26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hér hefur borið á góma það ákvæði, sem sett var inn í frv. þetta í Nd., og talið, að það skipti miklu máli að fá fram, hvaða hugsun lægi á bak við það. Það er auðvitað eðlilegt, að menn vilji fá það fram. En ég held, að það skipti í rauninni ekki öllu máli, hvort það yrði ofan á, sem kom hér fram hjá hv. 9. landsk. þm., að það væri hans skoðun, að endanlegur úrskurður um þetta mundi liggja fyrir, annaðhvort með samningi eða með úrskurði kjaradóms í sambandi við launaákvarðanir opinberra starfsmanna, eða hvort það þarf að leysast með sérstökum samningum. Mér sýnist ákvæðið vera alveg ljóst, og ég held, að það hljóti að vera öllum hv. þm. einnig ljóst, að ef það verður niðurstaða t.d. kjaradóms, að þessi ákvæði, sem um ræðir í þeim lögum, nái ekki til verkfræðinga, þá hljóti að verða að taka upp sérstaklega samninga við verkfræðinga, þannig að alla vega verði að koma til þess með einhverjum hætti, annaðhvort með úrskurði kjaradóms eða samkomulagi, ef það kynni að verða í sambandi við kjör opinberra starfsmanna, eða þá að sérstaka samninga yrði að taka upp við verkfræðinga, sem auðvitað kemur ekki til að mynda sér skoðun um, fyrr en hitt atriðið liggur fyrir, hvort kjaradómur tekur um það ákvörðun eða ekki, þannig að ég get ekki séð, að efnislega hafi það getað skipt máli í sambandi við þetta ákvæði eða afstöðu til frv., hvort yrði ofan á í þessu tilfelli. Það virtist hins vegar eðlilegt og ég tel, að það sé sjálfsagt að tímabinda þessi lög. Þau geta ekki gilt óendanlega, þessi binding, og þá væri ekki óeðlilegt að binda það við þau tímamörk, að fram hefðu farið nýir samningar um kaup og kjör verkfræðinga hjá ríkisstofnunum, því að eðlilegt er að sjálfsögðu, að gjaldskrárákvæði séu síðan sett með einhverri hliðsjón af þeirri niðurstöðu, sem yrði í slíkum kjarasamningum.