04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða fyrir mig í rauninni að taka hér til máls og sízt af öllu að halda langa ræðu út af þeirri ræðu, sem hv. frsm. minni hl. flutti hér áðan. Hann nefndi að vísu nokkrum sinnum samdrátt, hann nefndi nokkrum sinnum mikilvægi þessara till., sem minni hl. flytur, o.s.frv. Og það er dálítið gaman að lesa nál. minni hl. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Framsfl. undir forustu þáv. forsrh. og landbrh., Hermanns Jónassonar, beitti sér fyrir því árið 1957 að stórhækka jarðræktarframlög til þeirra, sem höfðu innan við 10 hektara túnstærð. Og þetta var alveg geysimikið átak.

Hv. þm. muna kannske eftir greinum með feitum fyrirsögnum, sem birtust í Tímanum, þegar þetta stóra og mikla átak var unnið á árinu 1957. Nú hef ég aldrei gert lítið úr þessu, og það er alveg rétt, sem sagt hefur verið, að þetta hefur gert gagn, þetta hefur ýtt undir ræktun á litlu jörðunum. En ef það hefur verið alveg sérstaklega stórt átak 1957 að færa hámarkið úr 5 hekturum upp í 10 hektara, er það þá ekki talsvert átak í ár að færa það úr 10 hekturum upp í 15 hektara? Og hv. framsóknarmenn í Nd. gerðu enga till. um það að hækka hámarkið úr 15 hekturum að þessu sinni, Ég er alveg sammála um það, að 15 hektara túnstærð er of litil, 20 hektara túnstærð er of litil. Það þarf að vinna að því, að túnin stækki enn þá meira, að það sé ekki aðeins slegið ræktað land, heldur einnig, að það sé beitt ræktað land. En það er dálítið einkennilegt að setja svona lagað fram og beinlínis alls ekki gott fyrir þann, sem vill láta taka mark á máli sínu eða skrifum. Það munu vera fleiri en ég, sem brosa að þessu nál., og segi ég það ekki vegna þess, að ég efist um það, að hv. frsm. minni hl. meinar það, sem hann sagði hér áðan, að hann vill láta ræktunina aukast með enn meiri hraða en verið hefur, og hann meinar það, að búin þurfa að stækka meira, og hann meinar það, að það þurfi að búa betur í haginn fyrir bændur yfirleitt heldur en gert hefur verið. En það verður miklu meira mark tekið á þessum ræðum hans og skrifum, ef hann sýndi um leið einhverja sanngirni og væri ekki að reyna að gera það hvítt, sem var meira og minna flekkótt, þegar hans flokkur fór með þessi mál, landbúnaðarmálin. En hann hefur haft tilhneigingu til þess, þessi hv. þm., að verja allt, sem hans flokkur hefur gert í þessum málum ásamt öðrum, t.d. á vinstri stjórnar tímanum, þegar það var verst, og alls ekki viðurkennt það. Enda var það svo, að þegar þessi hv. þm. kom út úr samstarfinu við vinstri stjórnina, var hann svo svartsýnn, jú, hann hefur séð sólina, en þegar hann var að ræða hér um landbúnaðarmál, fyrst eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, þá taldi hann alveg öruggt, — og það geta hv. þm. séð, ef þeir fletta upp í þingtíðindunum, — hann taldi alveg öruggt, að það yrði geysilegur samdráttur í landbúnaðinum, það mundi vanta mjólk, það mundi vanta smjör og allar landbúnaðarvörur. Þetta var hans spádómur þá. Og ef þið, hv. þm., munið ekki eftir þessu, sem þið hljótið að

gera, þá getið þið séð það í þingtíðindunum. Og þessi hv. þm. hefur talað minna um samdrátt núna upp á siðkastið, en samt getur hann ekki látið það vera að koma með það hér í nál., fullyrða það, að það sé samdráttur í ræktuninni, jafnvel þótt það, sem hann skrifar hér í nál., stangist á við þá fullyrðingu. Það segir nefnilega í nál., að það hafi ekki verið samdráttur í ræktun.

