02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Ég var þar kominn ræðu minni í gær, þegar fundartíma lauk og forseti ákvað að fresta umr., að ég var byrjaður að gera grein fyrir brtt. mínum við frv, til l. um byggingasjóð aldraðs fólks.

Ég lagði í fyrsta lagi til, að fyrirsögn frv. breyttist þannig, að frv. héti „Frv. til laga um byggingasjóð aldraðs fólks og öryrkja“, þ.e.a.s. „og öryrkja“ bættist við í fyrirsögnina, og væri þar með rýmkað verksvið þessarar löggjafar, þannig að þær íbúðir, sem sveitarfélög byggðu, væri sveitarfélögunum heimilt að nota fyrir aldrað fólk og öryrkja. Þetta legg ég til af því, að ég tel, að þær íbúðir, sem byggðar væru með sérstökum hætti fyrir fólk, sem að einhverju leyti væri vanburða, væru jafnnothæfar fyrir almenna öryrkja og fyrir aldrað fólk, og mætti ekki svipta sveitarfélög réttinum til að nota íbúðirnar þannig, ef verkast vildi.

Þá er 2. brtt. mín við frv. við 2. gr. þess, á þá lund, að gr. orðist svo:

„Hlutverk sjóðsins er að stuðla að því með lánveitingum, að byggðar verði utan Reykjavíkur hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk og öryrkja: Hér er lagt til, að þessi sjóður starfi eingöngu að því að byggja íbúðarhúsnæði fyrir aldrað fólk og öryrkja utan Reykjavíkur. Þetta legg ég til sökum þess, að það fé, sem happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna hefur aflað, hefur eingöngu fram að þessu runnið til elliheimilisbyggingar í Reykjavík, svo sem kunnugt er, og hefur þó féð komið frá fólki, sem keypt hefur happdrættismiða í þessu happdrætti hvarvetna á landinu. Nú er með frv., sem hér liggur fyrir, lagt til, að 40% af happdrættistekjunum skuli renna til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir aldrað fólk, en ekkert tekið fram um það, hvort það skuli vera í Reykjavik, utan Reykjavíkur eða hvort tveggja. Virðist því samkv. frv., eins og það er, vera heimilt, að það skuli bæði mega nota féð í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Dvalarheimili aldraðra sjómanna á að fá næstu 10 árin 60% af tekjunum áfram og þá væntanlega til þess fyrst og fremst að fullbyggja dvalarheimili aldraðra sjómanna, sem þegar er orðin mikil stofnun. Mér finnst því ekki óeðlilegt, og af því er sprottin till. mín, að þessi 40%, sem nú á að greina þarna frá, fari til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir aldrað fólk og öryrkja utan Reykjavíkur, og væri þá hluti landsbyggðarinnar sízt meiri eða í hærra hlutfalli en íbúðaskiptingin er milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar að öðru leyti. Samkv. þessari till. mundu þá áfram renna 60% af tekjum happdrættisins til áframhaldandi byggingar elliheimilis aldraðra sjómanna í Reykjavík, sem nú er orðið almennt elliheimili, og svo til íbúðabygginga utan Reykjavíkur að því er snertir 40% af tekjunum. Þetta er ein af mínum meginbrtt. við frv.

Þá er 3. till. mín við 3. gr. frv., á þá lund, að á eftir 1. tölulið komi nýr töluliður, er verði svo hljóðandi:

