26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Ég vil lýsa fylgi við þetta frv., svo langt sem það nær. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að benda á, að þessar ráðstafanir, sem hér eru ráðgerðar, hrökkva ekki mikið til að leysa þann mikla vanda, sem fyrir liggur varðandi ræktun og aðra uppbyggingu í sveitunum á þeim býlum, sem skemmra eru á veg komin, og nýbýlum og raunar á flestum bújörðum. Það er gert ráð fyrir, að í þessu frv. felist 650 þús. kr. framlög á ári í heild til landbúnaðarins, og sjáum við á því, að þótt þetta sé eilítið spor í rétta átt, þá hrekkur þetta skammt.

Ég hefði álitið, að það ætti að setja markið hærra en 15 hektara strax í sambandi við hærri jarðræktarframlögin, og enn fremur, að það ætti að hækka þau talsvert frá því, sem nú er, þ.e.a.s. borga talsvert meira en gert er ráð fyrir út á hvern hektara á þeim býlum, sem styttra eru komin. Vænti ég, að þetta verði athugað í þeirri n., sem málið fær til meðferðar.

En ég stóð upp til að styðja þetta, svo langt sem það nær, og eins til að benda á þann stórkostlega vanda, sem orðinn er með síhækkandi stofnkostnaði, ekki aðeins í ræktun, heldur ekki síður á byggingum í sveitunum. Og bendi ég á, að jarðræktarlögin og yfirleitt öll löggjöf, sem fjallar um framlög til stuðnings uppbyggingu í landbúnaði, er nú gersamlega úrelt orðin. Það er orðin slík verðlagsbylting í þessum greinum eins og öðrum á örstuttum tíma, að öll sú löggjöf er úrelt orðin. Og ef ekki á að verða stórtjón og menn gefist upp í stórhópum við það að rífa sig út úr vandanum, þá verður áreiðanlega að auka mjög verulega jarðræktarframlagið í öllum greinum og færa það í samræmi við þetta nýja viðhorf. Þó að þetta frv. sé, eins og ég sagði, pínulítið spor í þá átt, nær það óendanlega skammt í þessu tilliti.

Mig langar þá til að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann muni ekki leggja fyrir þetta þing nýja jarðræktarlöggjöf eða frv. til breytinga á jarðræktarlögunum. Það mun nú vera búið að framkvæma endurskoðun á þeirri löggjöf, og ég held það sé áreiðanlegt, að það frv. sé hjá honum eða hæstv. ríkisstj. Vil ég því nota tækifærið og spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvort stjórnin muni ekki leggja það mál fyrir þetta þing. Þessi mál eru öll komin í mikið óefni, sem okkur er öllum ljóst, og þeim mun lengur sem dregst, að fram fari allsherjarbreyting á þessum framlögum, þeim mun hættara er við, að varartlegt tjón verði af.