Við vitum ekki enn, hver ræktunin hefur verið 1962, enda er það spurningarmerki, en engin ástæða til þess að ætla, að hún hafi verið minni en 1961, en 1961 er ræktunin mest, sem hún hefur orðið, að einu ári undanskildu. 1957 er ræktunin 3570 hektarar, 1961 er hún 3951 hektari, en 1959 verður hún mest, 4499 hektarar. En hvernig á að skýra það, að þetta eina ár hleypur svona upp? Mér hefur verið sagt, að það ár hafi verið óvenjulega mikil sandræktun, jafnvel 100 hektarar ræktaðir, óvenjumikið það ár, og til þess megi rekja það, að þetta eina ár hleypur þarna langt upp. Ég vil ekki fullyrða, að þessi skýring sé að öllu leyti rétt, en eitthvað hefur hún við að styðjast. En 1960 er fyrsta árið eftir gengisbreytinguna. Eftir að björgunarstarfið var hafið, dregur nokkuð úr þessu, en jafnar sig svo aftur á árinu 1961, þannig að þá er ræktunin orðin meiri en hún hefur nokkurn tíma orðið að þessu eina ári undanskildu.

Það út af fyrir sig er alveg rétt, sem sagt var hér áðan, að ræktunarstyrkurinn er orðinn alveg í öfugu hlutfalli við það, sem honum var ætlað að vera í ræktunarkostnaðinum. Það er alveg rétt. Grasfræið er dýrt, og áburðurinn er dýr og allt þess háttar. En það hefur nú verið gerð tilraun til þess að lækka grasfræið með því að afnema tollinn af því alveg með nýju tollskránni, og áburðarverðinu er nú haldið niðri með niðurgreiðslum og hækkar vissulega ekki meira en efni standa til. Steinefnaáburðurinn verður aðeins lægri en í fyrra, en Kjarninn hækkar um 6%.

Að gefnu tilefni er kannske rétt að gera grein fyrir því, hvernig stendur á því, að Kjarninn hækkar. Tíminn segir í morgun, að landbrh. hafi verðlagt áburðinn. Það er náttúrlega ekki rétt. Áburðarverksmiðjustjórnin verðleggur áburðinn og kemur með rökstudda till. til landbrh. um, hvaða verð skuli vera á áburðinum. Og það væri rétt fyrir hv. framsóknarmenn að spyrja fulltrúa sína í áburðarverksmiðjustjórninni, sem eru 2 af 5, hvort þeir hafi talið fært að verðieggja Kjarnann á lægra verði en þetta, hvort þeir hafi talið það forsvaranlegt, hvort þeir hafi haft aðra till. um annað og lægra verð eða annar eða báðir kannske haft till. um hærra verð. En landbrh. hefur fallizt á rökst. till. þeirra um, að það væri ekki eðlilegt og ekki fært að hafa verðið lægra en raun ber vitni, og kemur þar vitanlega margt til. Áburðarverksmiðjan er orðin of lítil fyrir áburðarþörfina. Það er fluttur inn köfnunarefnisáburður, sem er allmiklu dýrari an innlendi áburðurinn, og með aukinni ræktun er það nú svo, að áburðarverksmiðjan er orðin of litil fyrir okkur. Þó eru ekki nema fá ár síðan það var flutt út talsvert af Kjarnaáburði. En það er út af fyrir sig gleðilegur vottur. Verksmiðjustjórnin er með á prjónunum áætlanir um stækkun á verksmiðjunni, og það er vitanlega mjög nauðsynlegt, að það komi í gagnið sem allra fyrst.

En að öðru leyti um jarðræktarlögin og þá fullyrðingu, sem hér er við höfð, að bændur séu skaðaðir á annan tug millj. vegna seinagangs í því að fá jarðræktarlög, þá er nú kannske rétt að leita eftir orsökunum að því hvernig á því stendur. Það er rétt, að landbrn. fékk frv. til nýrra jarðræktarlaga frá n., sem búnaðarþing hafði skipað. Búnaðarþingsnefndin var ekki kosin af Alþ. eða skipuð af ríkisstj., en það hefði vissulega flýtt fyrir starfinu, ef svo hefði verið. Ég er ekki með þessu að gera litið úr starfi þessarar mþn. búnaðarþings. Ég er ekki heldur að gefa í skyn, að það hefðu valizt betri menn til þessa starfs, þó að þeir hefðu verið skipaðir eða kosnir á annan hátt. En staðreyndin er sú, að þegar ein ríkisstj. eða stjórnarmeirihl. á að taka á sig útgjöld, sem nema a.m.k. 17 millj. kr. á ári, eins og þetta frv. hafði í för með sér, þá er ekki óeðlilegt, að það séu gerðar kröfur til þess, að fulltrúar stjórnarflokkanna fái tækifæri til þess að fara höndum um þetta mál og gera athugun á því, hvort þetta frv. á að vera svona eða öðruvísi, — ekki aðeins það, hvort hækkunin á styrknum er eðlileg, heldur og einnig, hvort ekki ber að breyta ákvæðum jarðræktarlaganna á ýmsan hátt með tilliti til breyttra viðhorfa. Og ég skipaði hina færustu menn í það að athuga þetta frv. Mér er kunnugt um, að þeir eru með ótal brtt. við frv., ekki til þess að spilla því, heldur til þess að gera það fullkomnara og færara um það að þjóna landbúnaðinum með breyttum staðháttum.

