07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm, minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég held, að það hafi verið meira af vana hjá hæstv. ráðh., að hann fór upp í ræðustólinn, heldur en af því að honum hafi fundizt hann eiga beint þangað mikið erindi, því að sannleikurinn er sá, að hann er svo oft búinn að vera hér í þessum ræðustól og segja þetta sama, sem hann var að segja núna, að ég eiginlega kann þetta allt saman, því að hann er svo oft búinn að tala hér í svipuðum dúr.

Hann segir t.d., að hann telji það hina mestu svívirðu af mér og okkur framsóknarmönnum hér á Alþ. að hafa verið á móti stofnlánadeildarskattinum. En sannleikurinn er sá, að stofnanir bændanna, tvær höfuðstofnanir þeirra, Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Ístands, hafa báðar mótmælt þessum skatti, og seinast mun samflokksmaður hans í gær hafa mælt fyrir slíkri till. á bímaðarþingi, svo að það eru fleiri en framsóknarmenn, sem hafa ýmislegt við þessa skattlagningu að athuga. Það var þetta sama hjá hæstv. ráðh. og vant er: yfirboð, yfirboð. Ef við hér í stjórnarandstöðunni leggjum eitthvað annað til en það, sem í frv. stjórnarinnar stendur, þá heitir það yfirboð, það skal ævinlega heita yfirboð. En hvað hefði unnizt yfirleitt í löggjafarstarfi fyrir almenning á Íslandi, ef þeir, sem í stjórnarandstöðu eru oft og tíðum, hefðu ekki reynt að komast lengra en stjórnin á hverjum tíma sá sér fært að fara. Þetta veit sjálfur hæstv. ráðh. ósköp vel, að þannig vinnst þetta löggjafarstarf til gagns fyrir almenning í landinu, að það verður að sækja á. Það verður sífellt að sækja í hendur ríkisvaldsins það, sem almenningur þaðan fær, og oft með harðri hendi að toga það og ekki sízt hjá núv. ríkisstj.

Ég ætla ekki að orðlengja um þessa ræðu, hún er gömul, hefur oft verið flutt, og það er kannske eðlilegt. en mér hefði fundizt ráðh. geta alveg sparað sér að halda þessa ræðu núna, því að í minni ræðu, sem ég flutti um þetta mál hér áðan, var hvergi vikið að honum á nokkurn hátt. Það var aðeins gerð grein fyrir þeim till., sem ég var hér að mæla fyrir, og þeirri stefnu, sem ég vildi láta hafa og minn flokkur í þessu efni.

Hann segir, að ég fari rangt með það, að lánstími hafi verið styttur í Búnaðarbankanum. Ég skil ekkert í, að hæstv. ráðh. skuli halda þessu fram. Ég hef margoft tekið lán í Búnaðarbankanum, bæði fyrr og síðar. Lánin voru þar yfirleitt í ræktunarsjóði til 20 ára, þangað til nú fyrir þremur árum, þá voru þau færð niður í 15 ár, og seinast í haust voru þau þetta. Það getur skeð, að það hafi verið lengdur lánstíminn núna eftir áramótin. Ég skal ekki segja um það, það má vel vera. En lán, sem tekin voru hér í Búnaðarbankanum í haust, voru til 15 ára, segja mér menn, sem tóku lánin, en ég tók þar ekkert lán sjálfur í haust.

Hann kennir okkur framsóknarmönnum sí og æ um það, að ræktunarsjóður og byggingarsjóður hafi ekki getað sinnt hlutverki sínu, eins og þeir yfirleitt orða það. En það er á hvers manns vitorði, að gengisfellingin mikla, sem þessi hæstv. ríkisstj. stóð fyrir, auðvitað át upp eignir þessara sjóða, vegna þess að þeir voru með mikið af erlendu lánsfé í takinu. Það er leiðinlegt að þurfa að vera sífellt að endurtaka þetta.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að gera aðrar aths. við þessa ræðu. Eins og ég sagði áðan, er þetta allt saman gamalt og margþvælt og ástæðulaust í sambandi við þetta mál að fara að hafa hér almennar umr. um þessi atriði.