25.03.1963
Efri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. 2. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Mér hefur stundum fundizt hæstv. ríkisstj. dálitið barnaleg í sínum tiltektum. T.d. þykist ég hafa tekið eftir því, að hún muni hafa fjarska gaman af að sýna vald sitt. Og einmitt þau brbl., sem hér liggja fyrir til umr., bera þessu vott.

Það er kunnugt, að ríkisstj., sem hafa til að bera ríka ábyrgðartilfinningu, eru mjög seinar á sér að grípa til þeirra óyndisúrræðis að beita stéttir valdi, þegar um launamál þeirra eða kjaradeilur er að ræða. Sú hæstv. ríkisstj., sem hér situr nú að völdum, hefur hins vegar reynzt mjög fljót á sér til valdbeitingar í þessu efni. Hún sér sér ekki fyrr færi til að beita valdi, þegar stéttirnar leitast við að bæta kjör sín, en hún gerir það. Hæstv. ríkisstj. okkar virðist sem sagt vera mjög laus höndin í þessu efni, og ég held, að það sé ekki af neinni illmennsku, síður en svo, en að þetta sé frekar barnaskapur.

Útgáfa brbl, um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf 2. maí 1962 var algerlega óþörf lagasetning, var lagasetning algerlega út í hött. Verkfræðingafélag Íslands hafði sett sér nýja gjaldskrá, og gjaldskráin átti að taka gildi eða tók gildi 1. maí. Hæstv. ríkisstj. var ekki sein á sér, og 2. maí var hún búin að setja brbl. í því skyni að ógilda þessa gjaldskrá. Auðvitað varð hæstv. ríkisstj. að færa fram einhverjar ástæður fyrir þessu tiltæki. En ástæðurnar eru mjög léttvægar, þegar að er gáð, svo léttvægar, að raunverulega eiga brbl. af þeim sökum ekki rétt á sér. Þau eru að nokkru leyti þannig brot á stjórnarskrá landsins. Nýja gjaldskráin, sem átti að ganga í gildi 1. maí, fól í sér að vísu hækkun launa verkfræðinga. En sú hækkun, sem þar var um að ræða, var af ýmsum öðrum toga spunnin, sem snerti ekki laun verkfræðinga beint. Og auðvitað er það algerlega villandi, sem sagt er í forsendum brbl., að hækkunin sé í nokkru samræmi við þá tölu, sem þar er nefnd, að hækkunin nálgist það að vera 320%. Meðalhækkunin hvað laun snertir liggur langt fyrir neðan þessa tölu. En það v ar ekki sterkt í forsendum fyrir slíkum lögum að nefna þá tölu, þá raunverulegu launahækkun, sem um var að ræða. Það var ekki gert vegna þess, hversu hún var lág. Auk þess er allur samanburður á eldri gjaldskrá verkfræðinganna og þeirri nýju, sem tók gildi 1. maí s.1., villandi. Þær eru ósambærilegar, sérstaklega vegna þess, að í nýju gjaldskránni eru gerðar ýmsar formbreytingar, skipulagsbreytingar, sem eru nauðsynlegar í samræmi við breytta tækni og breytt vinnubrögð á starfssviði verkfræðinga. Þessu hafa þeir haldið fram og flutt sem rök fyrir því, að það væru algerlega villandi forsendur, sem fram hefðu verið færðar fyrir þessum lögum.

Það varð önnur stétt illa fyrir barðinu á hæstv. ríkisstj. nokkrum mánuðum áður en þessi lög voru út gefin. Það voru starfandi læknar í Reykjavík. Þeir fóru fram á launahækkun hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Fyrstu og einu afskipti hæstv. ríkisstj. af því máli, því deilumáli tveggja aðila um kjör, voru þau að setja brbl., þvingunarlög á starfsemi lækna í Reykjavík. Það voru fyrstu og einu afskipti hæstv. ríkisstj. af því deilumáli. 1 forsendum fyrir þeim lögum var líkt ástatt og hér. Þar var sett fram fullyrðing um 100% hækkun, sem læknarnir færu fram á. Þessi tala var álíka villandi og sú, sem stendur í þessum brbl., sem hér eru til umr., vegna þess að ekki var um sambærileg atriði að ræða, gömlu samningana og þá samninga, sem læknarnir óskuðu að fá. Þeir vildu fá skipulagsbreytingu. Þeir óskuðu eftir því að auka og bæta læknaþjónustuna í bænum. Auðvitað leiddi það til kostnaðarauka fyrir Sjúkrasamlag Reykjavíkur. En þetta var tekið og túlkað sem hrein launahækkun, sem krafa um hreina hækkun á læknatöxtum.

