07.02.1963
Neðri deild: 36. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

130. mál, atvinna við siglingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Árið 1957 var gerð sú breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, að tekin voru upp á ný námskeið til undirbúnings undir hið minna fiskimannapróf, en þessi námskeið höfðu fallið niður þá um sinn. Í þessum l. var líka ákveðið, að þetta fyrirkomulag skyldi aðeins gilda um 5 ára skeið, eða frá 1957–1962. Fyrri breyt. eða fyrra meginatriði þessa frv. er að framlengja þetta ástand um önnur 5 ár og láta það gilda til 1967 í staðinn fyrir 1962. Hitt atriðið, sem felst í þessu frv., er það að heimila, að þessi námskeið fari fram eða geti farið fram á öðrum stöðum en þeim, sem lögin kveða nú á um að skuli vera aðalstaðirnir fyrir þessi námskeið, en það eru utan Reykjavíkur Ísafjörður, Akureyri, Neskaupstaður og Vestmannaeyjar, en það hefur komið fyrir, að námskeið, sem átti að halda á þessum stöðum úti á landi, hafa farizt fyrir, vegna þess að ónóg þátttaka hefur verið, en ekki þá verið talin heimild til að flytja þau á annan stað, þar sem þó var eftirspurn eftir því, að námskeið yrði haldið. Sem sagt, þessar tvær breyt. eða efnisatriði felast í frv., annað það að framlengja þetta ástand um 5 ár og hitt að gera kleift að halda námskeiðin utan Reykjavíkur á fleiri stöðum en þeim fjórum, sem tilgreindir eru nú í lögum.

Þetta hefur verið rætt við skólastjóra Stýrimannaskólans, bæði þann, sem nú er, og þann, sem áður var, og eru þeir hlynntir þessum breyt. báðum. Sömuleiðis liggur fyrir bréf frá Fiskifélaginu um þetta efni, sem fer í sömu átt. Ég vænti, að um þetta þurfi ekki að verða miklar umr. Málið liggur einfaldlega og ljóst fyrir.

Það hefur orðið góður árangur af þessum námskeiðum. Eins og segir í grg., hafa 362 menn sótt þau á þessum 5 árum, sem þau hafa verið haldin, og 339 af þessum 362 hafa lokið þaðan prófi. Það hefur verið nokkurt umtal að vísu um það, hvort hækka bæri þetta 120 tonna mark, sem gert er ráð fyrir að minna fiskimannaprófið nægi til, en niðurstaðan hefur orðið sú að gera það ekki, eru allir eða a.m.k. allflestir, sem hlut eiga að máli, því samþykkir. Í l. er líka það ákvæði, að þeir, sem lokið hafa hinu minna fiskimannaprófi, sem hér er um að ræða, geti, ef þeir fá vissa einkunn, setzt í annan bekk stýrimannaskólans og lokið þaðan hinu meira prófi á einu ári til viðbótar.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég vildi leyfa mér að leggja til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað að umr. lokinni til hv. sjútvn.