05.03.1963
Efri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

130. mál, atvinna við siglingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er hingað komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ., með breyt. þó, sem ég skal leyfa mér að gera grein fyrir síðar.

Í þessu frv., sem er ákaflega einfalt, eru aðeins tvö efnisatriði. Hið fyrra og aðalatriðið er það, að framlengdur verði til ársloka 1965 frestur sá, sem gefinn hefur verið til þess að halda námskeið til lúkningar hinu minna fiskimannaprófi. Árið 1945 voru þessi námskeið felld niður, vegna þess að bæði félög yfirmanna, sem starfandi voru, og sjómannaskólinn voru treg til þess, að heimild yrði í l. til þess, að menn mættu sigla skipum, nema með því að hafa tekið hin almennu próf í sjómannaskólanum. Eftir að þessi námskeið féllu niður, varð það mjög algengt, að leitað væri eftir undanþágu, til þess að menn gætu með litla þekkingu siglt skipum, þar sem fulllærðir menn voru ekki fáanlegir. Þetta varð til þess, að árið 1957 var aftur tekið upp þetta kerfi með minnaprófsnámskeiðum og þá veitt til 5 ára eða til ársloka 1962, og hefur þetta nú fallið niður við s.l. áramót. Fiskifélagið hefur sent ráðuneytinu 2 bréf, hið síðara 1962, árið sem leið, sem lýsir málinu allvel, og með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa það upp. Bréfið er svo hljóðandi:

„Með l. nr. 30 frá 17. maí 1957 var svo ákveðið, að tekin skyldu upp á nýjan leik námskeið við stýrimannaskólann og utan Reykjavíkur til undirbúnings hinu minna fiskimannaprófi. Skyldi þetta fyrirkomulag gilda til ársloka 1962. Að óbreyttum l. yrði því árið í ár síðasta árið, sem slík námskeið yrðu haldin. Oss telst svo til, að á þessu tímabili hafi útskrifazt frá þessum námskeiðum 279 nemendur, er skiptast þannig á árin: 1958 64, 1959 110, 1960 79 og 1961 26, en um árið 1962 lágu ekki fyrir neinar upplýsingar, þegar þetta bréf var skrifað. Próf frá námskeiðum þessum veita réttindi til skipstjórnar í innanlandssiglingum á fiskískipi allt að 120 rúmlesta. Og þar sem vér teljum ekki síður brýna nauðsyn fyrir slík námskeið nú en áður, þá leyfum vér oss að fara þess á leit við hið háa ráðuneyti, að gerðar verði ráðstafanir til þess að fá lagaákvæði þessi framlengd til næstu 5 ára á Alþingi því, er nú situr.“

Frv., sem flutt var í framhaldi af þessu bréfi og óskum úr fleiri áttum, gerði svo ráð fyrir, að þetta námskeiðafyrirkomulag yrði framlengt til ársins 1967. Í hv. Nd. var aftur gerð á þessu máli sú breyt. í sjútvn., sem samþ. var í d. og ég út af fyrir sig gat ekki verið að leggjast á móti, að í staðinn fyrir, að þetta fyrirkomulag yrði látið gilda næstu 5 ár, þá var samþ., að það skyldi gilda aðeins til ársloka 1965 eða 3 ár. Og voru þar sömu öfl að verki og áður, sem hafa viljað reyna að komast sem mest hjá þessum námskeiðum, en beina mönnum beint inn í sjómannaskólann. Ég skal þó segja það, að fyrirkomulagið við þessi námskeið er þannig, að þeir, sem þar fá 1. einkunn, geta próflaust setzt í 2. bekk sjómannaskólans til þess að ljúka hinu meira skipstjórnar- eða fiskimannaprófi, og ef þeir ekki ná 1. einkunn, geta þeir fengið leyfi til að ganga undir próf og sanna þannig hæfni sína til að setjast í bekkinn og ljúka hinu meira fiskimannaprófi á aðeins einu ári. Og í bréfi, sem skólastjóri sjómannaskólans hefur sent ráðuneytinu um þetta mál, er frá því skýrt, að það tíðkist nú meira og meira, að þessir námskeiðsmenn fari inn í skólann á eftir til þess að öðlast hin meiri fiskimannaréttindi.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem um þetta atriði þarf að segja, en tækifærið var notað til þess að gera nokkra breyt. á 3. mgr. 1. gr. l. frá 1957, þannig að námskeiðin utan Reykjavíkur skuli ekki jafnstranglega vera bundin við þá staði sem þau hafa verið bundin við, þ.e. Ísafjörð, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjar, heldur sé ráðh. heimilt að ákveða, að námskeiðin skuli haldin á öðrum stað, ef sérstaklega stendur á og næg þátttaka fæst, eða ef námskeið, sem halda átti annars staðar, fellur niður vegna ónógrar þátttöku.

Það hefur komið fyrir og oftar en einu sinni, að námskeið, sem fyrirhugað var að halda á einhverjum þessara 4 staða, hafa fallið niður, vegna þess að þátttaka fékkst ekki næg, en mundi hafa fengizt nægileg, ef á öðrum stað hefði verið efnt til námskeiðsins. Þennan möguleika var talið rétt að opna um leið, svo að ekki væri jafnbundið við þá 4 staði, sem í l. voru áður einvörðungu nefndir, til þess að námskeiðin gætu farið fram.

Ég held, að það sé ekki rétt, að námskeiðin falli alveg niður frá og með s.l. áramótum, heldur verði mönnum gert kleift nú í næstu 3 árin, skulum við segja, eins og hv. Nd. hefur ákveðið, að sækja þau á svipaðan hátt og verið hefur og koma þannig í veg fyrir, að meira af undanþágufólki verði ráðið til skipstjórnar en nauðsynlegt er.

Ég vildi vænta þess, að hv. d. gæti afgr. þetta mál tiltölulega fljótlega. Það getur verið, að það þurfi að taka ákvarðanir í sambandi við það bráðlega. Ég vildi svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.