15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

174. mál, heimilishjálp í viðlögum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er líka í tengslum við það mál, sem áður hefur verið rætt hér í dag. þ.e.a.s. byggingarsjóð aldraðs fólks. Þar er gert ráð fyrir sem lið í aðstoð við þetta fólk, að heimilishjálp, ef starfrækt er í sveitarfélagi samkv. sérstökum l. frá 1952, nái einnig til þessa fólks og sé styrkhæf á sama hátt og hún. Í þeim l. er aðeins gert ráð fyrir, að þessi heimilishjálp sé veitt í viðlögum, þegar það er talið af lækni eða hjúkrunarkonu eða öðrum heilbrigðisaðilum í sveitarfélaginu, að hjálpar sé þörf vegna veikinda eða annarra erfiðleika. En hér er gert ráð fyrir, að það megi veita hinu aldraða fólki varanlega heimilishjálp. Þetta er eina ákvæði frv.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.