28.02.1963
Efri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Árið 1959 í marzmánuði, eða nánar tiltekið 4, marz, var samþ. á Alþingi svo hljóðandi tillaga:

„Alþingi ályktar að kjósa í Sþ. 5 manna nefnd til að athuga, á hvern hátt unnt sé að búa öldruðu fólki skilyrði til að nota starfsorku sína. N. kýs sér formann úr sínum hópi.

N. skal m.a. taka til athugunar þessi atriði:

1) Stofnun vistheimila fyrir aldrað fólk og þá, sem hafa skerta starfsorku.

2) Stofnun vist- og hjúkrunarheimila.

3) Aðild að greiðslu stofnkostnaðar.

4) Fyrirkomulag á rekstri þessara heimila.

Að athugun lokinni leggi ríkisstj. fyrir Alþingi frv. um þetta efni.“

Hinn 11. marz voru síðan kosin í n. þau Alfreð Gíslason, Kjartan J. Jóhannsson, Ólafur ólafsson læknar, þar af eiga tveir þeir fyrst nefndu sæti í þessari hv. d., og Ragnhildur Helgadóttir alþm. og Sigriður Thorlacius. N. kaus sér síðan sem formann Ragnhildi Helgadóttur.

Í nál., sem þessi n. skilaði í félmrn. nú fyrir ekki löngu og prentað er sem fskj. með þessu frv., er nánar greint frá störfum n. og þeim till., sem hún gerir til þess að ná því marki, sem í þáltill. fólst. N, hefur haft uppi ýmsa viðleitni til þess að afla sér sem fyllstra upplýsinga frá öðrum löndum, eins og líka er skýrt frá í nál., t.d. um það, hvað væri gert af hálfu hins opinbera víða um lönd til að hjálpa öldruðu fólki til þess að nota starfsorku sína, í öðru lagi, hvernig atvinnumöguleikum aldraðs fólks væri háttað, í þriðja lagi, hvað gert væri til að greiða fyrir öldruðu fólki um útvegun húsnæðis við þess hæfi utan stofnana, og í fjórða lagi, hvernig vært fyrirkomulag vistheimila aldraðs fólks og sérstaklega ef um vinnuheimili væri að ræða. Um allt þetta hefur n. fengið ýtarlegar upplýsingar, sem nánar er gerð grein fyrir í nál.

Það, sem liggur til grundvallar fyrir þessari till. sennilega fyrst og fremst, er það, að víðast hvar hefur meðalaldur manna hækkað mjög á síðustu árum vegna bættra lífskjara, hollustuhátta og framfara í læknavísindum. Hefur hlutfall á milli aldursflokka breytzt við það, hópur þeirra, sem komast yfir 65 ára aldur, orðið hlutfallslega stærri en áður og mun enn fara stækkandi á komandi árum. Í nál. segir, að á tímabilinu 1860—1950 hafi meðalævi 65 ára fólks á Íslandi lengzt um 4 ár, og á einum áratug, frá 1940—1950, varð lengingin á meðalaeyfi 65 ára karla á Íslandi 11/2 ár og 65 ára kvenna á Íslandi 1/2 ár miðað við næsta áratug á undan. Síðan eru gefnar ýmsar upplýsingar í nál. um það, hvernig þessi þróun hefur verið í öðrum löndum og hvernig talið er að hún muni verða á næstu árum. Og það ber allt að einum brunni, að þróunin gengur í þá átt, bæði hér og annars staðar, að þetta aldraða fólk verður æ stærri hundraðshluti af heildartölu þjóðfélagsþegnanna með hverju ári sem liður og að fjöldinn allur af þessu fólki er starfshæfur langt fram eftir aldri og miklu lengur en áður hefur verið.

Samkv. þjóðskránni íslenzku voru 1. des. 1960 taldir 14429 manns á Íslandi, sem voru um 65 ára og eldri, og er nánar sundurliðað, hvernig sú tala skiptist á kjördæmi og nokkra kaupstaði, sem ég hirði ekki um að lesa, því að hv. alþm. geta séð það í grg., sem frv. fylgir.

Þá telur n., að beinast liggi við að segja, að starfsorka aldraðs fólks hagnýtist bezt með því, að það haldi áfram að sinna þeim störfum, sem því eru tömust, meðan starfsþrek þess leyfir. Af þessu mætti náttúrlega draga ýmsar ályktanir, og ég fyrir mitt leyti teldi ekki útilokað að draga af því þá ályktun, að mjög kæmi til álíta nú þegar með þessum breyttu hlutföllum, hvort ekki væri tími til kominn að endurskoða lögin um aldurshámark opinberra starfsmanna t.d., því að þau eru svo fyrirvaralaus og undantekningarlaus, að þar verður hver opinber starfsmaður að víkja úr starfi, þegar hann er sjötugur að aldri, þótt ég hafi séð þess mörg dæmi, að menn séu mjög vel starfshæfir, þótt þeir hafi náð þeim aldri, og margir hverjir enn um nokkurt skeið á eftir. En það er mál, sem kemur kannske ekki beint þessu við. Ég aðeins nefni það sem möguleika, að það væri ekki úr vegi að athuga þetta einnig.

Þá segir n., að í þeim löndum, sem bezt búa að öldruðum borgurum, sé reynt að gera þeim kleift að búa að sínu og bjarga sér sjálfir svo lengi sem heilsa þeirra leyfir, og er það talið eitt grundvallarskilyrði til þess, að starfsorka manna nýtist svo lengi sem mögulegt er. Mörgu öldruðu fólki verður það ofraun að eiga að skipta um umhverfi eða starf og láta af starfi, sem það hefur lengi stundað. En það fer eftir heilsufari og heimilishögum einstaklinganna, hvaða ráðstafana er völ þeim til aðstoðar.