„Ríkissjóðsframlag að jöfnu á móti happdrættiságóðanum samkv. 1. lið.“

Í 3. gr. segir, að tekjur sjóðsins skuli vera í fyrsta lagi ágóði af happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna samkv. ákvæðum þar um í lögum um happdrættið. Mín till. er svo um það, að næsti töluliður verði um, að ríkissjóður leggi fram til þessa sjóðs jafnmikla upphæð og nemur ágóðanum af happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, þ.e.a.s. þeim hlutanum, sem renna skal í þennan sjóð. Upplýst hefur verið, að miðað við reynslu síðasta árs megi reikna með, að það séu um 2 millj. kr., sem renni til þessa sjóðs af happdrættistekjunum, og finnst mér það frekar lítið, þegar miða skal við það að byggja íbúðarhúsnæði fyrir aldrað fólk hvarvetna á landinu. Þó að ég afmarki sviðið það þrengra, að þessi sjóður skuli eingöngu sjá fyrir byggingum fyrir aldrað fólk og öryrkja utan Reykjavíkur, tel ég, að 2 millj. kr. upphæð orki þar ákaflega litlu. Og mér finnst líka óviðkunnanlegt, að úr því að flutt er sérstakt lagafrv. um þetta mál á annað borð, þá sé ekki séð fyrir einum einasta eyri í tekjuöflun umfram það, sem nú fer til þess að byggja húsnæði fyrir aldrað fólk í landinu, þ.e.a.s. happdrættistekjurnar. Með þessu frv. er í rauninni ekkert annað gert en skipta happdrættistekjunum í tvennt. Ég teldi í alla staði sanngjarnt, að ríkissjóður legði fram framlag að jöfnu á móti þessum hluta happdrættisteknanna, sem koma frá fólkinu sjálfu, og þannig yrði samstarf milli ríkisins og einstaklinganna um að gera átak í þessu máll. 4 millj. kr. eru ekki stór upphæð, þegar á að byggja fyrir það. Hver íbúð kostar a.m.k. 300–400 þús. kr., og það eru þá aðeins örfáar íbúðir, sem hægt er að byggja á ári hverju, þó að upphæðin yrði 4 millj. kr. Meðmn. mínir fengust ekki til að gera breytingu í þessa átt á frv., og þess vegna er þessi till. meðal minna sérstöku till, við frv. og er um það að tvöfalda tekjur sjóðsins, og mundi hann þó sízt vera of mikils megnugur, miðað við þá þörf, sem fyrir er. Það má sannarlega reikna með því, að mörg sveitarfélög vildu notfæra sér þessa heimild um aðstoð til þess að byggja íbúðarhúsnæði fyrir aldrað fólk.

4. till. mín er orðalagsbreyting, og í henni felst einnig efnisbreyting. Upphaf greinarinnar er skýrara orðað: „Tryggingastofnun ríkisins skal annast stjórn og daglega starfrækslu sjóðsins undir yfirstjórn félmrn.“ En í frv. er hún svona: „Stjórn sjóðsins annast Tryggingastofnun ríkisins. Skal fulltrúi stjórnar happdrættis D.A.S. eiga tillögurétt um lánveitingar. Ég taldi ekki eðlilegt, að fulltrúi frá stjórn happdrættis dvalarheimilis aldraðra sjómanna ætti tillögurétt um lánveitingar á þessum hluta sjóðsins og hef því lagt til, að síðari hluti 4, gr. falli niður, tel, að þar séu mjög eðlileg yfirráð í höndum tryggingaráðs og undir yfirstjórn félmrn.

Þá er 5. brtt. mín á þá lund, að í stað 5., 6. og 7. gr. frv. komi tvær nýjar greinar. Með niðurfellingu 5., 6. og 7. gr. er sem sé slegið striki yfir þá hugmynd, að aðrir aðilar, sem sveitarfélög kynnu að mæla með, tækju að sér að reisa íbúðir handa öldruðu fólki, þeirri hugsun sé alveg sleppt og það séu sveitarfélögin ein, og enn fremur, að lán til einstaklinga til kaupa á íbúðum fyrir sjálfa sig megi einnig veita, en það er aðalefni 6. gr. Ég hef, eins og ég hef áður tekið fram, enga trú á því, að það verði margir um og yfir sjötugt, sem fari að byggja yfir sig, ef þeir hafa ekki ráðizt í það áður, og tel, að málið sé í öruggustum farvegi með því, að öll framkvæmdin samkv. þessum lögum sé í höndum sveitarfélaganna. — 7. gr. er um það, að styrkir og lán skuli veitast úr sjóðnum og megi lánið nema allt að 50% af byggingarkostnaði. Ég legg til, að allar þessar þrjár greinar falli niður, en í staðinn komi tvær nýjar greinar, svo hljóðandi:

„a. (5. gr.) Lán með 3% vöxtum til 40 ára má veita úr sjóðnum gegn 1. veðrétti, og má lánið nema allt að 85% af byggingarkostnaði.“

Meðnm. mínir, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, fengust ekki til að ákveða, til hve langs tíma lán úr þessum sjóði skyldu veitt, né heldur að ákveða vaxtafótinn, og leggja til, að það sé ákveðið af ráðuneytinu með eins konar reglugerðarákvæðum. Ég tel eðlilegast, að þetta sé í lögunum sjálfum, og hef tímamarkið ekki lengra en ákvæðin í verkamannabústaðalögunum, sem ákveða 42 ára lánstíma, en lánsvextirnir eru hins vegar ákveðnir mjög lágir, sem sé 3%. Þá er enn fremur heimilað, að lánsupphæðin sé mjög há, og þannig komið mjög til móts við sveitarfélögin, sem vildu notfæra sér þessi lög til þess að koma upp þessum húsum, og þeim gert mögulegt með svona ódýru lánsfé að leigja þessar íbúðir á mjög vægu verði hinu aldraða fólki, sem þeirra nyti.

