15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur nú gefið hér allýtarlega skýrslu um gang málsins á Alþingi áður, mjög nákvæma, jafnvel um fundahöld og hverjir þar hafa tekið til máls og annað þess háttar, og skortir þar ekkert á annað en tímasetningu, hvað klukkan hefði verið, þegar málið hefði verið tekið fyrir þá og þá. En það getur kannske komið síðar. Mér finnst þetta tog um það, hverjum þetta eða hitt sé að þakka eða hver hafi borið það fram, og annað þess háttar þýðingarlítið. Það getur verið ósköp gott að halda því öllu saman til haga, en aðalatriðið er þó, að málið nái fram að ganga. Og sízt ættu þeir, sem telja sig hafa átt mikinn hlut að málinu í upphafi, að vinna gegn því, að málið sé flutt og því hrundið í framkvæmd. Ég skal svo ekki fara lengra út í það, en sjálfsagt hafa ýmsir átt hlut að því, bæði fyrr og síðar, að koma þessu máli á framfæri. Ég sleppti viljandi að ræða um það í minni frumræðu eða þessum fáu orðum, sem ég sagði í upphafi. Aðalatriðið er, að málið náist heilt í höfn. Svo geta menn togazt á um það á eftir, hverjum sé meira eða minna að þakka, að málið sé komið á það stig, sem það nú er.

Hv, þm. bar fram eina fsp. til mín og það var ástæðan til þess, að ég tók hér aftur til máls. Hann spurði eitthvað á þá leið, hvort frv. næði til vistheimila gamals fólks og þær fyrirgreiðslur, sem í frv. er gert ráð fyrir, væru handbærar í því skyni eins og til íbúðabygginga fyrir einkaíbúðir þessa gamla fólks.

Í frv. er lögð á það áherzla, og raunar er það rauður þráður gegnum frv. allt, að n. heldur því fram, að hún telur ákjósanlegast, að aldrað fólk, sem þess æskir, geti sem lengst dvalizt á eigin heimilum, en gerir þó ráð fyrir, að sá hópur hljóti alltaf að verða allstór, sem af ýmsum ástæðum þarfnast hælisvistar. Ég er alveg sammála þessum skilningi eða þessari stefnu hjá n. Ég tel æskilegt, að á meðan þetta gamla fólk getur séð um sig sjálft, þá geri það það og fái aðstoð, ef þess þarf með, til að annast þau heimilisstörf, sem það getur ekki annazt sjálft. Á þessum forsendum tel ég, að sú aðstoð eða sú hjálp, sem þetta frv. leggur til að veitt verði, bæði styrkir og lán, verði fyrst og fremst látin ganga til íbúðabygginga þar, sem aldraða fólkið getur búið sér og lifað sér án þess að fara á vistheimili. Það er rétt, að það sker ekki úr í frv. sjálfu, hvort aðstoðin sé einskorðuð við þetta. Það, sem í 5. gr. segir um þetta, er, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

„Styrki og lán úr sjóðnum má veita gegn öruggum tryggingum sveitarfélögum eða aðilum, sem sveitarstjórnirnar mæla með og takast á hendur að reisa íbúðir handa öldruðu fólki.“

Þetta gæti hugsazt að ná einnig til vistheimíla, en ég tel þó, að það sé aðalskilningur þeirra, sem frv. hafa samið, að þetta eigi að ganga til íbúðabygginga, þar sem hver fjölskylda geti verið ein og út af fyrir sig, og ekki til neinna vistheimilabygginga. Og ég tel, að það sé sá skilningur, sem í þetta beri að leggja. Um vinnuheimilin segir n. beinlínis, að hún telur ekki að svo stöddu rétt að stofna til sérstakra vinnuheimila eða vinnustofa fyrir aldrað fólk. Hún telur, að gamalt fólk með skerta starfsorku eigi að fá að vera með í störfum með þeim öryrkjum, sem reist hafa verið vinnuheimili fyrir og hafa einnig skerta starfsorku, en ekki að gamla fólkið sé skilið frá og sérstök heimili séu höfð fyrir það, heldur af hverju sem skerðing starfsorkunnar stafar, þá sé fólkinu haldið til vinnu á sama stað, hvort sem það er af elli eða öðrum orsökum.

Ég held, að það hafi ekki verið annað í ræðu hv. þm., sem ég þarf að ræða um. Meginhluti hans ræðu var að rekja gang málsins, og hef ég út af fyrir sig ekkert við því að segja. Mér virtist hann vera frv. hlynntur, þó að honum virtist það ganga skemmra en hann hefði sjálfur óskað. En byrjun er þetta þó, og byrjun, sem örugglega miðar í rétta átt.