfræðinga á fastan grundvöll, en eins og ég hef lauslega tekið fram, virðast þeir nú starfa eftir einhvers konar sérstöku samkomulagi í þjónustu ríkisstofnana, þeir sem þar starfa. Það virðist ekki vera komið á neinn fastan grundvöll að mér skilst. Þess vegna er að mínu viti nauðsynlegt að gera við þá nýja samninga, og frá mínu sjónarmiði hefði verið langeðlilegast að láta kjarasamningalögin taka til þeirra eins og hverra annarra opinberra starfsmanna í þjónustu ríkisins. Ríkisstj. verður þess vegna að sinna þessum málum og beita sér fyrir lausn þeirra, því að annars getur stefnt í öngþveiti með þessi mál.

Á þessum sjónarmiðum, sem ég hef hér í örstuttu máli rakið, er hin rökst. dagskrá reist. Í henni felst, að Alþingi vill ekki samþykkja brbl., en hafnar þeim þó með nokkru vægara hætti að formi til heldur en með því að fella þau beinlínis, en jafnframt felst óbeint í þessum afgreiðsluhætti, að gert sé ráð fyrir því, að ríkisstj. beiti sér fyrir því að koma ráðningarkjörum verkfræðinga í þjónustu ríkisins í fast form, þannig að þau mál svífi ekki í eins lausu lofti og nú er.