26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir því að hækka nokkuð framlag til nýbýla og til þeirra jarða, sem hafa orðið aftur úr með ræktun. Er gert ráð fyrir samkv. 1. gr. frv., að til ræktunar nýbýla verði hækkun 650 þús. kr., eða úr 61/2 millj. í 7.15 millj. Er þá gert ráð fyrir, að hækkunin nái til 44 býla, með því að hún nemi um 15 þús. kr. á hvert býli í ræktun. Þá er og gert ráð fyrir því samkv. 2. gr., að í stað þess að miða við 10 hektara, eins og gert var með l. frá 1957, skuli miðað við 15 hektara og að þær jarðir, sem ekki hafa ræktun upp að 15 hekturum, njóti þeirra hlunninda, sem þessi lög gera ráð fyrir. Er gert ráð fyrir að hækka þannig framlag til þessara jarða úr 6 millj. í 7.6 millj., eða um 1.6 millj. Hækkun samkv. frv. er þess vegna 2 millj. 250 þús. En samkv. 64. gr. l. hefur verið veittur styrkur til bygginga, ekki aðeins á nýbýlum, heldur einnig á jörðum, sem hafa léleg íbúðarhús. Hefur verið veittur styrkur allt að 40 þús. kr. á hvert hús, en eftir þessa hækkun er gert ráð fyrir, að styrkurinn geti farið upp í 50—55 þús., óafturkræfur styrkur.

Það er enginn vafi á því, að þessi lög, sem samin voru 1957 og gera ráð fyrir, að styrkur upp að 10 hekturum skyldi vera miklu hærri en til þeirra býla, sem höfðu tún yfir þetta mark, hafa ýtt undir ræktun á hinum smærri býlum. Síðan það varð, hafa um þúsund jarðir, sem voru með tún innan við 10 hektara, náð þeirri túnstærð í árslok 1961. Og 1387 jarðir, sem áður voru með túnstærð undir 5 hekturum, eru þá með túnstærð frá 5.1 hektara til 9.99 hektara. 438 jarðir eru með 2.5 til 5 hektara túnstærð. Þessum jörðum hefur þokað mjög hægt í ræktuninni, en eftir því sem bústærðin eykst, eftir því vex mönnum geta til þess að auka ræktunina, og þess má geta, að um 200 jarðir eru með tún undir 2.5 hekturum, en það er af persónulegum ástæðum, sem tæplega má búast við breytingu á, fyrr en ábúendaskipti verða. Það kemur í ljós, að eftir því sem ræktuninni fleygir fram og þeim býlum fækkar, sem eru með hin smáu tún, vex bústærðin, og þannig er það, að 1955-1956 eru aðeins 846 jarðir, sem hafa 20 kúgildi og yfir. En í árslok 1961 eru 1426 jarðir, sem hafa 20 kúgildi eða meira. Og 1956 eru það 545 jarðir, sem eru með 7.5 kúgildi, en í árslok 1961 eru það 385. Með frv, er prentuð tafla, sem skýrir þetta vel, hvernig bústærðin breytist með aukinni ræktun.

Samkv. þeim gögnum, sem eru fyrir hendi, nemur samkv. ákvæðum frv. framlagsskyld túnaaukning 17654 hekturum á 2023 jörðum til að ná 15 hektara takmarkinu, og áætlað er, að á jörðum með 10–15 hektara tún verði framlagsskyld ræktun 3500–4000 hektarar. Heildarræktunarþörfin nemur því allt að 21654 hekturum, þannig að þessu marki sé náð. Það má þess vegna gera ráð fyrir, að árlega þurfi framlag til 2700 hektara, og nemur þá fjárþörfin til þessarar ræktunar árlega 6 millj. 750 þús. kr. En samkv. ákvæðum 63. gr. er svo fyrir mælt, að framlög skuli veitt til íbúðarhúsabygginga á lögbýlisjörðum á sama hátt og nýbýlastofnendum er veitt. Þessi styrkur hefur verið greiddur af því fé, sem ráð er fyrir gert samkv. 64. gr., og þess vegna er hækkunin 1.6 millj., eða úr 6 millj. upp í 7.6 millj.

Þá er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, að bústærðin, meðaláhöfn, hefur aukizt, og ef við tökum árin 1956-1961, þá kemur í ljós, að meðaláhöfn í árslok 1956 var 13.8 kúgildi, en í árslok 1961 16 kúgildi.