Þá er b-liður þessarar brtt., sem kæmi aðallega í staðinn fyrir 6. gr., á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Séu þessi ákvæði ekki uppfyllt og íbúðirnar teknar til annarrar notkunar,“ — þ.e.a.s. heldur en fyrir gamalt fólk og öryrkja, „skal sveitarfélagið þegar endurgreiða sjóðnum eftirstöðvar lána. Dragist slíkar endurgreiðslur sveitarfélags úr hömlu, er sjóðnum heimilt að láta selja íbúðirnar án undangengins dóms og sátta til greiðslu á eftirstöðvum þeirra upphæða, sem veittar höfðu verið.“

Ekki er nú líklegt, að oft þyrfti til þess að koma, þegar það er haft í huga, að sveitarfélögin ein samkv. mínum brtt. kæmu til með að hafa á hendi þessar íbúðir og mundu sennilega áframhaldandi hafa þörf fyrir að sjá öldruðu fólki og öryrkjum fyrir húsnæði. En þó taldi ég rétt að hafa þessi ákvæði, þau eru ekki óáþekk því, sem er í brtt. meðnm. minna, en þó ekki samhljóða.

Þá er 6. till. mín við 8. gr. Hún yrði 7. gr. og lagt til, að hún orðist svo:

„Lán úr sjóðnum má því aðeins veita, að íbúðirnar eða húsin séu byggð samkv. teikningum, sem félmrh. hefur samþykkt. Sveitarfélag, sem sækir um lán úr sjóðnum, skal sýna félmrh. fram á þörf aukins íbúðarhúsnæðis fyrir aldrað fólk og öryrkja, og enn fremur, að sveitarfélagið sé fært um að koma íbúðunum upp án tafar.“

Ákvæði ekki ósvipuð þessu en nokkru ónákvæmari eru í 8., gr., a- og b-lið, frv., en hér er nokkru nánar og fastar ákveðið um þetta.

Eins og ég hef þegar gert grein fyrir, er mín síðasta brtt. um það, að frumvarpsheitið verði: „Frv. til l. um byggingasjóð aldraðs fólks og öryrkja.“

Það má segja, að hér sé um að ræða allgagngerðar breytingar á hinu upprunalega frv. En aðalbreytingarnar eru í fyrsta lagi, að byggingarnar megi sveitarfélögin nota ekki aðeins fyrir aldrað fólk, heldur einnig fyrir öryrkja, í öðru lagi, að fé þessa sjóðs, sem hefur til umráða 40% af happdrættistekjum D.A.S., verði eingöngu varið til íbúðarhúsnæðis fyrir aldrað fólk og öryrkja utan Reykjavíkur, og í þriðja lagi, að ríkið leggi fram jafnt framlag á móti happdrættistekjunum, þ.e.a.s., eftir því sem ætla má nú um sinn, um það bil 2 millj. kr., og að ákveðið sé í frv. sjálfu um vaxtakjör og lánstíma og það sé miðað við alllangan lánstíma og mjög hagkvæma vexti, en horfið frá því að heimila lán handa öðrum aðilum en sveitarfélögum, sem ákveðið er um í frv., en ekki nefndir hverjir séu, og algerlega horfið frá hugsuninni um, að einstaklingar fari að byggja yfir sig um og yfir sjötugt. Menn sjá það vafalaust í hendi sér, að það er búið mjög að takmarka þann hóp, sem kæmi til með að nota þann rétt sem einstaklingar, þegar þetta er í kringum sjötugsaldurinn, og enn færri eru þeir, ef það væri um 75 ára eða áttræðisaldurinn. Lögin færu þá fram hjá flestum, og mætti segja, að það væri mjög um of að bjóða þá fram hjálp til fólks til að byggja yfir sig og sína, eins og ég vék að í ræðu minni við 1. umr. málsins. Að því skal ég ekki víkja frekar. Mér finnst, að einstaklingunum sé ekki ætlandi þetta hlutverk og sé dálítið út í hött af ríkinu að bjóða mönnum um sjötugt að aðstoða þá við íbúðabyggingar. En sveitarfélögin eru að mínu áliti réttur og eðlilegur aðili þar að, og mætti þó fyllilega koma að sömu notum fyrir hið aldraða fólk.

Ég hef tekið það fram áður, að frv. fylgi ég, þótt mér þætti það stórum betra, að brtt. mínar næðu fram að ganga, og allflestum brtt. meðnm. minna á þskj. 480 get ég einnig fylgt og tel þær flestar, ef ekki allar, til nokkurra bóta á frv.