En það verður að segja það eins og er, að eins ug frv. var hjá mþn. búnaðarþings, þá voru það í öllum aðalatriðum gömlu jarðræktarlögin með hækkun á styrk, en ákaflega lítið um nokkur nýmæli eða breyt. til samræmis við breytta tíma. Mér er kunnugt um það, að n., sem nú mun vera að starfa við þetta, mun vera mjög langt komin og kannske skilar hún svo fljótt, að það sé a.m.k. hægt að sýna frv., — það hefði ég viljað gera, þó að það ynnist ekki tími til þess að gera það að lögum á þessu þingi, þá hefði ég viljað leggja það hér fram til staðfestingar á því, að það væri vilji stjórnarinnar, að frv. kæmi fram, þótt það yrði ekki að l. fyrr en í haust. Og ég hefði vonað, að þeir gætu flýtt sér svo mikið með það, að það mætti a.m.k. sýna það, en það kemur í ljós. En mér er kunnugt um, að þeir eru með allmiklar breyt., og ég spyr nú: Hvernig stendur á því, að búnaðarþing endurskoðaði ekki eða gerði till. um endurskoðun jarðræktarlaganna fyrr en þetta? Það er ekki fyrr en sumarið 1962, sem þetta frv. berst. En hversu lengi er það, sem bændur hafa búið við skarðan hlut með því að fá of lítinn jarðræktarstyrk? Ég tel, að jarðræktarstyrkurinn hafi verið of lágur mörg undanfarin ár og miklu lægri en ætlazt var til með jarðræktarlögunum. Og við skulum segja, að þetta hafi ekki skekkzt mikið fyrr en á árunum 1957 og 1958 með bjargráðunum. Ég tel þó, að það hafi verið skekkt áður, en alvarleg skekkja hlýtur að hafa komið á það 1958 með bjargráðunum. Hvers vegna var ekki þá strax hafizt handa með endurskoðun jarðræktarlaga? Hvers vegna var það látið dragast? Það skeður ekki fyrr en 1962, að það kemur frv. frá búnaðarþingi, og það er ætlazt til þess, að ríkisstj. taki frv., sem kemur frá búnaðarþingi, og flytji það alveg ómelt og óskoðað af fulltrúum stjórnarflokkanna. Meiri hl. í þessari búnaðarþingsnefnd voru þó stjórnarandstæðingar, aðeins 1/3 hluti að vísu, betri parturinn, var frá stjórnarflokkunum.

Ég hygg, þegar menn líta á málið með eðlilegum hætti og sanngirni, þá verði ríkisstj. ekki ásökuð um það, þótt hún léti fram fara endurskoðun á frv., og það er áreiðanlegt, að frv. verður miklu fullkomnara og betur úr garði gert, þegar það kemur nú úr n., heldur en það var, þegar það kom frá búnaðarþingsnefndinni, án þess að ég ætli nokkuð litið úr henni að gera, því að núv. n. kemur með ýmis nýmæli, sem eiga að vera í þessum nýju l. og eru til frambúðar, sem mþn. búnaðarþings lét undir höfuð leggjast að koma með. Þess vegna er það náttúrlega ekki rökrétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði hér áðan. Það er ekki rökrétt hjá honum, þegar hann talar um, að það sé nauðsynlegt að koma með þetta 20 hektara ákvæði, vegna þess að bændur séu snuðaðir með jarðræktarlögunum, vegna þess að það hlýtur að verða leiðrétt ekki seinna en á næsta hausti. Það er vitað, að frv. er að verða tilbúið, og þá er ekkert lengur til fyrirstöðu að flytja málið, þegar búið er að endurskoða það, þannig að baendur munu ekki búa við skarðan hlut lengur en orðið er, og tel ég, að það sé vissulega orðið nógu langt.

