04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er stjfrv, og komið frá Nd. Breytingar þær, sem í frv. felast við stofnlánadeildarlögin frá 1962, eru við þann kafla l., sem fjallar um landnám ríkisins, ræktun og byggingar í sveitum.

Með nýbýlalögunum frá 1946 er gert ráð fyrir sérstökum fjárstuðningi til ræktunar á nýbýlum vegna fyrstu 5 hektara í nýrækt. Siðan var þessi aukafjárstuðningur til ræktunar færður upp í 10 hektara, og jafnhliða var 1957 aukajarðræktarstyrkur lögleiddur til annarra jarða, sem höfðu minni tún en 10 hektara. Þótti þá skynsamlegt að örva ræktunarframkvæmdir á smájörðum með auknum fjárstuðningi, jörðum, sem höfðu minna ræktað land en þetta, og væri þá hægt að stunda bú á jörðunum og risa undir auknum byggingarkostnaði og vélakosti. Síðan þessi aukajarðræktarstyrkur var lögleiddur, hefur mikið áunnizt, og munu nú um 1000 býli hafa náð þessu marki til viðbótar þeim, sem áður höfðu náð því, miðað við árslok 1961. Eru þó enn eftir á annað þúsund jarðir með minni tún en þetta.

En síðan 1957 hefur enn sýnt sig, að 10 hektara túnstærð er of lítil. Vinnuafl og vélakostur nýtist ekki nógu vel á svo litlum bújörðum. 15 ha. eru nú taldir lágmark, þar sem 10 þóttu viðunandi 1957. Af þeim sökum er þetta frv. flutt, sbr. 1., 2., 3. og 5. gr. þess. Aukaframlagi er nú ætlað að ná til 15 ha. Þá er og lagt til, að byggingarstyrkur til endurbygginga á sveitabæjum hækki úr 40 þús. kr. á hús í 50 þús., samkv. 48. gr. stofnlánadeildarlaganna. Hvort tveggja þetta verður að teljast til bóta, og er landbn. sammála um það út af fyrir sig. Hins vegar flytja tveir nm. brtt. við frv. og vilja ganga enn lengra í auknum stuðningi við ræktun á jörðum þessum og einnig við byggingar á íbúðarhúsum í sveitum. Má að sjálfsögðu um það deila jafnan, hvað ganga á langt í slíkum fjárstuðningi, og raunar ágætt að geta gengið sem lengst. En ég tel þó jafnan betra að hafa eina kráku í hendi en tvær í skógi, eins og danskurinn segir, og á þessu stigi mun ekki vera ráðlegt að setja markið hærra en þetta.

Landnám ríkisins hefur gert þá áætlun, sem felst í þessu frv. um það, hvað hækka þurfi liði samkv. frv. frá því, sem verið hefur. Gerir landnámsstjóri ráð fyrir, að framlög til ræktunar verði á 2700 hektara á ári samkv. þessu frv., eða 6 millj. 750 þús. kr., og 850 þús. kr. í íbúðarhúsabyggingar, eða alls 7.6 millj. samkv. þessum tveim liðum. Er það 1.6 millj. kr. hækkun frá því, sem nú er í gildi samkv. l. Miðað við þá reynslu og kunnugleika, sem landnám ríkisins hefur í þessum efnum, tel ég mjög líklegt, að áætlun þessi sé nærri lagi, og því ekki ástaeða til á þessu stigi málsins að gera brtt. við þetta eða þær tölur, sem frv. gerir ráð fyrir til hækkaðra framlaga til landnáms, ræktunar og bygginga í sveitum. Það var að vísu gerð hækkun á einum lið frv., að því er snertir byggingarstyrkinn, í Nd., en það er hækkun úr 40 þús. kr. upp í 50 þús. á hús, en sú hækkun mun ekki hafa þau útgjöld í för með sér, að ástæða sé til að breyta frv. þess vegna.

Ég tel, að frv. miði í rétta átt og það muni þegar áorka talsverðu í þá átt, að túnin stækki, sem er afar nauðsynlegt. Segja má að vísu, að 15 hektara túnstærð sé ekki lokatakmark. En það er þó stór áfangi frá 10 hektara túnstærðinni, sem þótti viðunandi 1957.

Árið 1961 voru sérmetnar jarðir á landinu 5261 og áhöfnin að meðaltali 16 kúgildi. Hafði þeim þá fjölgað frá 1956 um 86 og bústærðin vaxið frá sama tíma um 2.2 kúgildi til jafnaðar á jörð. Á þessu tímabili hefur þó talsvert af jörðum farið í eyði, eða svipað og næsta ár á undan, þar sem aðstaðan er allra verst. En nýbýlin virðast hafa gert heldur betur en vega upp á móti fækkun, að því er heildina snertir, enda er landnám ríkisins hin þarfasta stofnun.

En því má ekki gleyma, að meðaláhöfn jarðanna er allt of lítil, 16 kúgildi. Er því brýn nauðsyn á að auka ræktunina, einkanlega á smábýlunum. 1961 voru 1445 býli með túnstærð undir 10 hekturum og 1262 með tún undir 15 hekturum, eða samtals 2707 býli af 5261, sem í byggð var 1961. Þetta er allt of stórt hlutfall. Ef allt er með felldu, vex áhöfnin með aukinni ræktun, búin stækka, afkoman batnar. Þetta frv. miðar í rétta átt að þessu leyti, og legg ég því til fyrir hönd meiri hl. landbn., að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.