28.02.1963
Efri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hér er hreyft við mikilsverðu máli. Það er eitt af aðaleinkennum hvers þjóðfélags að búa vel að öldruðu fólki. Og ég hygg raunar, að það megi af fáu álykta betur um það, á hverju menningarstigi þjóðfélag stendur, heldur en af því, hvernig það býr að öldruðu fólki.

Það er staðreynd, sem gerð hefur verið grein fyrir af hæstv. félmrh. í framsögu fyrir þessu máli og rakin er í grg. með þessu frv., að öldruðu fólki fjölgar hlutfallslega, þ.e.a.s. aldur þess lengist og starfsþrek þess endist betur en áður var. Þetta leiðir til þess, að það skapast að sumu leyti sérstök vandamál í sambandi við það. Frá sjónarmiði þjóðfélagsins hlýtur að vera æskilegt að stuðla að því með öllum ráðum, að starfskraftar gamals fólks nýtist sem bezt og sem lengst, og þess vegna hlýtur viðleitnin að beinast að því, að því séu búin slík starfsskilyrði, að það geti notað starfsorku sína við störf, sem því henta. Jafnframt þarf svo að hugsa um hina hliðina, að því séu sköpuð þau skilyrði til aðbúnaðar hvað húsnæði snertir, sem öldruðu fólki henta. En það er ljóst, að á högum fólks verður allmikil breyting frá því kannske að vera í stórri fjölskyldu eða þurfa að sjá fyrir stórri fjölskyldu, þar til gamalmenni - hjón eða einstaklingar — standa oft eftir tvö ein og þurfa þá á nokkuð annarri aðstöðu hvað húsnæði snertir að halda heldur en áður var. Og þegar um húsnæðisvandræði er að tefla á annað borð, þá er auðsætt, að slíkt fólk getur orðið í nokkrum vandræðum. Ég held, að það verði þess vegna að gera hverjar þær skynsamlegar ráðstafanir, sem völ er á, til þess að greiða götu þessa fólks á þann hátt, sem ég hef lauslega drepið á. Af þeim sökum tel ég, að taka beri vel hverri þeirri viðleitni, sem í þá átt miðar. Ég álít þess vegna, að það frv., sem hér liggur fyrir, stefni í rétta átt, svo langt, sem það nær.

Ég vil aðeins í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að þetta frv. eða samning þess á rætur að rekja til þáltill., sem samþykkt var hér á Alþingi 1958, en sú till, var einmitt flutt af framsóknarmönnum, 1. flm. hennar var þáv. þm. Mýramanna, Halldór E. Sigurðsson. Sú till. var að vísu ekki aðeins um það, á hvern hátt öldruðu fólki yrði séð fyrir húsnæði eða búin skilyrði í því sambandi, heldur var hún víðtækari, og í henni fólst það, að athuga skyldi, á hvern hátt væri hægt að búa öldruðu fólki skilyrði til þess að nota starfsorku sína. Mér skilst nú, að sú nefnd, sem kosin var samkv. þessari þáltill., hafi athugað það mál nokkuð almennt. En í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, felst í raun og veru ekki nema einn þáttur þeirrar athugunar. Eftir er að fylgja málinu fram betur og gera þær ráðstafanir, sem nefndin telur að gera þurfi til þess að bæta að öðru leyti skilyrði aldraðs fólks til þess, að það geti nýtt sína starfsorku. Ég vil vænta þess, að frv. eða ráðstafanir í þá átt megi fara á eftir þessu frv. Það er áreiðanlegt, að það er mjög mikilsvert mál. Þjóðfélagið hefur ekki ráð á því að láta starfskrafta aldraðs fólks fara í súginn vegna þess, að það hafi ekki völ á þeim störfum, sem við hæfi þess eru. Jafnframt get ég fyrir mitt leyti tekið undir orð hæstv. félmrh. hér áðan, að það er nú orðið vissulega athugunarefni, hvort þjóðfélagið hefur í raun og veru efni á því að kasta frá sér sínum starfsmönnum svo skjótt sem nú er gert almennt, vegna þess að það er vitað mál, að þeir menn endast yfirleitt miklu betur en áður var og þegar ákvæðin um aldurshámark embættismanna voru sett. Ég get þess vegna tekið undir það, að það sé orðið tímabært að taka þau ákvæði til athugunar, þó að mér sé ljóst, að það er nokkuð erfitt mál, vegna þess að það hlýtur alltaf að vera miðað við einhvern meðalhófsaldur, en það er hins vegar misjafnt, hvernig einstaklingarnir eldast.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram við 1, umr. málsins, að þetta mál, sem hér er flutt, er sprottið upp af þeirri till., sem framsóknarmenn fluttu hér á Alþingi á sínum tíma. Mér virðist frv. miða í rétta átt. Hins vegar getur verið álitamál, hvort nógu langt er gengið í því efni, og m.a. er náttúrlega alveg óvíst, hverjar tekjur þessi sjóður hefur. Þar sem hæstv. félmrh. upplýsti það ekki, hverjar tekjur hefðu verið af happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna og hvers mætti vænta í því efni, þá er með öllu óvíst, hve hárri fjárhæð þau 40%, sem þessum byggingarsjóði eru ætluð, muni nema. En hvað sem um það er, þá er það atriði, sem úr má bæta síðar, ef hér er réttur grunnur lagður. En það, sem ég vildi um leið leggja áherzlu á, er þetta, að það er ekki nægilegt að veita öldruðu fólki aðstoð til þess að eignast eða fá til afnota íbúðir við sitt hæfi, heldur er hitt að mínu viti ekki síður nauðsynlegt, að af þjóðfélagsins hálfu sé veitt aðstoð til þess, að hið aldraða fólk geti sem lengst verið sjálfbjarga og staðið á eigin fótum, því þó að bygging elliheimila sé nauðsynleg og þeir, sem þar hafa verið að verki, eigi mikla þökk skilið fyrir sitt framtak, getur það þó aldrei verið það æskilega frá mínu sjónarmiði séð, að aldrað fólk þurfi að dveljast þar langdvölum. Hitt er frá mínu sjónarmiði æskilegra, að það geti sem lengst verið í sem nánustum tengslum við hið starfandi líf og búið og starfað við sem svipaðastar aðstæður og það hefur áður starfað við. Þetta er sem sagt ekki nema einn þáttur þessa máls, en út af fyrir sig mikilsverður þó. Það er þýðingarmikið, að aldrað fólk eigi völ á húsnæði, sem því hentar, að það eignist slíkt húsnæði eða fái það með öðrum hætti til afnota. En ég get þó um leið og ég segi þetta ekki stillt mig um að láta í ljós þá skoðun, að hitt sé þó ekki síður þýðingarmikið, að hinu unga fólki í landinu séu búin þau skilyrði, að það geti eignazt þak yfir höfuðið. Og ef búið er þannig að unga fólkinu, að það geti eignazt sínar íbúðir, eru náttúrlega nokkrar líkur til þess, að hið aldraða fólk geti fremur komizt af án aðstoðar þess opinbera.