Það má segja, að með þessu frv, er gert ráð fyrir, að hærri styrkurinn verði strax í ár útborgaður styrkur í vor verði veittur á 15 hektara, og ef till. framsóknarmanna væru samþ., þá kæmi það í þetta sinn í 20 hektara markið, en það eru út af fyrir sig engin rök í málinu. Þó finnst mér ekkert út af fyrir sig við því að segja, þótt stjórnarandstaða komi með yfirboðstill., og stjórnarandstaðan hlýtur að gera það í trausti þess, að frv., eins og það er úr garði gert af hendi ríkisstj., verði að lögum samt sem áður, þótt þeir flytji þessar till., því að ekki getur það verið, að þeir vilji torvelda það, að 15 hektara ákvæðið verði lögfest. Allir vita, að tíminn er orðinn naumur til þingloka, og að gera breyt. á frv. hér, sem kannske væri eitthvað umdeild, gæti orðið til þess, að frv. dagaði uppi. Það getur ekki verið, að það sé meiningin hjá hv. minni hl.

Hv. minni hl. flytur sínar till. í trausti þess, að þær verði felldar, sýndartill., og að frv. verði nú að l. samt sem áður.

Í sjálfu sér er ekki mikið um þetta að segja meira. Frsm. hv. minni hl. endurtók hér, sem hann hefur svo oft gert, talaði um óhagstæð lán hjá stofnlánadeildinni, hækkaða vexti o.s.frv., og þess vegna væri þörf á að hækka byggingarstyrkinn meir en gert hefur verið. Og hann sagði áðan eitt ákaflega merkilegt, sem hv. þm. hafa kannske tekið eftir. Hann segir, að það hafi verið fyrir atbeina hv. 2. þm. Sunnl. (AÞ), að styrkurinn var hækkaður úr 40 þús. í 50 þús., því að ekkert hafi verið um það í frv., eins og það var, þegar það var lagt fram. Hvað gerðist í hv. Nd.? Var fjárframlag til þessara mála hækkað í heild á frv.? Nei, það var gerð brtt. um að gera ákvæðið skýrara. En hér er í grg. frv. neðst á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta, sagt greinilega, að það skuli hækka styrk til byggingar íbúðarhúsa. Annaðhvort hefur hv. þm. farið vísvitandi rangt með eða hann hefur ekki lesið frv., — og við skulum segja, að ástæðan fyrir fullyrðingunum hér áðan hafi verið sú, að hann hafi ekki lesið frv., því að þetta er svo skýrt hér. Þar segir: „Skv. ákvæðum 63. gr.“ — ekki frv. heldur l. — „er svo fyrir mælt, að framlög skuli veitt til íbúðarhúsabygginga á lögbýlisjörðum á sama hátt og nýbýlastofnendum er veitt. Þessi styrkur hefur verið greiddur af því fé, er 64. gr. gerir ráð fyrir, og er því framlag skv. 64. gr. ákveðið 7,6 millj. kr.“

M.ö.o.: Það er hækkað úr 6.75 millj. upp í 7.6 millj., til þess að hægt sé að hækka styrkinn til íbúðarhúsabygginga.