Nákvæmlega eins er farið að gagnvart verkfræðingunum í þeim brbl., sem hér liggja fyrir. Það er ómögulegt að segja annað en að hér séu staðreyndir falsaðar í því skyni að finna brýna nauðsyn til lagasetningar. Nú skulum við segja, að verkfræðingar hafi farið fram á mikla launahækkun sér til handa. Jafnvel þótt svo væri, þá var það óafsakanlegt gerræði af hálfu hæstv. ríkisstj. að setja þessi lög á þeim tíma, sem þau voru sett. Verkfræðingarnir buðust til að eiga tal við rn. og gefa skýringar á hinni nýju gjaldskrá. Þessu tilboði var ekki svo mikið sem anzað. Hæstv. ríkisstj. átti ekkert vantalað við íslenzka verkfræðinga fyrstu dagana í maí. Öllum kemur okkur sjálfsagt saman um, að verkefni íslenzkra verkfræðinga sé mikið og að það sé vaxandi í þjóðfélaginu. Öllum kemur okkur saman um nauðsynina á því að gera starfskjör íslenzkra verkfræðinga sem bezt. Og öllum kemur okkur saman um, að nauðsynlegt sé, að í þessa stétt veljist hæfir menn að gáfum og að menntun. Um þetta deilum við áreiðanlega ekki. En þegar til kastanna kemur, þá gefur hæstv. ríkisstj. ekki einn eyrí fyrir neitt af þessu. Mér er kunnugt um, að hæstv. ráðh. hafa haldið hjartnæmar ræður í veizlum um þýðingu og mikilvægi íslenzkrar verkfræðingastéttar. En í hversdagsleikanum er afstaðan önnur. Þá er skilningurinn allur annar gagnvart þessari stétt.

Og það er ekki svo, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé eina höggið, sem íslenzkum verkfræðingum hefur verið greitt af valdhöfum á síðustu missirum. Það má segja, að það er eitt af mörgum, og það er síðasta höggið og það, sem ekki var verst úti látið. Áður höfðu verkfræðingar lengi barizt fyrir baettum kjörum. Afleiðingin af öllu þessu háttalagi í garð verkfræðinganna er auðvitað sú, að þeir hæfustu flæmast úr landi og færri og færri leggja fyrir sig þetta nám í framtíðinni.

Ég get tekið undir það, sem fram kemur í grg. frá Verkfræðingafélagi Íslands, að forsendurnar fyrir þessum lögum eru rangar og villandi, og aðeins af þeirri ástæðu einni, að lögin eru reist á rangsleitni, ber Alþingi að fella þau. Auk þess, eins og ég hef tekið fram, eru aðrar ástæður til að fara allt öðruvísi að í þessu tilviki, hafa allt annan hátt á viðskiptum hins opinbera við verkfræðingastéttina. Það er hagur þjóðarinnar að nokkru leyti, sem hér er í veði. Ef við flæmum frá okkur alla beztu verkfræðinga landsins og fælum unga og efnilega menn frá því að leggja það nám fyrir sig, þá er efnahag þjóðarinnar illa komið, áður en varir, því að eins og tæknin má sín orðíð mikils og er mikils virði í atvinnuvegum okkar Íslendinga, þá er það neyð, sem skapast, ef ekki fást nægilega margir og nægilega vel menntaðir verkfræðingar til starfa í landinu. Ég er viss um, að þótt verkfræðingarnir að þessu sinni hefðu verið látnir í friði með sína gjaldskrá, þá var efnahag þjóðarinnar af því engin hætta búin. En nú er hætta búin af tiltæki hæstv. ríkisstj., setningu þessara bráðabirgðalaga. Af slíkum tiltektum stafar efnahag og atvinnuvegum þjóðarinnar hætta. Þetta er ein ástæðan fyrir því, að Alþ. ber að fella þetta frv.

Nei, ég undrast um jafnreynda menn og hæstv. ríkisstjórn skipa, hvílíkan barnaskap þeir hafa sýnt í þessum efnum, hvílíkt fljótræði og flan þessi bráðabirgðalagasetning þeirra hefur verið. Vald hennar er að vísu nokkurt, en það er ákaflega lítið á móts við vald launastéttanna, þegar þær beita því valdi, og það þarf sérlega sterka ríkisstjórn til þess að ætla sér ár eftir ár að halda niðri kjörum hins vinnandi fólks. Við sjáum dæmin fyrir okkur þessa dagana, eftir fregnum að dæma í Frakklandi. Þar er sterk ríkisstjórn, ríkisstjórn, sem vafalaust er miklu, miklu sterkari en hæstv. ríkisstjórn, sem hér situr, og hún hefur ráðið fram úr mörgum vanda í sínu landi og sveigt vilja þjóðarinnar á ýmsa vegu, en í kjaradeilunni, sem nú stendur yfir, stendur sú stjórn máttvana. Ég held þess vegna, að setning brbl. eins og þessara þjóni engum góðum tilgangi og gagni hvorki pólitík hæstv. ríkisstjórnar né þjóðinni.