15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðallega orð hv. 4. landsk. þm., sem gáfu mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð í viðbót, því að mér fannst, auk þess að það andaði heldur kalt í garð málsins frá honum, þá teldi hann það í ótíma gert að fara að byggja yfir fólk, þegar það væri orðið sjötugt. Einnig fannst mér kenna nokkurs misskilnings hjá honum á því, hvernig þessi hús yrðu byggð og notuð.

Hv. þm. óskaði eftir því að fá að vita, hvernig um það ætti að búa, að aldrað fólk yrði aðnjótandi þessara íbúða í framtíðinni, þó að þær væru í upphafi reistar fyrir gamalt fólk. Þetta er einfaldlega hugsað þannig, að bæjarfélögin og sveitarfélögin reisi þessar byggingar og eigi þær, — og sú hugsun er í frv. og alveg sérstaklega í grg. undirstrikuð, — og byggi þau til þess að leigja út til gamla fólksins með óákveðinni lágri leigu. Það er ekki hugsað sem aðalleið, þó að hún geti komið til greina samkv. 6. gr. frv., að láta einstaklinga fá aðstoð til að byggja fyrir sjálfa sig, heldur hitt, að sveitarfélögin geri það og sveitarfélögin leggi fram helminginn af byggingarkostnaðinum og þessi byggingasjóður aldraðs fólks leggi fram hinn helminginn. Hv. þm. taldi, að það mundu fáir vera svo efnaðir undir lokin, að þeir gætu snarað út byggingarkostnaði fyrir svona byggingu. Það er alls ekkí meiningin. Það er ekki meiningin, að þetta gamla fólk leggi yfirleitt nokkurn skapaðan hlut út, heldur fái aðstöðuna gegnum sveitarfélagið, sem þessi heimili byggir. Það er að vísu gert ráð fyrir þeim möguleikum, að þetta geti átt sér stað, en ég vil heldur skoða það sem undantekningartilfelli en sem aðalreglu.

Þá spurði hv. þm., hvernig íbúð, sem sérstaklega væri gerð fyrir gamalt fólk, ætti að vera. Því er ég náttúrlega ekki tilbúinn til að svara á stundinni. En ég veit þó, að ýmsar kröfur þarf að gera til íbúðar, sem gamalt fólk notar, aðrar en þarf að gera til íbúða, sem venjulegur fullfrískur maður á að nota, sérstaklega það, að þar þarf að vera lítið eða ekkert um stigaganga. Ef byggingin er á mörgum hæðum, þá þarf að vera lyfta í húsinu. Íbúðin á ekki að vera stór, hún á þvert á móti að vera litil, og það á að vera einn kostur hennar, að hún sé lítil, til þess að það sé minna að hirða fyrir húsmóðurina, og ýmsar fleiri kröfur þarf sjálfsagt að gera, til þess að hún nýtist sem bezt af þessu fólki, sem gerir allt aðrar kröfur til lifsins heldur en meðan það er á bezta aldri. Og ég er ekki í vafa um það, að þetta má gera með góðum árangri, því þó að hv. þm. hafi ekki séð þessar byggingar erlendis, þá veit ég, að þær eru til, alveg sérstaklega byggðar fyrir aldrað fólk, og það meira að segja á Norðurlöndum. Þar eru íbúðir, bæði einstakar og í svokölluðum blokkum, sem eru sérstaklega fyrir gamla fólkið gerðar.

Ég get vel fallizt á, að það eigi að hjálpa ungu fólki til að byggja, sem þarf á því að halda, og tel, að það njóti yfirleitt þeirrar fyrirgreiðslu, sem allir húsbyggjendur í þessu landi fá, annaðhvort með l. um húsnæðismálastjórn eða verkamannabústaðalögunum, sem að vísu veita ekki fullnægjandi aðstoð, en aðstoð þó, sem hefur hjálpað mörgum manninum til að koma upp sínu húsi. En ég vil ekki, að það útiloki gamla fólkið, og það finnst mér næstum því að segja koma úr hörðustu átt hjá hv. þm., að hann eins og hálftaldi það eftir að aðstoða gamla fólkið á þennan sama hátt, fólk, sem er búið að vinna langan vinnudag. Hv. þm. sagði, að þetta væri allt í ótíma gert, og eins og ég hef áður sagt, fannst mér anda heldur köldu frá honum til frv.