Það er óþarfi að hafa fleiri orð um þetta. Fullyrðing hv. þm. er viðhöfð af því, að hann hefur ekki verið búinn að átta sig á þessu máli, og ég skal a.m.k. láta mér nægja þá skýringu, þangað til því yrði mótmælt. Ég vil minna á það, að 1957 og 1958 er byggingarstyrkur aðeins 25 þús. kr., og þá er ætlazt til, að hann sé veittur aðeins til nýbýla. En 1961 er þessi styrkur hækkaður upp í 40 þús. kr., og þá er farið að framkvæma það þannig, að það sé ekki aðeins á nýbýli, heldur til flestra býla, a.m.k. þeirra manna, sem fjárhagslega eru ekki sterkir. Þannig hefur það verið í framkvæmd. Og nú þegar þetta er hækkað upp í 50 þús. kr., er komin 100% hækkun á byggingarstyrkinn, og lánin hafa verið hækkuð úr 75 þús. í 150 þús. Þannig er 100% hækkun á styrk og 100% hækkun á láni síðan 1958, en byggingarvísitalan mun vera eitthvað 44% eða 45%. Og verður því að segja, að það er betur búið að þessum málum nú en var í tíð vinstri stjórnarinnar. Og vitað er, að 1958, þegar bjargráðin voru lögfest, var ekkert gert til þess að hækka lánin eða hækka styrkinn, og það er einnig vitað, að það var ekkert gert, eftir að bjargráðin voru lögfest, til þess að auka framlag til búnaðarsjóðanna, til þess að þeir gætu haldið lánveitingum áfram. 4 millj. voru látnar nægja, sem höfðu verið á fjárlögunum mörg undanfarin ár.

Nú hefur þessu verið snúið við. Búnaðarsjóðirnir hafa verið endurreistir. Ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að þeir geti byggt sig upp, að þeir geti aukið lánin til bygginga, ræktunar og annars í sveitum landsins. Og starfsemin hefur verið færð út, lánað hefur verið út á hjóladráttarvélar, sem ekki hefur verið gert áður. Lán munu vera veitt út á súgþurrkun á þessu vori, sem hefur ekki verið gert áður. Og lán hafa verið hækkuð að hundraðshluta til í hlutfalli við hækkandi dýrtíð og meira en það. sbr. það, sem ég sagði áðan um byggingu íbúðarhúsanna. Og nú er verið að vinna að því að efla veðdeildina, þannig að hún þurfi ekki lengur að búa við það að lána aðeins 35 þús., heldur standa nú vonir til og verður vonandi hægt að fullyrða það, áður en margir dagar liða, að lánað verði allt að 100 þús. kr. úr veðdeildinni í stað 35 þús. Veðdeildin hefur verið févana undanfarið og vitanlega mjög mikil þörf á því að efla hana.

Hv. frsm. minni hl. talaði hér um 1% gjaldið til stofnlánadeildarinnar og taldi, eins og svo oft áður, að það væri ekki gott, að bændur skyldu þurfa að borga það. En hann nefndi ekki að þessu sinni gjaldið til bændahallarinnar, sennilega orðinn leiður á því að nefna þetta hvort tveggja samtímis, enda svolítið óþægilegt í meðförunum.

Ég er samþykkur því, að bændur þurfa að fá auknar tekjur með auknum gjöldum. En bændur munu aldrei hafa borgað gjald, sem þeir fá betur endurgreitt en búvörugjaldið til stofnlánadeildarinnar. Það er ég alveg sannfærður um, það kemur vel í ljós fljótlega. Og hv. frsm. minni hl. ætti nú að vera þess minnugur, að bændur hafa alla tíð haft þörf fyrir að fá auknar tekjur til þess að mæta útgjöldunum. Þetta var ekki síður á þeim tímum, er þessi hv. þm. studdi ríkisstj. Þá bara gerðist það, að bændur fengu ekki í sinn vasa það verð, sem var skráð og 6 manna nefnd samþykkti að þeir ættu að fá. Og hv. 1. þm. Dalamanna þáverandi, hv. frsm. minni hl., ég minnist ekki þess að hafa heyrt það nokkurn tíma, að hann hreyfði hönd eða fót til þess að fá þetta lagað.

Ég minnist þess, að þegar bændur vantaði nærri 30 aura á mjólkurlitrann á skráð verð, þá var það mjög tilfinnanlegt. Ég man ekki, hvað það voru mörg prósent, hvað mjólkurlítrinn var þá. Ætli mjólkurlítrinn hafi verið meira en 3 kr. þá í verðgrundvellinum, 10%? Þetta var tilfinnanlegt, og þetta hefði verið ástæða til að tala um, en hv. þm. gerði það ekki. En hann gerir mikið úr 1% gjaldinu til þess að byggja upp stofnlánadeild landbúnaðarins, og hann gerir mikið úr 6% vöxtum. En hvers virði er það að byggja upp lánastofnun fyrir landbúnaðinn, sem getur innan skamms tíma fullnægt lánaþörfinni og losað þannig við lausaskuldir og víxla og vaxtagreiðslur af þeim? Ég hygg, að lausaskuldirnar og víxlarnir, sem bændur vitanlega urðu að búa við, á meðan lánin voru mjög takmörkuð og takmarkaðri en nú, hafi vel vegið upp á móti mismuninum á 31/3% og 6%, þannig að það út af fyrir sig segir ekki allt, hvað vextirnir eru í stofnlánadeildinni. Hitt segir miklu meira, hvað hægt er að lána mikið með 6% vöxtum og hvað það er stór upphæð, sem bændurnir þá losna við að taka með 91/2 eða 10% vöxtum.