Í stórum dráttum, segir n., má flokka þetta aldraða fólk í fimm flokka: 1) Aldrað fólk með fulla starfsgetu. 2) Þá, sem hafa orku til að starfa hluta úr degi. 3) Þá, sem hafa litla starfsgetu og þurfa sérstök vinnuskilyrði. 4) Þá, sem enga starfsgetu hafa. 5) Þá, sem þurfa sérstaka hjúkrun vegna líkamlegs eða andlegs ástands.

Þá telur n., að til aðstoðar þessu fólki ætti að gera eftirfarandi ráðstafanir: 1) Aðstoða það við útvegun hentugs húsnæðis, ef þörf krefur. 2) Útvega því hjálparfólk til ræstinga, sendiferða og aðstoðar á heimilum eftir því, sem þörf er á. 3) Vinnumiðlun eða millíganga um útvegun á starfi við þess hæfi. 4) Starfsleiðbeiningar. 5) Vinnulækningar og endurhæfing.

Þetta frv., sem hér liggur nú fyrir, er flutt í þeim tilgangi að reyna að sinna því verkefni, sem talið er þar undir 1. lið, þ.e. að aðstoða við útvegun hentugs húsnæðis, ef þörf krefur. Þegar fólk er orðið aldurhnigið og líkamsþrek þess tekið að þverra, þarfnast það þægilegs og notalegs húsnæðis af hæfilegri stærð, sem ofbýður ekki þreki þess. Eigi það kost á slíku húsnæði, getur það lengur séð um sig sjálft heldur en ef það verður að sætta sig við óhaganlegt húsnæði.

Þetta frv. um byggingasjóð aldraðs fólks fer í stuttu máli í þá átt, að stofnaður skuli sérstakur sjóður, sem nefnist byggingasjóður aldraðs fólks. Hlutverk sjóðsins er samkv. 2. gr. að stuðla með lánveitingum og styrkjum að því, að byggðar verði hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk. Í þriðja lagi eða í 3. gr. eru svo tekjumöguleikar sjóðsins taldir. Er þar í fyrsta lagi talinn ágóði af happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna samkv. ákvæðum þar um í I. um happdrættið, en það hefur orðið að samkomulagi við stjórn happdrættisins eða sjómannadagsráðið, að vissum hluta af happdrættistekjunum, a.m.k. 40%, verði ráðstafað í þessu skyni. Í öðru lagi eru svo frjáls framlög eða aðrar tekjur, sem til kunna að falla, og vaxtatekjur. Sem sagt, meginuppistaðan í tekjuöfluninni eru þessi 40% af happdrættistekjum dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Stjórn sjóðsins er svo gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins annist, og lánveitingar og styrki úr sjóðnum má svo veita þeim, sem taka að sér byggingu slikra íbúða eins og hér er um að ræða, sem ég geri ráð fyrir að verði fyrst og fremst sveitarfélög og kannske einhverjir aðilar aðrir. Sá möguleiki er a.m.k. látinn opinn í frv. og þá gert ráð fyrir, að sveitarfélögin eða þeir, sem byggja, sjái sjálfir um útvegun á þeim hluta kostnaðarverðsins, sem þessi framlög úr byggingasjóði aldraðs fólks hrökkva ekki til að greiða. Styrkir og lán, sem veitt eru úr sjóðnum, mega samkv. frv. nema allt að 50% af byggingarkostnaði. Nokkur einstök smærri atriði eru líka talin í frv., sem ég hirði ekki um og þarf ekki að rekja, en þetta eru aðalatriðin.

Samhliða þessu frv. og raunar í framhaldi af því hefur n. svo samið tvö önnur frv.: Annað um heimilisaðstoð eða heimilishjálp fyrir þetta fólk, ef á henni kann að þurfa að halda, og er frv. um það á dagskrá þessarar hv. d. í dag einnig, og verður þá gerð grein fyrir því. Í þriðja lagi hefur svo n. samið þriðja frv. um framlengingu á leyfi dvalarheimilis aldraðra sjómanna til að halda áfram happdrætti sínu enn um 10 ára skeið.

Ég tel, að hér sé um allmerkilegt mál að ræða. Þó að það sé ekki stórt í sniðunum kannske enn þá, getur það með tímanum orðið til þess að veita verulegum hópi gamals fólks möguleika til að fá íbúð við sitt hæfi, litla og þá kannske frekar ódýra, en það sem mest á ríður: íbúð, sem er viðráðanleg og það getur betur komið sér fyrir í heldur en kannske í eldri íbúðum, sem það er nú í, sem hafa verið sniðnar við allt annað en þarfir aldraðs fólks. Og einnig á þetta að leiða til þess, að fólk, sem annars mundi hafa lent á elli- eða hjúkrunarheimili, gæti á þennan hátt notið betur ellidaganna og haft meiri möguleika til starfa, ef það fengi íbúðir sem þessar.

Það er náttúrlega ekki hægt á þessu stigi málsins að segja fyrir um það, hve miklir tekjumöguleikar sjóðsins kunna að verða, og ég vil engar tölur nefna í því sambandi á þessu stigi, en ef allt gengur þar eins og áður, ætti þó að vera um talsvert verulega upphæð í þessu skyni að ræða, og ef sveitarfélögin koma svo á móti með sinn skerf, ætti að mega gera ráð fyrir, að allnokkrar íbúðir af þessu tagi gætu komizt upp á hverju ári á næstu árum. Kannske verður svo eitthvað aukið við þetta síðar og möguleikarnir til íbúðabygginganna fyrir aldrað fólk auknir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að rekja þetta mál öllu lengra, en vildi leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr- og félmn.