Það er von mín, að þetta frv. verði til þess að ýta undir ræktunina á hinum smærri býlum, það hjálpi nokkuð til með nýbýlin, að nú er gert ráð fyrir að skila 15 hektara landi og hækka styrk til bygginga frá því, sem var, og einnig að hækka styrk til bygginga á hinum eldri jörðum, sem eru óbyggðar og illa stæðir bændur búa á, bæði til bygginga og ræktunar. Það er ánægjulegt til þess að vita, að ræktunin hefur aukizt jafnt og þétt á undanförnum árum, og ef við athugum aðeins 5 síðustu árin og ræktunarframkvæmdir þeirra ára, kemur í ljós, að ræktunarframkvæmdir 1957 námu 3339 hekturum, 1958 3511 hekturum, 1959 3855 hekturum, 1960 4444 hekturum og 1961 3933 hekturum plús eitthvað óþekkt, að mér er sagt, sem þarna muni bætast við við nánari athugun, þannig að þetta gæti orðið um 4000 hektarar. En til skýringar á ræktuninni 1960 má geta þess, að það eru sennilega kornakrar í þeirri tölu, 400–450 hektarar, þannig að túnræktunin hefur ekki verið nema um 4000 hektarar. Í árslok 1961 var túnstærðin 79795 hektarar, og þegar það er vitað, að talsvert á annað kýrfóður kemur af hverjum hektara, en kúafjöldinn var í árslok 1961 38167, þá er augljóst, að bændur landsins fóðra annan fénað að mestu leyti á töðu. Og útengjaheyskapur er sem sagt alveg að hörfa. Er það út af fyrir sig mjög gott, því að útengjaheyskapur krefst aukins vinnuafls og verður að teljast úreltur á þessum tímum.

Í samræmi við hina auknu ræktun hefur búskapurinn aukizt, og ef við athugum t.d. kúafjöldann, þá eru í árslok 1958 32960 kýr, í árslok 1959 33128, hafði fjölgað um 1137, í árslok 1961 36383, hafði fjölgað um 2118, í árslok 1962 38167, hafði aukizt um 1784. Og í samræmi við þetta er aukning mjólkurafurðanna, sem upplýsingar er að fá um í Árbók landbúnaðarins 1962, þannig að í stað þess að flytja inn smjör, eins og gert var 1959, eru nú miklar birgðir bæði af osti og smjöri, enda þótt salan hafi einnig aukizt innanlands. Og það má sama segja um annan búfénað, að í árslok 1958 eru 737404 sauðkindur á landinu, en í árslok 1961 817759. Eina búgreinin, sem hefur ekki aukizt, er hrossaræktin, sem margir höfðu búizt við, að hefði minnkað meira en raun ber vitni, því að í árslok 1958 eru 31822 hross, í árslok 1961 30936. Og ef við tökum svo töluna á þeim jörðum, sem framfleyta þessum bústofni, þá er það svo, að 1957-1958 eru það 5168 bújarðir, 1958–1959 5208, 1959–1960 5159 og 1960–1961 5261, þannig að jörðunum hefur heldur fjölgað, enda er það í samræmi við nýbýlaaukninguna, sem er venjulega 40–50 á ári, þannig að þótt ein og ein jörð fari í eyði, þá nemur fjölgun nýbýlanna meira en að vega upp á móti því.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. að svo stöddu. Það er vitanlega nauðsynlegt að koma hér á móti hinum aukna ræktunarkostnaði, sérstaklega hjá þeim, sem eru að hefja nýbýli, og hinum, sem enn hafa litla ræktun. Og eins og það þótti nauðsynlegt 1957 að miða markið ekki við 5 hektara eins og áður, heldur við 10, vegna þess að ræktunarkostnaður hafði aukizt og þörfin fyrir aukna bústærð var meiri en áður, þá er sama ástæða nú og þá var tilfærð, að 10 hektarar eru nú of litið ræktað land til þess að framfleyta sæmilegum bústofni. Og ég býst við því, að þegar þessu marki er náð, að engin jörð sé með minna en 15 hektara, þá þyki einnig eðlilegt og sjálfsagt að draga þetta strik ofar, jafnvel upp í 20 hektara.

Ég vil svo leggja til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. landbn.