Ég talaði um það, þegar ég fór hér upp í pontuna áðan, að ég ætlaði ekki að tala langt mál, enda gerist þess ekki þörf í tilefni af ræðu hv. frsm. minni hl. Það er nokkuð, sem við vitum, það sem hann sagði hér áðan, að reikna má með og við a.m.k. vonum, að það geti orðið áframhaldandi fólksfjölgun, það verði talsvert á 3. hundrað þús. manns hér á landi eftir 10 ár, og það verði eftir 30—40 ár helmingi fleiri landsmenn en núna. Þess vegna er gott að eiga mikið land ræktanlegt. Og það er enginn vafi á því, að það verður haldið áfram að rækta landið og undirbyggja atvinnuvegina, til þess að þjóðin, þó að henni fjölgi, geti haft nægileg verkefni. Þess vegna er það ánægjulegt, að í dag hafa allir atvinnu. Samdrátturinn og atvinnuleysið, sem spáð var í ársbyrjun 1960, hefur sem betur fer ekki komið. Því v ar spáð af stjórnarandstöðunni þá, að hér mundi innan skamms verða 4000–5000 atvinnuleysingjar. Því var spáð, að það mundi verða mjólkurskortur, smjörleysi og vandræði vegna samdráttar í landbúnaði. En í staðinn fyrir atvinnuleysið þá er nú stjórnarandstaðan farin að tala um vinnuþrælkun, fólkið vinni of mikið. Í staðinn fyrir smjörskortinn og mjólkurleysið þá er það nú svo, að mjólkurbirgðir hafa aldrei verið meiri í landinu en nú, og þó hefur verið flutt mikið út af mjólkurdufti á árinu. Aðeins eitt mjólkurbú, Mjólkurbú Flóamanna, mun hafa fengið um 7 millj. kr. í útflutningsuppbætur á mjólkurduft á s.l. ári. Ég veit ekki, hvað það er mikið yfir allt landið, ég hef ekki spurt um það enn þá, en þær skýrslur koma vitanlega bráðum fram. En þetta út af fyrir sig er mjög ánægjulegt, og fullyrðing hv. frsm. minni hl. um þan, að bændurnir hafi það yfirleitt verra nú en þeir hafi haft það áður, ég held, að hún standist ekki. Tekjur bænda hafa aukizt, sem betur fer, með aukinni framleiðslu, og þó að verðið á landbúnaðarvörum þyrfti að vera hærra, þá búa þeir þó við samningsverð, og þeir fá það verð, sem samið hefur verið um.

Ég veit, að bændur vinna mjög mikið og bændakonur til þess að framleiða eins og gert er. En tekjurnar eru meiri tiltölulega en þær voru fyrir 3 árum, og efnahagur hefur, sem betur fer, ekki versnað. Þetta finnst mér að allir sanngjarnir menn eigi að viðurkenna, enda þótt það sé sjálfsagt og eðlilegt um leið að viðurkenna, að æskilegt er, að bændur og bændafólk geti haft betri kjör en það hefur nú. Við getum verið sammála um, að það sé æskilegt, um leið og við viðurkennum, að það hafi farið betur um þessi mál en á horfðist í árslok 1958 og miklu betur en stjórnarandstaðan spáði um það leyti, sem núv. ríkisstj. tók við völdum. Spádómar stjórnarandstöðunnar byggðust á því, að stjórnarandstöðunni fannst vera svo dökkt í álinn og erfiðleikarnir svo miklir fram undan, að það hlytu að vera á næsta leiti hálfgerðir vandræðatímar, ekki aðeins í landbúnaði, heldur og í atvinnulífinu yfirleitt.